Mál eigenda Grímsstaða á Fjöllum, sem var meinað um að selja eign sína, af því að Ögmundi Jónassyni leist illa á kaupandann, gæti orðið einhvers konar vendipunktur í íslenskri pólitík. Ef við erum heppin verður málið til þess að frjálslyndari öfl allra stjórnmálaflokka dragi línu í sandinn áður en frekari þjóðernisforræðishyggja skýtur hér rótum. Ef ekki – þá er hætt við að fyrir Íslandi blasi ennþá forhertari eingangrunarhyggja með ömurlegum afleiðingum fyrir flesta Íslendinga.
Ákvörðun Ögmundar kom ekki mjög á óvart. Hana má rökstyðja með lögum, rétt eins og hefði verið hægt að gera um gagnstæða afstöðu. Það sem kom hins vegar á óvart var hversu blygðunarlaust ráðherrann notaði tilkynningu sína í áróðursskyni. Með því að nota orðin „erlend yfirráð“ um hugsanlega eign Kínverjans var ráðherrann að nota hugtök, og höfða til tilfinninga, sem ekkert erindi áttu. Burtséð frá því hvað fólki kann að finnast um ákvörðunina, þá ættu flestir að sjá hættumerkin við þetta áróðursbragð. Maður, sem ætlaði að kaupa land á Íslandi, og hafði boðist til að afsala sér ýmsum hefðbundnum réttindum lagndeigenda, þarf að sæta því frá Ögmundi Jónassyni að um hann sé notað sambærilegt orðalag eins og ef um innrásarher væri að ræða.
Annað áhyggjuefni við þennan málflutning er að hann byggist á lygi. Lygin í orðfæri Ögmundar, og ráðuneytis hans, felst í því að gefa blákalt í skyn að Ísland missi fullveldisrétt yfir landsvæði í einkaeigu. Svo er að sjálfsögðu ekki.
Sannleikurinn virðist hins vegar blasa við. Afstaða Ögmundar byggist á því að hann hefur óbeit á einkaframtaki, athafnasemi og öllu því sem fjármagn í höndum einkaaðila getur komið í kring. Haftahugsunin skín í gegn. Forræðishyggjan blasir við.
Og í dag berast fréttir sem sýna að bönnunarfýsn þjóðernisíhaldsins í VG hefur ekki verið svalað. Stemmningin í VG er í þá átt að loka ennfrekar á möguleika útlendinga á fjárfestingum á Íslandi. Sömu hræðsludraugarnir og kvaddir voru upp fyrir tæpum 20 árum í tengslum við EES samninginn eru aftur komnir á stjá. Tveggja áratuga reynsla Íslands af ágangi gírugra útlenskra auðmanna – eða öllu heldur skorti á honum – virðist ekki hafa róað taugarnar í hræðslupúkum þjóðarinnar. Nú finnst sumum í VG tímabært að herða ennþá frekar öryggisgæsluna við hliðið sem enginn er hvort sem er að ganga inn um.
Taugaveiklunin og óöryggið nær auðvitað víðar heldur en til VG. Í öllum flokkum virðist vera einhver vísir af stuðningi við þau sjónarmið sem kristallast svo vel í orðum og aðgerðum Ögmundar síðustu daga. En andstöðuna er líka að finna í öllum flokkum.
Hvernig sem fer með líf ríkisstjórnarinnar, og hvaða smáskandalar sem stjórnmálamennirnir koma sér saman um að kvabba um, er ljóst að undir niðri er í gangi hörð hugmyndafræðilega barátta á Íslandi. Hvort mun þjóðernisíhald, forræðishyggja og einangrun halda áfram að eyðileggja framtíðarmöguleika þjóðarinnar – eða munu frjálslyndari, hugaðri og vitrari öfl taka sig taki, innan þings sem utan, og stöðva þessa vitleysu?
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021