Í gær beittu Rússar og Kínverjar neitunarvaldi til þess að koma í veg fyrir að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um ástandið í Sýrlandi. Tillagan naut stuðnings vesturveldanna og það sem vegur e.t.v. þyngra, Arababandalagsins sem beitt hefur sér þó nokkuð í málinu og er að mörgu leyti hinn eðilegi farvegur lausnar á því ógnarástandi sem ríkir í landinu. Reynist neitunarvaldið þannig Öryggisráðinu enn og aftur fjötur um fót og leiðir til þess að viðbrögð þess verða úr takti við alvarleika málsins og tilefni. Ef einhver viðbrögð munu yfir höfuð koma frá þessari höfuðstofnun öryggis og hernaðar í heiminum úr því sem komið er.
Sýrland er til að gera lítið land fyrir botni Miðjarðarhafs . Landið er staðsett í hringiðu átaka með landamæri að Ísrael, Líbanon, Írak, Tyrklandi og Jórdaníu. Sýrland var lengi undir Ottómanaveldinu og loks Frakklandi en árið 1946 hlaut það sjálfstæði. Óstöðugleiki var þó mikill og á árabilinu 1946-1956 sátu þar tuttugu ríkisstjórnir sem settu landinu fjórum sinnum stjórnarskrá. Árið 1963 komst Ba´ath flokkurinn síðan að eftir valdarán og hefur haldið Sýrlandi í heljargreipum síðan. Nokkur óstöðugleiki var þó enn um sinn á stjórnmálasviðinu eða allt þar til Hafez al-Assad, varnarmálaráðherra Ba´ath flokksins olnbogaði sig til valda. Sat hann á valdastóli þar til hann lést þann 10. júní 2000. Tók sonur hans, Bashar al-Assad þá við valdataumunum og berst nú fyrir stöðu sinni. Mannréttindi hafa aldrei verið hátt skrifuð hjá þeim feðgum og allri mótspyrnu var mætt af fádæma hörku. Nægir í því sambandi að nefna atburðina sem urðu í Hamaborg árið 1982 þegar tugir þúsunda voru felldir og særðir vegna uppreisnar sem átti upptök sín í borginni.
Í mars á síðasta ári hófust mótmæli gegn stjórn Assads. Er ljóst að svipuð mótmæli í Túnis og Egyptalandi blésu stjórnarandstæðingum kjark í brjóst. Upptök mótmælanna var handtaka 15 unglinga sem skrifað höfðu þekkt slagorð uppreisnarmanna í Túnis og Egyptalandi á vegg í borginni Deraa. Kröfur mótmælenda hljóðuðu einnig upp á aukið lýðræði og frelsi til handa þjóðinni. Á þessu stigi var hins vegar ekki kallað eftir afsögn forsetans. Það breyttist þó eftir að stjórnarherinn hóf að taka á mótmælendum með hörku og tilheyrandi mannfalli. Mótmælin breiddust loks út um landið og mannfallið jókst að sama skapi. Er ljóst að þúsundir manna hafa týnt lífi í Sýrlandi vegna átakanna fram til þessa.
Átök eiga það til að smita út frá sér. Átök í einu landi geta þannig leitt beint eða óbeint til átaka í nágrannaríkjum. Með tilliti til staðsetningar Sýrlands er því mikilvægt að taka hlutina föstum tökum en stíga þó varlega til jarðar af sömu ástæðum. Það hefur þó ekki verið gert af neinni alvöru fyrr en nú þegar reyna átti að ná ályktun í gegnum Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna. Líbía hafði forgang og athygli alla meðan á hernaðarinngripi NATO þar í landi stóð. Með þessum orðum er ég ekki að gera lítið úr viðleitni Arababandalagsins sem reyndi árangurslaust að miðla málum og tempra mannfallið með nærveru sinni. Aðkoma þess að málinu styrkir þvert á móti málstað og viðleitni þeirra sem nú reyna að binda endi á blóðuga stjórnartíð Assad feðga.
En hvar stendur hnífurinn í kúnni? Rússar segja ályktunardrögin taka afstöðu í borgarastyrjöld en hún byggði á tillögum Arababandalagsins og gerði ráð fyrir kosningum innan hálfs árs með það að markmiði að koma á fjölflokkakerfi. Bráðabirgðastjórn með aðkomu stjórnarandstæðinga skyldi sitja fram að þeim tíma. Þá var allt ofbeldi, sama hvaðan það ætti upptök sín, fordæmt. Í ályktunardrögunum var einnig kallað eftir því að þeir yrðu dregnir til ábyrgðar sem gerst hefðu sekir um mannréttindabrot. Þá var kallað eftir því að hermenn yrðu kallaðir heim af götum borga í landinu og öllum átökum hætt. Einnig skyldi réttur manna til friðsamra mótmæla tryggður. Loks var kallað eftir frekari aðkomu Arababandalagsins að friðarferlinu.
Afstöðu Rússa ber að skoða í ljósi þeirrar staðreyndar að talið er að verðmæti vopnasölusamninga þeirra til Sýrlendinga nemi 1,5 milljarði bandaríkjadollara eða 10% vopnasölu Rússa á heimsvísu. Þá er síðasta herstöð þeirra utan gömlu landamæra Sovétríkjanna staðsett í Sýrlandi. Hagsmunir Rússa í landinu eru því umtalsverðir. Hafi þessir hagsmunir ekki þegar staðið og fallið með núverandi valdaklíku í Damaskus er ljóst að eftir brölt gærdagsins hafi líkurnar á áframhaldandi samstarfi verðandi valdhafa í Sýrlandi við Rússa minnkað umtalsvert. Þær kúlur sem taka líf almennra borgara og uppreisnarmanna í Sýrlandi eru margar hverjar rússneskar og vopnin sem þær hrökkva úr sömuleiðis. Þessi sömu vopn tryggja einnig setu Assads á valdastóli.
Ég tel einsýnt að Assad verður ekki forseti Sýrlands til langframa. Átökin hafa gengið of langt og staðið of lengi til þess að svo megi verða. Harkan er of mikil og það sem mikilvægara er að baráttuþrek fólksins stendur óhaggað. Líkt og kom fram hér að ofan hefur venjan verið sú að hart hefur verið tekið á mótbárum og þær þannig kveðnar í kútinn. Að þessu sinni er annað uppi á teningnum og er ljóst að meðöl stjórnarinnar duga ekki. Assad er helsærður. Stóra spurningin er hins vegar sú hversu langan tíma tekur fyrir hann að blæða út og hversu mörg þúsund samlanda sína hann tekur með sér í leiðinni. Það er því brýnt að leita lausna nú þegar áður en ástandið fer enn frekar úr böndunum.
Andstætt því sem Rússar segja er vonin á pólitískri lausn á deilunni ekki algjörlega úr sögunni. Snúist þeir t.a.m. á sveif með Arababandalaginu og Sameinuðu Þjóðunum er ljóst að þrýstingurinn eykst til muna. Slíkt er tilraunarinnar virði í þeirri veiku von að slíkt beri árangur. Hitt er hins vegar alveg klárt að því lengur sem þeir þráskallast við dvína líkurnar á slíkri lausn og borgarastyrjöldin harðnar. Boltinn er klárlega í Moskvu og stór hluti ábyrgðarinnar á þeirri stöðu sem málið er komið í sömuleiðis.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012