Vasapeningur ráðherranna

Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í rekstri ríkisins undanfarin ár, þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á að forgangsraða og verja grunnþjónustu, lifir enn góðu lífi hinn furðulegi fjárlagaliður „Ráðstöfunarfé ráðherra“. Árið 2012 er þannig gert ráð fyrir því að 43 milljónir af almannafé fari til ráðherra sem úthluta þeim eftir eigin geðþótta (lesist: í sitt eigið kjördæmi) og ætla má að a.m.k milljarður króna hafi runnið í gegnum hendur ráðherra á þeim rúmu tveimur áratugum sem þetta kerfi hefur verið við lýði.

Þrátt fyrir mikinn niðurskurð í rekstri ríkisins undanfarin ár, þar sem lögð hefur verið mikil áhersla á að forgangsraða og verja grunnþjónustu, lifir enn nokkuð góðu lífi hinn furðulegi fjárlagaliður „Ráðstöfunarfé ráðherra“. Árið 2012 er þannig gert ráð fyrir því að 43 milljónir af almannafé fari til ráðherra sem úthluti þeim eftir eigin geðþótta.

Til að útskýra stuttlega hvað þessi liður gengur út á þá er ráðherra veitt fé og fjárheimild á fjárlögum til þess að ráðstafa fé án nokkurra sérstakra viðmiðana eða annarra reglna. Ráðherrar geta þannig styrkt félög, samtök, söfn, lions-klúbba eða hvað eina annað sem þeim dettur í hug – um þónokkrar milljónir á ári.

Þótt þetta sé almannafé sem er til skiptana, er ljóst að ráðherrarnir geta unnið ódýr prik á þennan hátt hjá kjósendum sínum enda aldrei óvinsælt að geta mætt heim í hérað og bjargað hinum og þessum þjóðþrifamálum – veitt leikfélaginu styrk til að setja upp sýninguna sem þeir hafa verið að reyna að koma á laggirnar lengi, gefið nýja búninga til íþróttafélagsins eða laumað smáræði í ferðasjóð kvenfélagsins. Allt mælist þetta vel fyrir og hinn gjafmildi ráðherra vinnur sig vitaskuld í álit hjá þeim hópi sem nýtur góðs af gjafmildi hans.

Umgjörðin utan um þetta er lítil sem engin. Fénu er ráðstafað að geðþótta ráðherra og engar reglur eru í gildi. Ekki er sótt sérstaklega um og ekki eru á ráðherranum neinar kvaðir um með hvaða hætti hann deilir þessu út, með þeirri undantekningu að efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur sett sér reglur um hvernig fénu er útdeilt.

Þótt fjárhæðin sem slík sé ekki neitt sem skiptir máli í heildarútgjöldum ríkisins, alls 43 milljónir fyrir árið 2012, er þetta þónokkur fjárhæð, ekki síst á þeim tímum þar sem stofnanir ríkisins eru margar hverjar komnar að þolmörkum í niðurskurði. Ekki svo að skilja að þessi útgjöld eigi frekar rétt á sér þegar ríkinu gengur vel – þetta er jafnvitlaust fyrir því. Yfir þá rúmu tvo áratugi sem þessi útgjöld hafa verið til staðar er ekki óvarlegt að áætla að meira en milljarður króna hafi runnið í gegnum hendur ráðherra með þessum hætti.

Fjárheimildin er misjöfn milli ráðherra og eins og margt annað í tengslum við þennan furðulega fjárlagalið eru engin sérstök rök fyrir því hvernig skiptingin er:

Forsætisráðuneyti: 2,5 m.kr.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti: 6,0 m.kr.
Utanríkisráðuneyti: 3,5 m.kr.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti: 2,9 m.kr.
Innanríkisráðuneyti: 8,4 m.kr.
Velferðarráðuneyti: 6,9 m.kr.
Fjármálaráðuneyti: 2,9 m.kr.
Iðnaðarráðuneyti: 5,0 m.kr.
Efnahags- og viðskiptaráðuneyti: 2,0 m.kr.
Umhverfisráðuneyti: 2,9 m.kr.
Samtals: 43,0 m.kr.

Það er rétt að taka fram að þessi ósiður er þó langt í frá að frumkvæði núverandi ríkisstjórnar, heldur lifir þessi útgjaldaliður góðu lífi áfram frá fyrri ríkisstjórnum og hefur verið í meira en tuttugu ár á fjárlögum og hefur meira að segja að farið lækkandi miðað við það sem best var.

Þetta mál er lítið rætt á á þingi og gagnrýni frá stjórnarandstöðu hefur ekki verið hávær (þótt einstaka undanþágur séu á því), hvorki nú né fyrr – enda nokkurs konar „treat“ fyrir þá sem sitja í stól ráðherra hverju sinni, þ.e. prívat kosningasjóður ráðherra. Þegar Kastljósið vann úttekt fyrir nokkrum árum síðan á því hvernig fénu hefði verið ráðstafað kom t.d. fram sú óvænta tilviljun að ráðherrar virtust hafa tilhneigingu til að ráðstafa fénu í sínu kjördæmi.

Eins og jafnan með úthlutun á opinberu fé má sjálfsagt benda á mikinn fjölda góðra mála og verkefna sem fá styrki. En það getur þó ekki réttlætt þá ranglátu aðferð sem býr að baki úthlutuninni enda þarf ekki ráðherra til að sjá hvort verkefni er gott eða slæmt.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.