Reglulega skýtur upp kollinum sú hugmynd að lögleiða beri fíkniefni á Íslandi. Flestir sem aðhyllast þessa skoðun eiga þá við lögleiðingu á kannbisefnum og halda því jafnan fram að efnið sé nánast skaðlaust og að þetta muni verða samfélaginu til bóta. Aðrir vilja ganga svo langt að lögleiða beri bæði sölu og neyslu á öllum fíkniefnum.
Það að lögleiða beri sölu og neyslu á öllum fíkniefnum er í eðli sínu ekki svaravert, um lögleiðingu vægari efna eins og kannabisefna getur oft verið gott og þarft að taka umræðuna og meta málið upp á nýtt.
Það eru tveir hópar fólks sem jafnan vilja lögleiða kannabisefni. Annars vegar eru þetta þeir sem nota efnið sjálfir og hins vegar þeir sem aðhyllast mjög frjálslyndar skoðanir. Þessir hópar horfa jafnan til Hollands og þá aðallega til Amsterdam sem er þekkt fyrir „kaffihúsin“ sín sem selja og leyfa fólki að reykja kannabisefni og borða ofskynjunarsveppi. Í raun er það þannig að þú mátt aðeins eiga efnið í smáum skömmtum og reykja á ákveðnum stöðum í Amsterdam. Þannig hafa lögreglan og yfirvöld afskipti af fólki ef til þess sést með töluvert magn af kannabisefnum á sér.
Því er oft haldið fram að það sé enginn svartur eiturlyfjamarkaður í Hollandi, að þar sé allt uppi á borðinu, engir handrukkarar eða eiturlyfjasalar. Þetta er einfaldlega rangt. Þeir sem hafa komið til Amsterdam vita að þar má finna öll hörðustu efnin. Þessum efnum fylgir svartur markaður með öllu tilheyrandi eins og þekkist í nánast öllum öðrum borgum. Þannig að segja að samfélagið losni við handrukkara og eiturlyfjasala með því að lögleiða kannabisefni er einfaldlega fráleitt.
Annað sem stuðningsmenn þessara hugmynda gleyma að minnast á er að Amsterdam er ein af lykilborgum heimsins þegar kemur að útflutningi á e-pillum, þ.e. ótrúlegt magn eitulyfja fer í gegnum Amsterdam. Þetta er ekki tilviljun.
Fullyrða má að þetta tengist beint því frjálsyndi sem eiturlyf njóta í borginni. Eiturlyfin leita þangað sem markaðurinn er stærstur og þar sem þau þrífast best. Er það ásættanlegur fylgikvilli að við lögleiðingu vægari fíkniefna að Reykjavík verði einhverskonar miðstöð fíkniefnaútflutnings?
Að lokum ber að geta þess að hollensk yfirvöld eru að herða til muna þessa lögleiðingu sína. Lög sem munu taka gildi á árinu 2012 eru þess eðlis að aðeins heimamenn og skráðir meðlimir geti sótt kannabis kaffihúsin heim, s.s. ferðamönnum verði meinaður aðgangur að þessum stöðum. Varla færu hollensk stjórnvöld að breyta þessu kerfi sínu og herða það svo til muna ef þetta gengi vonum framar? Ljóst má vera að þolinmæði þeirra fyrir fíkniefnum er á þrotum.
Eins og fyrr segir hefur því reglulega verið haldið fram að stuðningsmönnum lögleiðingar á kannabisefnum að þau séu að mestu leyti skaðlaus. Þetta er einfaldlega ekki rétt en rannsóknir hafa ítrekað sýnt að kannabis veldur slævingu á miðtaugakerfinu og skertri samhæfingu hreyfinga. Það dregur úr hæfni manna til þess að leysa af hendi verkefni, eins og til dæmis að stjórna bifreið. Rangskynjanir koma fyrir og einbeiting og túlkun atburðarásar ruglast. Skammtímaminni hrakar og námsgeta skerðist af þeim sökum. Við mikla kannabisneyslu getur komið fram geðveikikennt ástand, sem einkennist af rugli, ofskynjunum og ranghugmyndum. Þetta ástand getur varað dögum saman.
Ýmiss konar persónuleikaraskanir eru algengari hjá þeim sem hafa reykt kannabis lengi en hjá þeim sem gera það ekki. Að lokum hefur verið sýnt fram á að þeim sem reykja kannabis virðist vera um sex sinnum hættara við að fá geðklofa en öðrum. Kannabisefni er eiturlyf og er sem slíkt mjög skaðlegt, til vitnis um þetta eru hundruðir Íslendinga sem hafa misst allt sitt í gegnum þessi sömu efni.
Þegar eiturlyfjafíklar, virkir og óvirkir, segja frá því hvernig þeir enduðu í klóm fíkniefnadjöfulsins hafa margir þeirra sömu söguna að segja. Yfirleitt byrjaði neyslan með fikti í vægari efnum eins og kannabis og ofskynjunarsveppum en smátt og smátt leiddist viðkomandi út í harðari efni. Hversu oft hefur maður heyrt nákvæmlega þessa sögu? Alltof oft. Svarið við fíkniefnavandanum er ekki að lögleiða vægari efni, þvert á móti á markmiðið alltaf að vera að losa heiminn við fíkniefni, alfarið – sama hversu erfitt það mun reynast.
Niðurstaðan er alltaf sú sama . Það er enginn samfélagslegur ávinningur af lögleiðingu vægari fíkniefna.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011