Eini maðurinn með viti

Prófkjör Repúblikana í Bandaríkjunum mun standa næstu mánuði. Meðal frambjóðenda er Ron Paul sem sker sig verulega úr hópnum. Hann er kannski ekki sá eini með vit í kollinum – en hann er líklega sá eini sem treystir á það.

Þótt tíu mánuðir séu þar forsetakosningar í Bandaríkjunum verða haldnar eru augu heimsbyggðarinnar farin að beinast mjög í þá átt. Næstu mánuðir verða undirlagðir fréttaflutningi af útnefningu Repúblikana á frambjóðanda. Þegar sú mynd skýrist tekur við barátta Barack Obama fyrir endurkjöri.

Fyrsta prófkjörið hjá Repúblikanaflokknum fór fram í vikunni. Þar vann Mitt Romney nauman sigur en fast á eftir honum var Rick Santorum, en þar á eftir læknirinn og frjálshyggjumaðurinn Ron Paul frá Texas. Frægðarsól Ron Paul hefur risið mjög á síðustu árum. Hann hefur lengi verið þekktur meðal þeirra sem fylgjast vel með bandarískum stjórnmálum en nú er nafn hans og boðskapur loksins farinn að dreifast almennilega meðal alls almennings í Bandaríkjunum og víðar. Já, loksins.

Ron Paul er algjörlega sér á parti í hópi þeirra sem eiga fræðilegan möguleika á sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Helstu valdhafar í Repúblikanaflokknum vilja sem minnst af honum vita og lengst af hafa fjölmiðlar tekið þátt í því að útmála hann sem einhvers konar jaðarfyrirbrigði í pólitík. Góður árangur hans í skoðanakönnunum hefur nánast verið þaggaður niður á meðan nýjar vonarstjörnur á borð við Söru Palin, Herman Cain, Michelle Bachmann, Rick Perry hafa notið þess að vera skotið upp á stjörnuhiminn stjórnmálanna í lengri eða skemmri tíma. Á meðan Ron Paul hefur náð að festa sig í sessi sem kyndilberi grasrótarhreyfingar hefur hinn vonarpeningurinn risið og fallið í áliti og að lokum horfið úr myndinni. Nú er þó svo komið að kastljósið beinist í auknum mæli að Paul.

Það sem gerir Ron Paul sérstakan í hópi frambjóðenda er að hann hagar ekki seglum sínum eftir vindi. Afstaða hans byggist á fastmótaðri lífsskoðun. Hann er pólitískur áttaviti en ekki vindhandi. Þetta gerir það að verkum að líklega eru ekki margir sem geta kvittað upp á hvert einasta orð sem hann segir. Sífellt fleiri virðast þó vera að komast á þá skoðun að betra sé að velja til forystu mann sem hefur vitsmunalega getu til þess að móta sína eigin afstöðu, heldur en að kjósa á milli fínpússaðra vindbelgja sem leggja meiri áherslu á að líta út fyrir að passa í hlutverkið heldur en að hafa hugmynd um til hvers þeir ætli að nota það.

Ron Paul er frjálshyggjumaður. Þrátt fyrir það nýtur hann stuðnings margra bandarískra vinstrimanna. Þetta er meðal annars vegna einarðrar afstöðu hans gegn stríðsrekstri Bandaríkjanna um heim allan. Meira að segja nú, þegar spjótin eru farin að standa á honum fyrir alvöru, herðir hann frekar þann róður heldur en að bakka þumlung til þess að stækka stuðningsmannatjaldið sitt. Áhersla hans á að reglum réttarríkisins sé fylgt og mannréttindi séu virt ganga þvert gegn þeirri öfugþróun sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum (og víðar) á síðustu árum. Núverandi forseti, Barack Obama, hefur reynst vera verri en enginn þegar kemur að vernd mannréttinda – og hinir frambjóðendur Repúblikana virðast allir hallir undir sífellt vaxandi völd ríkisins til þess að njósna um og fangelsa menn fyrir stöðugt óljósari sakir. Gegn allri þessari ómanneskjulegu þróun stendur Ron Paul einn í hópi forsetaframbjóðenda.

Hin svakalegu tengsl milli ríkisvalds og stórfyrirtækja, einkum á sviði hergagnaframleiðslu – og nú á síðustu árum fjármálastarfsemi, mynda vanhelgt bandalag sem virðir að vettugi hagsmuni og hagsæld almennings. Þetta kemur sífellt betur í ljós. Erfiðleikar Ron Paul við að koma sjálfum sér og boðskap sínum á framfæri í bandarískum fjölmiðlum hljóta að skoðast í samhengi við það hversu svakalegum hagsmunum hugmyndir hans ógna. Dwight Eisenhower, Repúblikani og fyrrverandi forseti, varaði við þessu þegar hann kvaddi þjóðina í ávarpi árið 1960. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, og að því er virðist mestmegnis í vitlausan farveg. Nú eru þeir frambjóðendur til Bandaríkjaforseta, sem hljóta náð hjá valdaelítunni og fjölmiðlum, svo vel uppaldir að enginn þeirra er líklegur til þess að reyna að spyrna við fótum. Um þetta má meðal annars lesa í nýlegri bók blaðamannsins Ron Suskind, Confidence Men, þar sem sagt er frá því hvernig Barack Obama hefur smám saman gefið sig þessum hagsmunum á vald. Hið sama virðist eiga við alla aðra sem raunhæfa möguleika eiga á því að gegna valdamesta embætti heims. Alla nema Ron Paul.

Ron Paul er þess vegna nú lýst sem hættulegum manni. Áratugagömul dreifirit stuðningsmanna hans, sem fela í sér kynþáttaníð, eru dregin á flot þótt engum hafi tekist að finna snefil af slíkri hugsun í nokkru því sem Paul sjálfur hefur sagt eða aðhafst um ævina. Þessi neikvæði áróður virðist þó ekki hafa mikil áhrif á þann gríðarlegar grasrótarstuðning sem málflutningur Ron Paul hefur aflað. Það sem helst háir honum er síbylja álitsgjafa um að hann eigi hvort sem er engan séns.

Stuðningsmenn Ron Paul eru að miklu leyti ungt fólk sem treystir ekki stjórnmálum og stórfyrirtækjunum sem starfa í skjóli þeirra. Þessi einarði stuðningur við frjálslyndi og heilbrigðan og frjálsan kapítalisma hlýtur að vekja vonir. Stuðningurinn við Ron Paul sýnir nefnilega að ungt fólk gerir sér stöðugt betur grein fyrir því að adnúð á forræðishyggju og pilsfaldakapítalisma felur ekki í sér sinnuleysi gagnvart náungangum eða hatur á frjálsu framtaki. Þvert á móti. Frjálslyndir stjórnmálamenn, sem ekki þrá að stjórna fólki, eru einmitt þeir sem bera mesta virðingu fyrir meðborgurum sínum og manndómi þeirra.

Stjórnmálamaður sem talar fyrir friði og réttindum einstaklingsins – gegn öfgum og ofbeldi – er líklegur til þess að hræra upp í notalegum hagsmunatengslum þeirra sem hafa komið sér vel fyrir. Það gerir leiðina að völdum erfiðari. Það verður hins vegar sífellt ljósara að þess háttar uppstokkun er lífsnauðsynleg fyrir áframhaldandi velsæld.

Það er ef til vill full mikið sagt að Ron Paul sé eini frambjóðandinn með viti í Bandaríkjunum. En um hann má þó eflaust segja að hann sé sá eini sem hefur manndóm til þess að beita sínu eigin viti í stað þess að elta skoðanir annarra.


Eftir að aðrir frambjóðendur fóru að gera því í skóna að friðarboðskapur Ron Paul væri hættulegur fyrir þjóðaröryggi, hefur hann tvíeflst í viðleitni sinni til þess að sýna fram á hið gagnstæða. Þessi áhrifaríka auglýsing er liður í því.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.