Svokölluð herraklipping tröllríður íslensku samfélagi ef eitthvað er marka þær fréttir sem ábyrgðarfullir íslenskir fjölmiðlar flytja okkur þessi dægrin. Fyrstu sextán árin í lífi mínu fór ég aldrei annað í klippingu en á Rakarastofu Hinriks Haraldssonar, Hinna rakara, á Akranesi. Rakarastofan var þá og er enn held ég starfrækt í 25 fermetra byggingu á gatnamótum Vesturgötu og Skólabrautar. Þá var alltaf beðið um herraklippingu.
En herraklipping sú sem er móðins í dag á ekkert skylt við herraklippinguna hjá Hinna rakara. Sú herraklipping sem fjölmiðlar hafa fjallað um að undanförnu hefur raunar ekkert með hárskurð að gera. Í stuttu máli er hér á ferðinni slangur yfir það sem var einu sinni kallað vönun. Það virðist nefnilega vera aðalmálið hjá mönnum nú til dags að láta taka sig úr sambandi, sem svo er kallað.
Þessi tíska er ekki bara bundin við karlmenn sem komnir eru fram yfir miðjan aldur og telja sig ekki hafa neitt fram að færa á þessum vettvangi. Ungir menn sækjast ekkert síður eftir herraklippingu, ef marka má frásagnir fjölmiðla. Það er erfitt að átta sig á þeim þankagangi sem að baki liggur. Er fólksfjölgun svo verulegt vandamál á Íslandi að vana þurfi fullfríska karlmenn á besta framleiðslualdri?
Okkur Íslendingum fjölgar of hægt, þótt enn megi þakka fyrir að okkur fer ekki fækkandi eins og gömlu Evrópuþjóðunum. Þar er þróunin sú að færri og færri draga vagninn í samfélaginu, fólk lifir lengur en færri fæðast. Þegar þetta fer saman með kröfum vinstrivitleysinga á meginlandinu um að fólk eigi að hætta að vinna uppúr fimmtugu, þá er ekki að sökum að spyrja.
Vagninn er orðinn svo þungur að dráttarklárarnir koma honum ekki úr stað, hann situr fastur og sekkur smám saman í dýið. Þetta er það sem er að gerast í „þróuðu“ ríkjunum. Eina sem vegur á móti er straumur innflytjenda sem heldur samfélögum eins og Ítalíu og Þýskalandi gangandi. Maður hlýtur þess vegna að spyrja sig hvort herraklippingin nýja sé þáttur í aðlögun Íslands að Evrópusambandinu.
Ég ætla hér með að lýsa bæði yfir sjálfstæði mínu og fullveldi, þótt það sé degi of seint, og hvetja íslenska karlmenn til að standa vörð um hringrás lífsins og rjúfa hana ekki með klippingu af neinu tagi. Herraklipping á að vera höfðuðprýði, eins og hún var og er hjá Hinna rakara.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021