Með allri sanngirni þá verður að segjast að árið sem er að líða var ekki gott fyrir stétt harðstjóra og hryðjuverkamanna. Stétt þessi hefur mátt búa við allnokkuð starfsöryggi og ágætis kjör síðustu ár og áratugina en hefur mátt þola miklar sviptingar í ár. Þeir harðstjórar og illfygli þeirra sem eftir standa munu fagna því að árið 2011 sé loks á enda og þeir þeirra sem halda upp á tímamótin saman, munu væntanlega fara yfir það hvernig árið gat verið stétt þeirra svona erfitt.
Osama Bin Laden hryðjuverkaleiðtoginn allsgáði, hafði þó nokkrar sjálfsmorðsárásir á ferilskrá sinni. Bin Laden var mjög fær í að sannfæra kollega sína um ágæti þess að fórna eigin lífi í baráttunni gegn heiðingjunum með ýmiss konar sjálfsmorðsárásum en sá sér aldrei fært um að framkvæma eina slíka sjálfur. Væntanlega hafði læknir hans ráðið honum frá því. Meðan potíntátar hans eyddu væntanlega eftirlífinu í faðmi 72 óspjallaðra yngismeyja, faldi Bin Laden sig í víggirtum „kastala“ í Pakistan, beint undir nefinu á Pakistanska hernum, og naut lífsins í villu sinni. Þar nýtti hann daginn í að útbúa kasettur og vídeó handa aðdáendum sínum og naut væntanlega gestrisni Pakistanskra yfirvalda í botn. En Adam var ekki lengi í paradís.
Þegar bandaríska leyniþjónustan komst að því hvar hinn heilagi stríðsmaður héldi sig, var hóað í sérsveit sem opinberlega er ekki til. „Lið sex“ er sérþjálfuð sveit manna úr Navy Seals í Bandaríkjunnum. Ekki er hægt að sækja um inngöngu, ef einhver hefur hug á því, heldur eru meðlimir handvaldir úr röðum selanna. Þegar „kastalinn“ var selunum ljós buðu þeir sjálfum sér inn. Bin Laden, bar að sjálfsögðu eina af eiginkonum sínum fyrir sig þegar selirnir skutu sér leið inn í svefnherbergi hins heilaga stríðsmanns, en það dugði ekki til. Að lokum var bin Laden svo urðaður í sæ.
Eins og að andlát Osama Bin Laden hafi ekki verið nægt áfall fyrir stéttina, þá kom Arabíska vorið eins og blaut tuska framan í klúbbmeðlimi. Skringilegar staðhæfingar eins og að lýðræði og mannréttindi séu vestræn hugtök sem ekki eigi við um hinn arabíska heim voru slegnar út af borðinu í ár. Þrátt fyrir menningarmun okkar í milli hefur engin þjóð enn, svo höfundur viti til, kosið frá sér lýðræði eða kosið skoðanakúgun í stað málfrelsis.
Árið í ár, var árið sem arabaheimurinn reis upp gegn harðstjórum sínum og krafðist lýðræðisumbóta. Íbúar Túnis steyptu einræðisherra sínum, Ben-Alí af stóli sem flúði til Sádi-Arabíu með gullforða landsins. Egyptar steyptu Hosní Múbarak af stóli og sætir hann réttarhalda í Kaíró. Líbýumenn risu upp gegn einræðisherra sínum, Gaddafi sem hótaði að ganga húsi úr húsi þar til hver þeirra er honum mótmælti væri hljóður. Gaddafi lést svo í baráttunni um Sirte eftir að hafa stjórnað Líbýu í rúm 40 ár. Þrátt fyrir að ekki sjái enn fyrir endann á þeirri þróun sem fór af stað í ár, verður að teljast líklegt að ekki muni ástandið alls staðar þróast með þeim hætti er lagt var af stað með.
Eftir að hafa kvatt Gaddafi og Bin Laden, ásamt því að missa völdin í Túnis og Egyptalandi og horfa skelkaðir til Sýrlands, missti klúbburinn að lokum stjörnuleikmann sinn í desember þegar því var ljóstrað upp að hinn ástsæli leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Il hefði andast. Hafði kommúnísk stjórnun hans leitt til fjölda hungursneyða, árása og viðbjóðslegrar kúgunar. Þeir þurfa þó ekki að óttast arabíska vorið í N-Kóreu enn um sinn því að sonur hans, Kim Jong-Un, verður þriðji ættliðurinn til að taka við helsprotanum úr stirðum greipum föður síns.
Áramótapartý einræðisherra og útsendara þeirra munu því væntanlega verða lágstemmd eftir áföllin sem á þeim hafa dunið á árinu 2011. Fidel Castro, Khamenei, Mugabe, al-Bashir og hvað þeir heita allir þessir afburðamenn, geta kúgað þjóðir sínar enn um sinn, en mögulega, og vonandi, verður ekki léttari stemmning í áramótapartýum þeirra að ári.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021