Eftirlit á vegum opinberra stofnana hefur aukist ótrúlega hratt undanfarin ár og áratugi og sennilega meira en nokkur annar geiri. Varla er til sá hluti mannlífsins sem ekki býr við eftirlitsstofnun eða -stofu eða –stöð sem virðist sífellt þurfa á meiri fjármunum og starfsmönnum að halda.
Magn hefur verið meira en gæði þegar kemur að þessum iðnaði. Þótt sjálfsagt séu dæmi, sem hafa ekki farið hátt, þar sem eftirlitsiðnaðurinn hefur náð að kæfa einhver mistök í fæðingu þá eru atvikin alveg ótrúlega mörg sem eftirlitið hefur ekki getað séð fyrir, tekið á eða brugðist sérstaklega kröftuglega við.
Matvælastofnun var í sviðsljósinu á dögunum út af áburði sem var leyft að fara á tún án þess að standast öryggiskröfur og svo síðar út af iðnaðarsalti sem var notað af miklum móð í matvæli, þrátt fyrir að vera hugsað í allt annað, eins og forskeytið „iðnaðar-“ gæti hafa verið einhver vísbending um.
Þrátt fyrir að Matvælastofnun hafi lögum samkvæmt alls konar skyldur til að fylgjast með hlutum sem þessum, þá virðist þetta hafa getað gerst um langt skeið án þess að neinn gerði eitthvað sérstakt í þessu. Þetta var flutt inn og dreift og notað án þess að neinn hreyfði andmælum og ekki ólíklegt að atburðarásin hafi verið á þá leið að framleiðendurnir hafi litið svo á að þetta hlyti að vera í lagi fyrst
Matvælastofnun gerði ekki athugasemdir og Matvælastofnun bara gat ekki ímyndað sér að neinn framleiðandi færi gegn reglunum með þessum hætti.
Hvað gerðist í kjölfarið – það sætir enginn hjá Matvælastofnun ábyrgð, það sætir enginn stjórnandi fyrirtækjanna ábyrgð, það hefur enginn hætt að versla við þá sem voru hvað stórtækastir í að flytja þetta inn og það eru bara flestir frekar slakir yfir þessu. Er kannski engin ástæða til að vera með læti? Er það kannski bara dæmigerð 21. aldar vestræn fyrrnig að vera að gera mál úr því að saltið sem maður borðar sé ekki alveg í hæsta gæðaklassa? Það er sjónarmið, en flest erum við sjálfsagt á þeirri skoðun að þetta sé ekki í lagi. Vandinn er að það bara gerist ekkert!
Fyrir nokkru síðan kom í ljós að verksmiðja við Eyjafjörð hafði verið að dæla vítissóda út í fjörðinn í meira mæli en gert var ráð fyrir. Umhverfisstofnun hafði ekki tekið eftir þessu í eftirlitsheimsóknum sínum, sem voru farnar einu sinni á ári og það eftir að hafa gert boð á undan sér.
Atburðarrásin sem fylgdi var kunnugleg – enginn hjá hinu opinbera sætti neinni sérstakri ábyrgð út af þessu (framkvæmdastjóri fyrirtækisins sagði reyndar af sér í kjölfar þessa), en fyrirtækið fékk áminningu frá Umhverfisstofnun. Í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun kom fram að gera þyrfti breytingar á viðbrögðum við því þegar fyrirtæki brjóta gegn ákvæðum starfsleyfa og að stofnunin þyrfti heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, s.s. stjórnvaldssektum, þegar fyrirtæki brytu gegn ákvæðum starfsleyfis.
Já, þurfti svoleiðis heimildir?
Ekki svo að skilja að það sé sérstakt kappsmál að fólk og stjórnendur segi af sér í gríð og erg vegna atburða sem það gat með nánast engu móti haft stjórn á. Það er ekki markmiðið. Vandinn er bara sá að þegar haldið er úti sérstökum stofnunum um eftirlit gagnvart þeim reglum sem fyrirtæki eiga að fylgja að þá hlýtur það eiginlega að fylgja með í pakkanum að einhverjar afleiðingar séu af því af fara gegn þessum reglum? Ef ekki, þá mætti ef til vill fara að kalla þessar stofnanir eitthvað annað en eftirlitsstofnanir, því tilvist eftirlitsstofnunar hefur allskonar áhrif í för með sér. Þögn frá eftirlitsstofnun getur til dæmis hæglega verið túlkuð á þann hátt að allt hljóti að vera í himnalagi auk þess sem hún dregur úr árvekni fólks, þar sem ákveðið hugarfar ræður – að hin opinbera stofnun hljóti nú að sjá um þetta.
Markmiðið er ekki að setja upp eftirlit á öllum mögulegum og ómögulegum sviðum samfélagsins. En á ákveðnum sviðum eru rök fyrir því að halda úti eftirliti, sem verður að virka.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021