Jón og Gunna sváfu saman og úr varð barn. Gunna kynntist öðrum manni, Palla, á meðgöngunni og þau skráðu sig í sambúð áður en barnið kom í heiminn. Barnið var þar með sjálfkrafa feðrað og er Palli skráður faðir barnsins, þar sem þau voru í skráðri sambúð. Sama á við ef frú Gulla sefur hjá öðrum en eiginmanni sínum og úr verður barn. Þá verður eiginmaður Gullu sjálfkrafa skráður faðir barnsins. Þessi framkvæmd er eðlileg í sjálfu sér enda á það við í langflestum tilvikum að eiginmaður eða sambýlismaður konu er faðir barns hennar.
Til þess að leiðrétta svona þarf að fara í vefengingarmál. Í slíkt mál er farið til að hnekkja faðerni barns sem ákvarðast hefur samkvæmt þessum feðrunarreglum barnalaga. Þeir sem geta höfðað slíkt mál eru mamma barns, skráður pabbi og barnið sjálft. Það þýðir að þegar svona er fyrir komið getur rétti pabbinn ekki höfðað vefengingarmál. Og ekkert gert í því.
Samskipti fólks og ákvarðanir eru ekki alltaf einfaldar eða skynsamlegar. Reglulega koma þær aðstæður upp að móðir vill ekki feðra barnið sitt rétt eða að faðir vill ekki gangast við barninu. Þá er hægt að höfða dómsmál til feðrunar barns. Slíkt mál getur mamman höfðað, barnið sjálft og sá sem telur sig vera faðir barnsins, enda hafi barnið ekki verið feðrað. Fyrirvarinn um að barnið sé ófeðrað þýðir rétti pabbinn getur ekki höfðað faðernismál þegar barn er sjálfkrafa feðrað. Til þess að fá í gegn rétta feðrun barns síns verður mamman að fallast á að höfða málið. Barnið sjálft getur vissulega höfðað slíkt mál en það gerir það ekki fyrstu ár ævi sinnar. Réttur pabbans í þessum tilvikum er því enginn.
Mál sem þessi geta verið mjög viðkvæm og erfið. Hvaða sjónarmið lágu að baki þegar þessi fyrirvari var settur inn skal ósagt látið en þar hefur röskun á högum fjölskyldu jafnvel einhverju ráðið. En snúum dæminu við. Kona verður ófrísk og fleiri en einn maður koma til greina. Konan getur krafið menn sem kom til greina um að fara í DNA rannsókn til að komast að því hver sé pabbi barns hennar. Hér skiptir ekki máli hvernig fjölskylduhögum þeirra er háttað. Hvort þeir séu í sambúð eða giftir fjölskyldufeður.
Árið 2000 dæmdi Hæstiréttur í faðernismáli þar sem maður höfðaði mál gegn konu og krafðist viðurkenningar á því að hann væri pabbi barns hennar. Hæstiréttur féllst á að löggjöfin, sem við þessar aðstæður takmarkaði rétt manns til að fá úrlausn dómstóla um málefni er vörðuðu hagsmuni hans, bryti gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum hans. Þar kom líka fram að sú mismunun kynjanna sem birtist í barnalögum byggðist ekki á málefnalegum rökum er hnigu sérstaklega að því að vernda hagsmuni kvenna í þessu tilliti fremur en karla. Mikilvægir þjóðfélagslegir hagsmunir væru fólgnir í því að faðerni barna væri í ljós leitt og ákvarðað og ekki síst mikilvægt fyrir barnið sjálft að vera réttilega feðrað. Þá hafi í frumvarpi til barnalaga komið fram að ætlunin með faðernismálum væri að leita sannleikans um það, hver sé faðir barns. Það væri ekki síst hagur og heill barnsins sem í húfi er.
Í frumvarpi að breytingum á barnalögum, sem var lagt fyrir Alþingi eftir að Hæstiréttur hafði dæmt í umræddu máli, var þessi fyrirvari, um að barn væri ófeðrað, ekki til staðar heldur tók frumvarpið breytingum í meðförum þingsins og skilyrðið sett þar inn síðar. Það verður að teljast undarleg vinnubrögð að setja inn skilyrði sem verður til þess að ekki er gengið alla leið í að leiðrétta löggjöfina í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar. Barnalögin eru til þess að gæta hagsmuna barnsins. Rétturinn er barnsins, þ.e. réttur til að vita hverjir eru blóðforeldrar þess. Barn á rétt á að þekkja báða foreldra sína. Þess vegna þarf að breyta lögunum, þó fyrr hefði verið.
- Hver er einfaldur? - 27. október 2014
- Who’s your daddy? - 7. febrúar 2012
- Carpe diem - 19. júní 2011