Það hefur lengi verið þjóðaríþrótt hér á landi að spá fyrir um framtíðina með ýmsum aðferðum. Sumir lesa í lófa, aðrir í óhreina kaffibolla og sumir jafnvel falla í trans. Yfirleitt er þessi iðja aðeins gerð til dægradvalar, og því flestum að meinalausu. Einhverjir virðast þó vera betri en við hin að sjá fyrir það sem koma skal á meðan aðrir eru góðir í að sjá hlutina fyrir, eftir á, eins og margsýndi sig eftir bankahrunið.
Frægasta völva landsins er líklega sú sem kennir sig við þekkt tímarit hér á landi, Vikuna. Á hverju ári seljast eintökin eins og heitar lummur og sagði Elín Arnar, ritstjóri Vikunnar, í viðtali á Bylgjunni í gær að upplagið af völvunni væri 400 sinnum stærra en venjulegt upplag. Það er auðvitað bæði hagkvæmt og skemmtilegt að geta séð framtíðina á undan öðrum.
Hverju skyldi þá völvan spá fyrir árið 2012? Áður en komið er að því er þó við hæfi að rifja upp hverju völvan spáði fyrir árið sem nú er senn á enda.
Í einhverjum tilvikum virðist völvan hafa spáð rétt fyrir. Fyrir ári talaði hún um áframhaldandi náttúruhamfarir líkt og gekk eftir í Grímsvötnum, hún talaði um hægagang hjá sérstökum saksóknara, að hver höndin yrði upp á móti annarri innan VG, að ástandið í Evrópulöndunum og Evrópusambandinu myndi versna og að Jón Gnarr yrði ekki vinsæll á árinu. Allt þetta hefur gengið eftir. Það þarf þó hins vegar enga spákonu til að hafa séð þessa hluti fyrir. Það skal þó látið liggja á milli hluta hér, enda er óþarfi að vera fúli Skúli þegar kemur að völvunni, hún er svo skemmtileg!
Í öðrum tilvikum var völvan þó ekki svo sannspá. Arsenal átti að standa uppi sem uppi sigurvegari í ensku deildinni en enduði 12 stigum frá efsta sæti, er mér sagt. Ekki tókst betur til með íslenska fótboltann, en völvan spáði því að baráttan myndi standa á milli Vals og FH en að endingu var það KR sem stóð uppi með pálmann í höndunum. Ríkisstjórn Íslands átti að springa á árinu og ekki bara ein ríkisstjórn heldur tvær og átti sú síðari að vera nokkurs konar þjóðstjórn. Völvan spáði því svo að Hanna Birna myndi taka við formannsembættinu í Sjálfstæðisflokknun og að Guðmundur Steingrímsson tæki við formannsembættinu í Framsóknarflokknum af Sigmundi Davíð. Það hefur ekki gengið eftir og er Guðmundur ekki lengur í Framsóknarflokknum. Árið er þó ekki enn á enda, en ólíklegt verður að teljast að sá spádómur rætist úr þessu.
Hverju megum við þá eiga von á, á árinu 2012? Elín Arnar hafði það eftir völvunni sjálfri á Bylgjunni í gær að Katla muni loksins gjósa. Ríkisstjórnin mun springa á árinu. Áframhaldandi vandræði verða hjá ESB. Titringur verður í Hádegismóum. Hjólin fara að snúast hjá sérstökum saksóknara. Vandmál verða í rekstri íslenskra fjölmiðla og Skjár 1 mun leggja upp laupana. Svo munu nýju hjónin Vilhjálmur bretaprins og Kate Middleton eignast barn.
Svo má gera ráð fyrir því veðrið verði breytilegt, stundum hlýtt og stundum kalt. Einhverjir munu kveðja þennan heim, jafnvel einhverjir frægir. Aðrir munu fjölga sér, jafnvel einhverjir frægir. Tekist verður á í stjórnmálunum og bloggarar munu tjá sig um það.
sem sagt….business as usual
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021