Fyrir skömmu kom út ný þýðing á bók Ayn Rand, The Fountainhead. Í augum margra er bókin einhver sú besta og eftirminnilegasta sem þeir komast í tæri við á lífsleiðinni. Ég er þar á meðal.
Íslenska þýðingin ber nafnið Uppsprettan. Þetta er falleg þýðing á nafninu og þótt ég hafi enn ekki lesið þýðinguna þá gefur þessi smekkvísi með nafngiftina góð fyrirheit um afraksturinn.
Það sem heillar suma við Uppsprettuna virðist fylla aðra miklum óhug. Bókin er samfelld varnarræða fyrir rétt einstaklingsins til þess að sækjast á eigingjarnan hátt eftir hamingjunni á sínum eigin forsendum. Hún prédikar sjálfstæða hugsun en tætir í sig hóphyggju og hvers kyns ósjálfstæði og þykjustuleik. Til þess að draga þessar línur skapar Rand persónur sem eru sumar hverjar býsna einhliða og kunna að vera ótrúverðugar. En markmið sögu þarf ekki endilega að vera að skapa trúverðugar persónur – stundum hentar að hafa þær öfgafullar til þess að undirstrika boðskapinn. Ýmsar af eftirminnilegustu persónum bókmenntanna eru raunar langt frá því að vera trúverðugar – eða eru Sherlock Holmes og Egill Skallagrímsson líkir einhverjum sem fólk kannast við úr daglegu lífi?
Boðskapur Uppsprettunnar, að minnsta kosti eins og ég skildi hann, er að breytingar og framfarir eiga sér ekki stað nema í gegnum einstaklinga sem láta sér finnast fátt um viðteknar venjur, skoðanir og hvers kyns rétttrúnað. Bókin sýnir hversu miklu auðveldara það er að fljóta með straumnum og selja frá sér sjálfstæða hugsun heldur en að halda sínu eigin striki, en jafnframt hvernig hópsálirnar dást í laumi að sjálfstæði þeirra sem þora að vera utangarðs og halda fast við sannfæringu sína. Hún fjallar um þá ríku tilhneigingu samfélagsins að vilja steypa alla í sama mót – að allir séu litlir kassar á Lækjarbakka, allir eins – og þau taugaveikluðu viðbrögð sem sjálfstæðir einstaklingar kalla fram hjá hópsálunum. Hún fjallar um hvernig varðstaðan um óbreytt ástand beitir öllum ráðum til að lítillækka og ófrægja þá sem ógna jafnvæginu með frumlegum og byltingarkenndum hugmyndum.
Boðskapur bókarinnar á svo sannarlega erindi til allra manna. Ekki síst nú til dags. Frjálshyggjumenn finna í henni boðskap sem fellur vel að trúnni á mátt og réttindi einstaklingsins. En fleiri ættu að njóta hennar því boðskapurinn er róttækur. Bókin er ennfremur lofssöngur til allra þeirra sem leggja hart að sér við að kunna fag sitt út í fingurgóma – allra sem trúa því að aðeins með því að skilja hlutina til botns á eigin forsendum sé hægt að draga sjálfstæðar ályktanir sem gagn er að. Hún hampar raunverulegum hæfileikum og dugnaði en skýtur í kaf alla þá sem skreyta sig stolnum fjöðrum eða lepja hugsunarlaust upp speki eftir öðrum.
Öll reynsla síðustu ára og áratuga – og líklega mannkynssagan öll – ætti að kenna þá lexíu að sjálfstæð hugsun einstaklinganna er hin sanna brjóstvörn siðmenningarinnar. Illvirki þjóðhöfðingja og hópblekking í samfélagi byggist á því að almenningur leyfi einhverju yfirvaldi að ákveða hvað sé leyfileg hugsun og hvað ekki. Þegar óvinsælar skoðanir eru skotnar í kaf og talsmenn frjórra hugmynda eru gerðir að viðundrum stendur siðmenningin höllum fæti. Hvers kyns rétttrúnaður – pólitískur, vísindalegur eða menningarlegur – stíflar farveginn til framfara og frjórrar hugsunar. Þess vegna er svo mikilvægt að halda á loft þeim sem berjast á móti straumnum og hafa þá til fyrirmyndar fyrir sjálfan sig og aðra. Skáldsögupersóna eins og Howard Roark á sér vissulega samsvaranir í raunveruleikanum. Þeir sem kynna sér til dæmis ævi Steve Jobs komast ekki hjá því að sjá líkindin. Hið sama gildir án efa um ýmsa aðra kynlega kvisti. Menn á borð við listmálarana Salvador Dali og Picasso, vísindamennina Charles Darwin, Thomas Edison, Marie Curie og Alan Turing hefðu líklega lítið skilið eftir sig ef þau hefðu vanið sig á að láta aðra segja sér hvað þau mættu að hugsa og segja. Uppsprettan eftir Ayn Rand er óður til þannig manna og kvenna. Og það er víðs fjarri að hún hampi peningum sem einhvers konar lokatakmarki allrar mannlegrar iðju. Það þurfa ekki allir að keppast við að verða eins ríkir og Carlos Slim. Þvert á móti. Samkvæmt boðskap Ayn Rand er það keppikefli að í samfélaginu sé beint samhengi á milli veraldlegrar afkomu og þess hversu vel mönnum gengur að uppfylla þarfir meðborgara sinna. Þeir sem svo kjósa mega frjálsir gera eitthvað allt annað en að skapa veraldleg verðmæti fyrir aðra – það sé hins vegar siðlaust að ætlast til þess að aðrir beri kostnað af því vali.
Í tilefni útgáfu þýðingarinnar var fjallað um bókina nýlega í Kiljunni, bókmenntaþætti Egils Helgasonar. Það var áhugaverð umræða. Annar gagnrýnandinn, Kolbrún Bergþórsdóttir, hafði greinilega lesið bókina og skilið boðskap hennar. Henni fannst sagan skemmtileg og hreifst af áherlsu höfundarins á mátt og réttindi einstaklingsins. Hinn gagnrýnandinn, Páll Baldvin Baldvinsson, hafði hins vegar allt á hornum sér varðandi bókina, sem er kannski ekki undarlegt í ljósi þess hvernig honum tókst að misskilja hana, ef hann þá yfir höfuð las hana. Það var að minnsta kosti undarleg ályktun hjá honum að lýsa því yfir að í bókinni væri fyrst og fremst verið að endurspegla deilur milli arkitekta um módernískan eða klassískan byggingarstíl. Þetta er ákaflega furðulegur skilningur, sambærilegur við að halda því fram að Dýrabær Orwells fjalli fyrst og fremst um landbúnað.
Öllum mönnum er frjálst að hafa sína eigin skoðun, og mönnum er svosem líka frjálst að apa upp skoðanir eftir öðrum ef þeir nenna ekki, kunna ekki, eða treysta sér ekki til að mynda sér sína eigin. Fyrir fjölmarga sem hafa lagt það á sig að lesa doðrantinn er það hins vegar fyrirhafnarinnar virði. Uppsprettan er ein af þeim bókum sem stendur lengi í minningunni eftir lestur og getur komið fólki til þess að sjá lífið í örlítið nýju ljósi – eða að minnsta kosti að hugsa hlutina örlítið upp á nýtt. Ef það er einhver mælikvarði á listina – þá hljóta bókmenntir Ayn Rand að standast hann með sóma.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021