Prófaglaðningur

Nú á köldum desemberdegi liggur stór hluti þjóðarinnar yfir námsbókunum í lesstofum, á bókasöfnum, heima hjá sér eða um það alls staðar annars staðar en fólk langar raunverulega að vera. Og ekki nóg með það; tíminn líður og ekkert mjakast áfram. Hver kannast ekki við að vera í prófum og athyglin er einhvern veginn alls staðar annars staðar en á bókunum?

Nú á köldum desemberdegi liggur stór hluti þjóðarinnar yfir námsbókunum í lesstofum, á bókasöfnum, heima hjá sér eða um það alls staðar annars staðar en fólk langar raunverulega að vera. Og ekki nóg með það; tíminn líður og ekkert mjakast áfram. Hver kannast ekki við að vera í prófum og athyglin er einhvern veginn alls staðar annars staðar en á bókunum? Ef til vill hefur áhugi á uppvaskinu og almennum þrifum aukist til muna, fréttir á netmiðlum og stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum virðast standa í stað vegna síendurtekinna heimsókna. Og árlegur áhugi á Bubbelshooter er farinn að gera vart við sig. Þá má ekki gleyma hversu óþægilega mikið maður er orðinn upplýstur um skilnaðarmál þjóðþekktra einstaklinga.

Þessi óskilvirka notkun á tíma í prófatíð eru ekki nýjar fréttir. Og það sem verra er; með ári hverju fjölgar valmöguleikum á afþreyingu sem oft virðist gleypa tíma okkar. Nú höfum við snjallsíma, spjaldtölvur, tónhlöður og ótal önnur tæki og tól sem færa okkur afþreyingamöguleika beint í æð. Mikið af þeirri afþreyingu sem er að finna í nýjum tækjum er að finna í svokölluðum smáforritum (A-apps). En þó mörg þeirra geti gleypt tíma sem við getum aldrei fengið til baka, þá má líka með góðum vilja finna nokkra gullmola sem geta gert lærdóminn skilvirkari og skemmtilegri.

Einn af þessum gullmolum er fyrir notendur Google Crome vafrans. Með honum má skammta tíma sem varið er daglega á tilteknum vefsíðum. Með þessu forriti er til dæmis hægt að setja einnar klukkustundar hámark fyrir þann tíma sem varið er á ánetjandi vefsíðum á borð við Facebook og Flickmylife. Með því að nota forritið er þess vegna hægt að koma í veg fyrir að hálftímarnir og klukkutímarnir fljúgi út um gluggann, án þess að þurfa að stimpla sig algjörlega út úr hinum siðmenntaða heimi. Frekari upplýsingar má nálgast hér.

Með góðri glósutækni má einnig nýta tímann betur. Minnis- eða flettimiðar eru vel þekkt tæki til að skerpa á því helsta rétt fyrir próf. Vandamálið við svona miða er að mikill tími fer í að vinna þá. Jafnvel svo mikill að yfirlesturinn verður takmarkaður. Minnis- eða flettimiðar eru aðgengilegir sem smáforrit í flestar tegundir snjallsíma og spjaldtölva. Þau hafa þó mismunandi eiginleika. Eitt þeirra stendur framar að því leyti að gefinn er kostur á að dreifa miðum. Þannig getur hópur fólks sameinast um að vinna glósurnar og flett þeim hvort sem er í símanum, far- eða spjaldtölvunni. Þetta smáforrit hefur líka þá sérstöðu að notendahópurinn takmarkast ekki við eina tegund af símum eða tölvum. Hér má finna frekari upplýsingar um þetta gagnlega smáforrit.

Að vera vel glósaður er þó lítils virði ef maður kemst ekki fram úr rúminu á morgnana. Í prófatíð virðist oft hellast yfir mann óheyrileg þreyta og svefnþörf. Á köldum dögum sem þessi er sængin svo sannarlega huggulegri en bókhlaðan. Smáforrit fyrir Android notendur býður upp á skemmtilega leið til að koma sér framúr. Þetta smáforrit er vekjaraklukka sem virkar þannig að þú býrð til QR kóða (eins konar rafræn bleksletta eins og sést víða á auglýsingum nú til dags), prentar út og setur til dæmis inn á baðherbergi eða annarstaðar í hæfilegri fjarlægð frá rúminu. Vekjaraklukkan í símanum neitar svo að slökkva á sér fyrr en búið er að skanna kóðann inn. Með því að smella hér færð þú frekari upplýsingar

En gott er að hafa í huga að það er eins með framboð smáforrita og framboð afþreyingaefnis að auðvelt er að gleyma sér í þeim misgagnlega aragrúa smáforrita sem finna má á veraldarvefnum. Þó er óhætt að mæla með þessum þremur til þess að gera lífið á lesstofunni bæði skilvirkara og skemmtilegra.

Latest posts by Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir (see all)