Nú fyrir helgina barst um þjóðfélagið saga sem að myndaði hnút í maga flestra. Það var frásögn af konu sem að kom inn á fatamarkað í þeim erindum að kaupa kuldafatnað á unga dóttur sína því hana hafði þurft að sækja í skólann vegna skorts á slíkum fatnaði. Þegar á markaðinn var komið átti hún ekki fyrir fötunum og brotnaði saman fyrir allra augum. Góðhjartað starfsfólk hljóp þá til og leysti úr vanda konunnar.
Þetta er sterk saga. Sterk áminning til okkar um það að í okkar nærumhverfi býr fólk sem ekki getur veitt sér og sínum þau gæði sem nauðsynleg eru til lífsbjargar. Nú á aðventunni snertir neyðin enn frekar við fólki og losar sem betur fer um budduna. Þetta sjáum við á öllum þeim fjöldamörgu söfnunum sem eiga sér stað í mánuðinum.
Þörfin og neyðin hefur aukist til mikilla muna eftir bankahrunið. Afskaplega „venjulegt“ fólk á í vaxandi vanda við að framfleyta sér. Staðan er þröng og þörfin rík.
Við þessu ástandi bregst fjöldi sjálfboðaliða. Annar hópur venjulegs fólks sem gefur af tíma sínum og innkomu til þess að uppfylla þarfir þeirra sem eru þurfandi með einum eða öðrum hætti. Starf þeirra verður hins vegar ekki unnið án stuðnings almennings. Samhjálpin byggist á því að þau okkar sem að eru aflögufær leggjum okkar lóð á vogarskálarnar þannig að unnt sé að taka utan um þá sem standa höllum fæti og mæta þeim í þeirra þröngu stöðu. Það er ekki fullnægjandi svar að varpa ábyrgðinni alfarið á stjórnvöld. Fyrst verðum við að leggja okkar af mörkum. Ábyrgðin hvert á öðru liggur fyrst og síðast hjá þeim einstaklingum sem að byggja landið.
Þá er ótalin sú aðstoð sem veitt úr út fyrir landsteinanna til þess að vinna á þeim óendanlegu hörmungum og þjáningu sem svo víða er að finna. Nokkuð hefur borið á gagnrýni í garð þeirra sem tala fyrir slíkri aðstoð og reyna eftir fremsta megni að afla henni fjár. Er átalið að staðið sé fyrir slíku þegar þörfin hér innanlands er svo knýjandi. Að mínu viti á slík gagnrýni ekki rétt á sér. Við búum þrátt fyrir allt við ofgnótt efnislegra gæða. Í samanburði við þorra mannkyns einkennast lífsgæði okkar af lúxus. Okkur ber ekki síður mórölsk skylda til þess að létta undir með bræðrum og systrum okkar á suðlægari slóðum heldur en hér heima við.
Það er eðlilegt að mönnum fallist hendur gagnvart slíkri neyð. Sú hugsun sækir á að mitt framlag geti aldrei leyst vandann. Svo lítið sem það er. Þeirri hugsun verðum við að snúa á hvolf og líta á okkar framlag sem einn einasta vatnsdropa í það vatnsból sem sótt er í. Því eins og Jón Vídalín sagði einhvern tíman í upphafi 18. aldar þá er lítill dropi líka vatn.
Það hefur ekki breyst og mun ekki breytast.
- Að vinna að framgangi lífsins - 6. apríl 2012
- Kony 2012 – skilar þetta einhverju? - 21. mars 2012
- Rússnesk varðstaða um einræðisherra - 5. febrúar 2012