Hreyfingin “Occupy Wall Street” hefur vakið ótrúlega fjölmiðlaathygli og nánast daglega voru fluttar fréttir af þessu sérkennilega samfélagi sem varð til í fjármálahverfinu í New York um miðjan september.
Upphaf mótmælanna mátti rekja til óánægju í kjölfar fjármálakreppunnar í Bandaríkjunum, en hreyfingin deildi á misskiptingu auðs með slagorðinu “við erum 99%.” Það þarf ekki að koma á óvart að óánægja kraumi í samfélagi þar sem atvinnuleysi er 9% og fimmtungur þjóðarinnar á um 85% auðævanna.
En fyrir þá sem heimsóttu tjaldbúðirnar er hins vegar ekki alveg víst að boðskapurinn hafi komist til skila. Tjaldbúðirnar urðu nefnilega fljótt vettvangur fyrir alla þá sem höfðu sterkar skoðanir – á hverju sem er. Með því að rata á rétta tjaldið gastu auðveldlega fundið samherja í baráttunni, hvort sem hugðarefnið var umhverfisvernd, lögleiðing eiturlyfja eða dauðarefsingar.
Þetta óvenjulega samansafn af ólíku fólki, ásamt mikilli umfjöllun fjölmiðla, dró síðan að sér ferðamenn, sem voru iðulega margfalt fleiri en mótmælendurnir sjálfir. Mótmælendurnir urðu að hálfgerðum sýningargripum, enda þótti ferðamönnunum skrautlegt fólk í litríkum tjöldum vera ákaflega gott myndefni.
Sumir mótmælendanna gengust upp í athyglinni og settu á svið skemmtiatriði fyrir áhorfendur, sem fögnuðu iðulega í fullkomlega öfugu hlutfalli við gæði atriðanna. Aðrir ákváðu að verðleggja boðskapinn og selja blöð eða bæklinga, enda mikil eftirspurn eftir minjagripum um þessi “heimsfrægu” mótmæli.
Fyrir nokkrum dögum voru tjaldbúðirnar í New York leystar upp af lögreglunni. Hreyfingin hefur hins vegar breiðst út og hugmyndin um að setja upp tjaldbúðir í mótmælaskyni náði meðal annars alla leið til Íslands.
Fjölmiðlar hafa hins vegar fyrir löngu hætt að fjalla um það sem hreyfingin vildi upphaflega vekja athygli á. Fréttaflutningurinn snýst um fjölda mótmælenda, lífið í tjaldbúðunum eða framgöngu lögreglu, sem hefur ýmist verið gagnrýnd fyrir að grípa ekki til aðgerða eða ganga of hart fram.
“Occupy Wall Street” var upphaflega sjálfsprottin hreyfing með ákveðinn boðskap. Gífurleg fjölmiðlaumfjöllun hafði hins vegar þau áhrif að hreyfingin varð að einhvers konar sameiginlegu afli fyrir alla þá sem vildu mótmæla einhverju og vekja athygli á sínum málstað.
Sú staðreynd mun að öllum líkindum leiða til þess að hreyfingin mun liðast í sundur, jafnskjótt og hún varð til.
- Burtu með fordóma - 1. júní 2014
- Rétturinn til þess að ljúga - 23. febrúar 2012
- Markmið sérstaks saksóknara - 31. janúar 2012