Rödd skynseminnar og raunvísindin styðja ekki þann möguleika að María hafi orðið þunguð af völdum heilags anda eða að stjarna á himni hafi farið fyrir vitringunum og leitt þá að jötunni í Betlehem. Og ekki getur reynslan stutt við söguna um syngjandi englakór. Það er fleira í frásögunum af fæðingu Jesú sem þykir ekki örugg sagnfræði.
Margir trúaðir afgreiða allar slíkar efasemdir með því að segja að Guði sé ekkert um megn. Þá þarf ekki að ræða það meira.
En það er líka hægt að lesa þessar sögur með það í huga að þær eru ekki sagnfræði heldur vitnisburður manna um eðli Guðs.
En hvernig sem trú okkar er háttað þá er það nú þannig að þrátt fyrir menntun, upplýst samfélag og vantrú ná jólin okkur flestum og við látum berast með straumnum og tökum þátt í hátíðinni og höldum gleðileg jól.
Jólin eru töfrum gædd og hafa áhrif á tilfinningar fólks og háttarlag. Það er margt á yfirsnúningi dagana fyrir jól og má vera að við tökum of mikið á í þeirri viðleitni að “redda” jólunum en þegar jólahátíðin gengur í garð þá verður hátíð í bæ og glatt í hjörtum barna og fullorðinna. Gjafirnar gleðja og við njótum þess að vera í faðmi fjölskyldunnar og boðskapurinn um barnið í jötunni kallar fram það besta sem í okkur býr.
En fyrir sumum eru jólin grimmileg áminning um erfiðleika og vonleysi. Myndin af fjölskyldu sem situr brosandi, hjalandi og sæl við fagurlega skreytt jólatré getur aukið við vanlíðan þess sem er einmana og þeim sem er kalt kólnar enn frekar í vanlíðan sinni og vonleysi þegar andstæðunar verða svo augljósar.
“Gleymdu ekki þínum minnsta bróður”, var sungið til hjálpar þeim sem búa við hungurneyð og fólk á sér ekki von. Þetta lag sló í gegn fyrir aldarfjórðungi og hreyfði áreiðanlega við mörgum. Það er enn þörf á því að koma til hjálpar því víða er myrkur og böl.
Ljósanna hátíð ber upp á þeim tíma þegar myrkur er mest á norðurhveli jarðar og öll þráum við sól og vor. Þrátt fyrir rafmagnsljós og hitaveitu þá erum við ekki komin langt frá þeirri veröld sem var þegar kynslóðirnar á undan okkur áttu allt sitt undir því að aftur færi að birta og aftur kæmi vor í dal. Enn er inngróin í nútímamanninn angist um að myrkrinu muni ekki létta og það birti aldrei meir. Þess vegna er það svo mikið gleðiefni þegar sól fer að hækka á lofti og daginn tekur að lengja.
En það er líka óöryggi og dauðakvíði inngróinn og innmúraður innst í hugskoti okkar allra og öll þráum við öryggi, frið og andlega birtu.
Fyrir kristnu fólki er sagan af fæðingu Jesú eins og björt og lýsandi stjarna eða sól sem hrekur náttmyrkrið og óttann á brott líkt og englakórinn lýsti upp nóttina þar sem fjárhirðarnir vöktuðu hjörðina og ekkert varð sem áður.
Táknmynd jólanna er ljósið sem klýfur náttmyrkrið og hrekur það á brott. Þó að við séum fullorðin og merkileg þá erum við innst inni eins og óöruggt, hrætt og varnarlaust barn sem þráir og þarf öryggi og fullvissu um tilgang í lífinu.
Og við barnið í okkur segir jólasagan:
“Verið óhræddir.” Það er vilji Guðs að við lifum lífinu til fulls og njótum þess en lifum ekki í ótta og andlegu myrkri.
Þess vegna nær boðskapur jólanna til okkar því að öll viljum þráum við sól og vor í hjarta og sinni. Gleðileg jól.
- Jarðnesk trú og/eða himnesk - 23. maí 2021
- Páskadagur árið 2021 - 4. apríl 2021
- Að vesenast á aðventu og jólum - 25. desember 2020