Í síðustu viku tilkynnti Barack Obama bandaríkjaforseti að hann hygðist ekki styðja væntanlega löggjöf um dreifingu ólöglegs efnis á internetinu sem hafði fengið vinnuheitið SOPA eða Stop Online Piracy Act. Ástæða þessarar tilkynningar Obama var sívaxandi þrýstingur fjölda aðila sem töldu lögin vera óráð. Mikla athygli vakti þegar ein stærsta vefsíða heims, Wikipedia lokaði í mótmælaskyni einn dag. Frumvarpið hefur verið lagt til hliðar á meðan unnið verður að endurbótum sem líklegra gæti þótt að verði samþykktar.
Upphaf SOPA má rekja til baráttu eigenda höfundarréttarvarins efnis gegn ólöglegri dreifingu þess í gegnum veraldarvefinn. Í kjölfar tillagna frá ýmsum hagsmunaðilum þá lagði Lamar Smith, formaður dómsmálanefndar (judiciary committee) bandaríkjaþings og þingmaður repúblíkanaflokksins frá Texas, ásamt öðrum frumvarpið fram á haustdögum 2011.
SOPA var hannað eins og gjöreyðingarvopn í baráttunni gegn ólöglegri dreifingu efnis. Samkvæmt frumvarpinu þá gat dómsmálaráðherra bannað netþjónustufyrirtækjum, leitarvélum, auglýsingadreifendum og greiðsluþjónustum (t.d. Paypal) að eiga samskipti við erlenda vefi ef þeir væru taldir vera að dreifa ólöglegu efni. Það þýðir að ef einhver heimasíða þótti óæskileg þá var netþjónustufyrirtækjum skylt að loka á aðgengi á hana.
Fljótlega fór að bera á sundurþykkju vegna málsins og fóru þar hugbúnaðarfyrirtæki fremst í flokki. Það er kannski kaldhæðnislegt en helstu netfyrirtæki bandaríkjanna vöktu athygli á málstað sínum með heilsíðuauglýsingu í prentútgáfu New York Times þar sem Google, Facebook, Mozilla, Zynga, eBay, Twitter, Yahoo, LinkedIn og AOL hvöttu þingmenn eindregið til þess að draga frumvarpið til baka.
Grasrótarhópar fóru fljótlega að spretta upp og láta sig málið varða. Í grasrótinni var talað um að hér væri að ræða einhverja hörðustu árás sem málfrelsið hefði orðið fyrir í seinni tíma. Meðal annars var birtur listi yfir fyrirtæki sem studdu frumvarpið og varð hýsingarfyrirtækið GoDaddy skotspónn mótmælenda og var dreift víða leiðbeiningum um hvernig hægt væri að segja upp viðskiptum við fyrirtækið. Tuttugasta og þriðja desember ákvað Godaddy að láta af stuðningi við frumvarpið.
Allann Janúarmánuð óx andstaðan jafnt og þétt og endaði í síðustu viku eins og áður segir á því að bandaríkjaforseti tilkynnti að hann myndi ekki samþykkja það í þáverandi mynd. Það er ljóst að stuðningsmenn Sopa munu ekki leggja árar í bát heldur mæta aftur tvíefldir aftur með nýjar hugmyndir um leiðir til þess að loka á hina illu vætti internetsins.
Rök talsmanna Sopa eru frekar kunnugleg. Þetta eru sömu rök og notuð eru almennt þar sem ríkisvaldið „verður“ að takmarka viðskipti á einhvern hátt til þess að vernda hagsmuni ákveðinna hópa.
Stundum er takmörkunin tollar, stundum viðskiptahindranir og stundum blátt bann. Það er ávallt verið að leita leiða til þess að tryggja sér einokunarrentu, hagnaðs sem hlýst af því að enginn getur keppt við þig á sama stað og sama verði.
Það er búið að opna Pandóruboxið. Fólk hefur kynnst því að geta nálgast efni hratt og auðveldlega. Þeir sem byrja að vinna í samræmi við það og bjóða fólki efni hratt, auðveldlega og gegn greiðslu mun væntanlega ganga vel á komandi árum. Örlög hinna eru óljós.
- Róleg og aflslöppuð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum - 28. júlí 2021
- Í hvernig umhverfi blómstrar nýsköpun? - 8. júní 2021
- Viðskipti á tímum Covid - 20. maí 2021