Það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig ráðist er nú að Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta þingsins fyrir afstöðu sína og framgöngu í landsdómsmálinu, m.a. í ályktun Ungra jafnaðarmanna um málið og virðist sú skoðun eiga sér töluverðan hljómgrunn. Hið kaldhæðnislega er að á málið er settur sá merkimiði að hún hafi farið gegn sjálfstæði þingsins. Til að kvitta fyrir það á forseti þingsins að hætta.
Umræðan um sjálfstæði þingsins og skerðingu á því með að kalla til baka ákæru í Landsdómsmálinu er reyndar ansi sérstök. Er það til marks um að þingið sé ósjálfstætt að það vilji kalla aftur ákæru sem það setti af stað sjálft? Er það ekki einmitt frekar til marks um að þingið sé ansi sjálfstætt í þessu máli?
Þingið hefur valdið til að ákveða málssókn og hefur, samkvæmt allri heilbrigðri skynsemi og lagarökum, þar af leiðandi valdið til að draga slíka tillögu til baka. Orðalagið í ályktuninni sjálfri, sem var samþykkt í september 2010 lýsir þessu ágætlega, en þar sagði að Alþingi ályktaði að höfða beri sakamál og fyrir neðan segir í upptalningu á kæruatriðum að málið sé höfðað gegn Geir H. Haarde fyrir tiltekin atriði. Þannig afgreiddi þingið málið á sínum tíma.
Þingið var þar af leiðandi ekki að benda ákæruvaldinu á hugsanlega gæti verið gott að höfða mál eða athuga hvort ákæruvaldið teldi rétt að höfða mál, heldur var þingið beinlínis að ákveða að höfða bæri mál enda áskilja lögin um ráðherraábyrgð að það sé gert. Í þessu felst að þingið getur snúið við slíkri ákvörðun sinni, fyrst það hefur á annað borð heimild til að taka hana.
Að halda því fram að þingið geti ekki dregið ákæruna til baka núna er einmitt eitthvað sem horfir frekar til þess að skerða sjálfstæði þingsins.
En þeir sem hafa náð að leiða sig áfram að þeirri niðurstöðu að þingið hafi skert sjálfstæði sitt með því að vilja draga til baka kæru, sem það setti sjálft í loftið, virðast ekki láta staðar numið þar. Þeir þingmenn stjórnarliðsins, sem hafa lýst skoðun sinni í málinu á þá leið að draga eigi kæruna til baka, eru í kjölfarið beittir þrýstingi um að segja af sér.
Í máli, sem hver og einn þingmaður hlýtur að gera upp við samvisku sína og út frá sínum forsendum, á að neyða menn til að segja af sér fyrir að kjósa á þann hátt sem þeir telja rétt? Snerist Nýja Ísland ekki m.a. um að menn ættu að fylgja sannfæringunni frekar en liðinu og virða ætti það við fólk frekar en hóta því afleiðingum?
Atkvæðagreiðslan um dagskrártillöguna í þinginu um daginn virðist reyndar hafa verið ansi NýjaÍslandsleg. Mikill darraðadans virðist hafa verið í kringum það hvort Sigmundur Ernir Rúnarsson ætti að koma inn á þing eða ekki, en hann var staddur erlendis þegar kosið var. Í frásögn Eyjunnar, sem er allajafna ágætlega tengd inn í raðir Samfylkingarinnar, segir:
Undarlegust urðu þó átökin um hvort kalla ætti inn varamann fyrir Sigmund Erni Rúnarsson, sem staddur er í Búrkína Fasó.
Forysta flokksins lagði mikla áherslu á að kallaður yrði inn varamaður fyrir Sigmund Erni. Gekk það svo langt að Sigmundi var lofað að
flokkurinn myndi bæta honum hálfs mánaðar tekjutap sem hann yrði fyrir með því að varamaður tæki sæti hans.
Forysta þingflokksins leit svo á að málið væri frágengið og varaþingmaðurinn, Logi Már Einarsson frá Akureyri, lenti samkvæmt fyrirmælum á Reykjavíkurflugvelli í gærmorgun.
En Ásta Ragnheiður hafði ekki sagt sitt síðasta orð, því að hún neitaði að hleypa varaþingmanninum að fyrr en hún hefði fengið skriflega staðfestingu frá Sigmundi Erni sjálfum um að það skyldi gert.
Sú staðfesting barst aldrei og varaþingmaðurinn hvarf aftur norður yfir heiðar án þess að taka sæti á þingi.
Er þetta rétt?
Ef flokkurinn hefur boðið Sigmundi Erni fé fyrir að sitja heima, hvert erum við þá komin? Þessu hlýtur að vera fylgt nánar eftir.
Þetta er allt saman heldur nöturlegt og ágætt að muna að keppikefli þeirra sem vinna að því að halda kærunni lifandi er ekkert sérstaklega glæsilegt – þ.e. að færa pólitískt uppgjör inn í réttarsalina, eins og var ágætlega lýst á dögunum í pistli hér á Deiglunni. Við því var reyndar varað þegar Landsdómslögin voru sett fyrir um 50 árum, að hér væri um að ræða tæki sem hæglega mætti misbeita og nota til að gera upp sakirnar við gamla andstæðinga. Það sem er þó allra verst er að líklegasta niðurstaðan, ef þessi öllu verður haldið til streitu, er að hér eignist pólitískir refskákmenn framtíðarinnar nýtt tæki í vopnabúrið, þ.e. að senda gamla ráðherra fyrir Landsdóm, a.m.k. þá ráðherra sem eiga fæsta vinina á þinginu þegar kosið er í það og það skiptið.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021