Skautadansari sem getur ekki staðið á skautunum, er ýmist á hnjánum eða afturendanum á ísnum og í engum takti við tónlistina eða nokkurn skapaðan hlut í skautahöllinni – hann er ekki skautadansari. Hann er kannski klæddur eins og skautadansari og kallar sig skautadansara, en hann er það ekki.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nú setið í næstum þrjú ár. Stærsta hluta þess tíma hefur ríkisstjórnin ýmist verið á hnjánum eða á afturendanum og aðhafst fátt af því sem ríkisstjórn er ætlað að gera. Hún heitir ríkisstjórn en hún er það ekki.
Farsinn í kringum stjórnina síðustu daga er því miður ekki uppákoma, hann er business as usual. Forsætisráðherra gerir tilraun til að svipta sjávarútvegsráðherra forræði á sínum eigin málaflokki en það tekst ekki. Forsætisráðherra reynir þvínæst að reka ráðherrann úr ríkissjórninni en það tekst ekki heldur.
Við ríkisstjórnarborð Jóhönnu Sigurðardóttir sitja nú að minnsta kosti tveir ráðherrar sem viðhafa vinnubrögð sem henni þykja ekki boðleg ef marka má stóryrtar yfirlýsingar hennar í fjölmiðlum um þessa skjólstæðinga sína. Ekki verður hjá því komist að rifja upp hér að ástæðan sem Samfylkingin gaf fyrir stjórnarslitum við Sjálfstæðisflokkinn í upphafi árs 2009 var sú að verkstjórnin væri ekki nægileg góð.
Á sama hátt og skautadansarinn skríður um ísinn í fullkominni afneitun um að atriðið hans er farið fjandans til, á meðan áhorfendur eru ýmist farnir eða hættir að fylgjast með þessum vandræðagangi, þá neitar ríkisstjórnin að horfast í augu við raunveruleikann. Ef markmiðið hjá skautadansaranum er bara að vera á ísnum þar til tónlistin hættir, þá mun það væntanlega takast.
Ríkissjórnin virðist hafa sama markmið, hún ætlar bara að sitja þar til lagið er búið. Ekkert annað skiptir máli, hagsmunir fyrirtækja og heimila í landinu verða að víkja fyrir því markmiði að fyrsta vinstristjórnin nái að sitja heilt kjörtímabil.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021