Hver hefur ekki átt þá stund í lífinu að hann hoppi upp á stól, hristi á sér bossann og lyfti upp höndum? Ég hef átt það, ég hef fylgst með ótrúlegum fjölda fólks gera það, og það er held ég fátt eins gaman og að standa aðeins hærra en hinir í kringum þig, bara vegna þess að gleðin er svo mikil. Um síðustu helgi upplifði ég slíka stund.
Mér var boðið á sýningu Íslenska Dansflokksins Mínus 16, þetta var mitt fyrsta skipti á sýningu Dansflokksins og því vissi ég ekki alveg við hverju ég átti að búast. Ég vissi svo lítið um sýninguna að þegar miðasölustúlkan spurði mig í síman „já ertu að koma á Mínus?“ svaraði ég um hæl „nei, nei ég er að koma á sýningar Íslenska Dansflokksins!“
Ég sat bæði spennt og smá stressuð í sætinu, fyrsta ástæðan var að ég hafði dregið vinkonu mína með mér og mér þætti leiðinlegt að eyðileggja kvöld hennar með einhverri list listarinnar vegna sýningu, svo er það hin að ég gat ekki hugsað mér að sitja í eitt annað skiptið í Borgarleikhúsinu að láta mér leiðast í tvo tíma. En ég hefði bara betur verið spennt í sætinu því Dansflokkurinn var svo kynngimagnaður að orð fá því varla lýst. Ég hef farið á fjölmargar danssýningar í Bretlandi en aldrei hrifist jafn mikið og af Mínus 16. Það var eitthvað sérstakt við þessa sýningu.
Hvers vegna var ég svona yfir mig hrifin af þessu verki? Aðalástæðan var ekki sú að mér þætti þetta flottasti dans sem ég hafði á ævinni minni séð. Nei, heldur var það gleðin og spennan sem smitaðist um salinn, þetta er tilfinning sem ég hef því miður ekki upplifað í mikið í leikhúsum landsins í ár. Dansararnir náðu nefnilega með engum orðum að leyfa mér að taka þátt í þeirra ferðalagi, leyfðu mér að taka þátt í þeirra bardögum, þeirra harmleik, þeirra gleði og þeirra ást. Þessi sýning gerði það sem fyrir mér sviðslistahús eiga að gera og það er að brjóta niður fjórða veginn. Ég sem áhorfandi er ekki bara þar til að klappa, ég er komin þangað til að finna þær tilfinningar eða amk skilja söguna sem er þarna á baki.
Í þetta sinnið þurfti ég ekki að skilja söguna, ég þurfti bara að finna fyrir því sem var að gerast á sviðinu. Það sem ég held að sé að gerast í meira mæli fyrir leikhúsið sem við þekkjum er að það er að verða enn meiri vettvangur fyrir áhorfendur að vera bara áhorfendur, þeir klappa bara þegar klapphintið kemur og hlægja þegar nánast lyft er upp merki sem á stendur HAHAHA. En ef leikhúsið á að vera spegill sálarinnar eða samfélagsins, eins og margir vilja meina, þá verðum við sem áhorfendur að fá að taka þátt á einhvern hátt. Ekki með því að vera sjálf á sviðinu heldur að okkur sé hleypt inn í sálina þarna á bak við, hvað hún er að ganga í gegnum en ekki bara hvaða orð hún er að segja, ég gæti þá frekar lesið bók.
Kannski er ég dómhörð og verð tekin í bakaríið fyrir mína skoðun, en mig langar að upplifa þennan tilfinninga rússíbana í leiksýningum jafnt sem danssýningum. Ef mig langar að vera mötuð af skemmtun þá leigi ég mér bara einhverja stelpumynd sem ég get hlegið, grátið og velt mér upp úr því hvers vegna draumaprinsinn minn birtist ekki í lyftunni í vinnunni hjá mér.
Mig langar að biðja leikstjóra, leikhússtjóra og annað sviðslistafólk að kíkja á sýningu Dansflokksins og fyllast andagiftinni sem ég fékk, sviðið er ekki með glerhjúp fyrir framan sig út af ástæðu.
Í upphafi pistilsins tala ég um að dansa upp á stól, ég var næstum komin upp á stólinn í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi því gleði mín var svo mikið að mig langaði fátt meira en að hoppa upp og dilla bossanum smá.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021