Það er ennþá kreppa á Íslandi. Skattar hækka, verðbólga eykst, gjaldskrár hækka og opinberar stofnanir þurfa áfram að skera niður. Ein þessara stofnana er Háskóli Íslands. Nemendum við skólann hefur fjölgað gríðarlega á seinustu árum, ekki aðeins vegna þess að fólk sem misst hefur vinnuna hefur hafið háskólanám, heldur einnig vegna þess að nokkrum mánuðum fyrir hrun sameinuðust Kennaraháskóli Íslands og HÍ. Þrátt fyrir aukinn nemendafjölda hefur skólanum verið gert að skera niður á meðan hann fær ekki einu sinni greitt með öllum nemendum.
Háskóli Íslands á að fá greitt frá ríkinu með hverjum nemanda í skólanum samkvæmt svokölluðu reiknilíkani háskóla. Eins og staðan er í dag fær skólinn þó ekki greitt með hverjum nemanda. Fyrirfram er gert ráð fyrir ákveðinni þróun nemendafjölda en þegar hrunið varð og atvinnulausir voru hvattir til að fara í háskólanám fóru allar slíkar áætlanir úr skorðum. Ekki var þó svigrúm til að veita meira fé til Háskólans en gert var ráð fyrir og er því svo komið að ekki er greitt með um 1000 nemendum sem stunda nám við skólann.
Háskólinn þarf því að leita leiða til að brúa bilið sem myndast þegar að fjármuni vantar. Eitt af því sem nú hefur verið samþykkt er hækkun skráningargjalda við skólann. Þau voru 45.000 krónur í nokkur ár en hækka nú um 15.000 krónur. Skráningargjaldið var seinast hækkað árið 2005 og ætti í raun að vera hærra en 60.000 krónur ef miðað er við þróun verðlags í landinu. Í raun átti að hækka skráningargjaldið upp í 65.000 krónur og bað Háskólinn um það árið 2010 en því var þá hafnað af menntamálaráðherra. Gjaldið er nú hækkað en ekki eins mikið og Háskólinn vill.
Önnur leið sem skólinn er að skoða eru einhvers konar aðgangstakmarkanir. Nú þegar hefur verið samþykkt að taka upp inntökupróf við hagfræðideild og verður farið af stað með það næsta haust. Þetta gerir deildin til þess að mæta kröfum um sparnað en mikið brottfall er úr hagfræði. Það er mat deildarinnar að stúdentspróf séu nú orðin svo mismunandi milli framhaldsskóla að þau séu ekki lengur marktækt viðmið þegar meta skal hvort nemendur hafi þann grunn sem til þarf til náms í hagfræði.
Hagfræðideild lítur ekki svo á að verið sé að takmarka aðgang að námi í hagfræði en skiptar skoðanir eru uppi um það. Færa má rök fyrir því að jafnrétti til náms í hagfræði sé að einhverju leyti skert með upptöku inntökuprófa – það fá ekki allir að spreyta sig á sjálfu háskólanáminu – en þá er spurningin hvers vegna inntökupróf í læknadeild hafa tíðkast í fjöldamörg ár og hvort ekki sé auðvelt af hálfu Háskólans að færa rök með inntökuprófum þegar fordæmið er til staðar.
Það má þó velta því fyrir sér hvort að mismunandi stúdentspróf í framhaldsskólum séu í raun ástæða mikils brottfalls úr deildum Háskólans. Ákveðnir áfangar munu liggja til grundvallar inntökuprófi í hagfræði. Þá er spurning hvort ekki sé nóg að gera forkröfur til nemenda varðandi það hvaða áföngum þeir skulu hafa lokið í framhaldsskóla. Jafnframt mætti gera kröfu um það að nemendur skuli hafa náð ákveðnum einkunnum í tilteknum áföngum.
Það er staðreynd að nú eru alltof margir nemendur við Háskóla Íslands. Skólinn ræður ekki við fjöldann á meðan reiknilíkan háskóla er jafngallað og það er. Á meðan berst skólinn í bökkum og leitar leiða til þess að spara án þess að það komi niður á gæðum námsins. Slíkt gengur þó ekki til lengdar; á einhverjum tímapunkti mun sparnaðurinn koma beint niður á nemendum og gæðum náms, að minnsta kosti á meðan reiknilíkani háskóla er ekki breytt.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021