Á Kúbu ræður ríkjum kommúnísk alræðisstjórn og engin breyting varð á því stjórnarfyrirkomulagi þegar Fidel Castro dró sig í hlé 2006 og fól yngri bróður sínum Raul, yfirmanni herafla Kúbu, að halda utan um alla stjórnartauma. Þegar svo hinn herskái og tryggi bróðir var settur varanlega í embætti forseta ríkisráðs og ríkisstjórnar landsins 2008 benti fátt til þess að vænta mætti verulegrar stefnubreytingar frá hugmyndafræðinni um alræði öreiganna. Annað hefur komið á daginn.
Á seinni hluta síðasta árs náði Raul að hrinda í framkvæmd veigamiklum breytingum á löggjöf landsins sem hefur í för með sér stóraukið frelsi fyrir íbúa Kúbu frá því sem áður var. Eru þessar breytingar hluti af viðameiri áætlun ríkisins í þá átt að auka veg einkaframtaksins með það fyrir augum að efla efnahag landsins, sem vægast sagt stendur á ótraustum fótum.
Þannig er íbúum Kúbu nú heimilt að stunda viðskipti með bifreiðar og fasteignir, slakað hefur verið á innflutningshöftum nýrra bifreiða, bönkum hefur verið heimilað að lána til einkaframkvæmda og opnað hefur verið fyrir ýmis önnur bankaviðskipti, svo sem notkun á debet kortum og ávísunum. Frá og með 1. janúar sl. hefur svo iðnaðarmönnum; smiðum, viðgerðamönnum, ljósmyndurum og lásasmiðum, verið heimilað að starfrækja eigin rekstur, og það sem meira er, viðhafa frjálsa verðlagningu á þjónustunni án íhlutunar ríkisins.
Til viðbótar má nefna að slakað hefur verið á átthagafjötraklónni og íbúum landsins er nú frjálst að flytja á milli staða án sérstaks leyfis ríkisins. Áður var til að mynda íbúum í sveitum landsins óheimilt að flytja til Havana nema með uppáskrifað leyfisbréf frá einhverri úrvalssveit embættismanna í vasanum.
Allt eru þetta mikilvægir grunnþættir hefðbundins markaðssamfélags sem nú hafa verið innleiddir á Kúbu og teljast sjálfsagðir í opnum og frjálsum vestrænum lýðræðisríkjum. Svo sjálfsagðir að erfitt er að gera sér í hugarlund hvernig samfélag geti hreinlega virkað almennilega ef einstaklingar innan þess geta ekki stundað frjáls viðskipti sín á milli eða átt samskipti um hvaðeina án íhlutunar og afskipta ríkisvaldsins.
Staðreyndin er sú að samfélag sem heimilar ekki fólki að freista gæfunnar í leit að hamingju og nýta þá krafa og hugmyndauki sem það sjálft telur sig hafa til að láta drauma sína rætast, verður aldrei ríkt samfélag, hvorki í efnahagslegu né félagslegu tilliti. Því miður hefur Kúba einmitt verið þannig samfélag í alltof langan tíma.
Í hugum annara en íbúa Kúbu kunna þessar nýju samfélagsumbætur að teljast smávægilegar og vissulega er þetta ekki stórt skref í átt að auknu frjálsræði í heiminum öllum en þetta er risastökk fyrir alla Kúbverja í átt að frjálslyndara og betra samfélagi sem og meiri lífsgæðum. Því ber að fagna. En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið.
Því fer nefnilega fjarri að kommúnistastjórnin á Kúbu hafi uppi áform um að leggja niður vopnin sín og afsala sér þannig alræðisvöldum. Heimsókn hins geðþekka Ahmadinejad, forseta Írans, til Kúbu í fyrradag er ágætis vísbending um að stjórnvöld á Kúbu ætla sér áfram að treysta hin hugmyndafræðilegu og efnahagslegu bönd við þá einræðisherra og alræðisstjórnir sem eftir eru í heiminum, þó svo heldur fækki hratt í þeim klúbbi. Sjálfur hefur Raul látið hafa eftir sér að þessum umbótum er eingöngu ætlað að treysta og uppfæra hið kommúníska hagkerfi en ekki koma í stað þess. Það er því enn óvíst hvort þessar markaðsumbætur muni leiða af sér umbætur á sviði borgarlegra og stjórnmálalegra réttinda. Þó má sjá nokkur jákvæð teikn á lofti.
Um jólin síðustu ákváðu stjórnvöld á Kúbu af örlæti sínu að láta lausa 2.900 fanga, þar á meðal nokkra fanga sem dæmir höfðu verið til refsingar fyrir afskipti af stjórnmálum landsins. En líklegast má skýra þetta góðverk stjórnarinnar með því að andlegur einvaldur kaþólikka hefur ákveðið að blessa eyjuna með nærveru sinni á þessu ári.
Hins vegar nýttu stjórnvöld ekki þetta tækifæri til sleppa hinum bandaríska Alan Gross úr haldi og reyna þannig að stuðla að bættum samskiptum við Bandaríkin. Gross þessi var handtekinn 2009 og dæmdur á síðasta ári í 15 ára fangelsi fyrir að reyna smygla tölvum og tölvubúnaði til gyðinga á Kúbu. Alan Gross málið hefur sannarlega ekki leitt til bættra samskipta milli stjórnvalda í Havana og Washington þó merkja megi örlitlar tilslakanir gagnvart Kúbu af hálfu Bandaríkjanna í forsetatíð Obama. Reyndar sagði Obama í ræðu í september sl. að fyrirhugaðar markaðsumbætur á Kúbu væru langt í frá nægjanlega róttækar. Vissulega er hægt að taka undir það en þó má teljast furðulegt að forseti sem boðar alls kyns breytingar í hverri ræðunni á fætur annarri skuli ekki sjá og taka með opnum örmum þeim breytingum sem þó eru að eiga sér stað á litlu eyjunni 145 km frá ströndum Flórída.
Kúba er að breytast. Á því er enginn vafi. Hins vegar er enn of snemmt að segja til um hvort nýlegar umbætur muni leiða til breytinga á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þó er ljóst að á meðan Bandaríkin halda enn fráleitu viðskiptabanni sínu á hendur Kúbu til streitu og nýta ekki tækifærið sem nú er skapast, munu stjórnvöld á Kúba áfram þurfa að sækja allan þann stuðning sem þau geta til landa eins og Venúsúela og Kína. Það mun ekki ýta undir framfarir á sviði lýðræðis og mannréttinda í landinu.
Eina rétta í stöðunni fyrir Bandaríkin er að taka umbótunum fagnandi og opna fyrir hvers konar viðskipti og samskipti við Kúbu, þó fyrr hefði verið. Það getur raunverulega stutt við ferli sem þegar virðist hafið og leitt til þess að hraðar fjari undan harðstjórninni. Þannig munu skapast forsendur svo að fólkið á Kúbu geti stigið skrefið til fulls og notið loksins vorvinda lýðræðis og frelsis.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020