Samkvæmt íslenskum lögum geta allir kynnt sér launakjör annarra. Þetta er gert með framlagningu álagningaskráa á skattstofum landsins á hverju ári. Meginröksemdin fyrir þessari upplýsingagjöf er að þannig geti borgararnir veitt hver öðrum aðhald og að opinberun teknanna sé í raun snar þáttur í virku skattaeftirliti. Þannig á hver maður að fylgjast með öðrum til að sannreyna að hann sé að borga eðlilega skatta miðað við stöðu hans í almennu tilliti.
Þannig er hugmyndin að maður geti flett upp launum nágrannans og ályktað að það sé ekki séns að hann hafi efni á nýja pallinum með heita pottinum sem settur var upp sl. vor miðað við þau laun sem hann gefur upp til skatts. Þetta er grunnhugmyndin á bakvið þetta eftirlit þegnanna með hverjum öðrum.Þetta eftirlit á að leiða til þess að menn gefa frekar upp tekjur sínar og að ríkið verði þannig ekki af mikilvægum skatttekjum.
Látum vera í augnablik að ræða hér hvort þetta standist stjórnarskrá og svoleiðis pappíra en skoðum í staðinn hvort ástæða sé til að færa þetta prinsipp, ef það er á annað borð eitthvað vit í því, yfir á ríkisútgjöldin.
Árlega greiðir ríkissjóður tugi milljarða í hvers kyns bætur til borganna. Má þar nefna barnabætur, vaxtabætur, og atvinnleysibætur en upptalningin gæti veri mun lengri. Þetta gerir ríkið í þeim yfirlýsta tilgangi að jafna kjör manna, að taka
peninga frá einum og færa öðrum. Þannig má segja að hluti þjóðarinnar hafi tekjur sínar og framfærslu að einhverju og jafnvel verulegu leyti frá þeim sem greiða skatta.
Ekki stendur til að amast yfir þessari verðmætamiðlun hér, þótt rík ástæða sé til, en hún er eilíft deiluefni í sjálfu sér. Það sem hins vegar vekur athytli er áhersla ríkisins á að koma á sérstöku eftirliti borgaranna hver með öðrum þegar kemur að tekjuhlið ríkisins, þ.e. skattgreiðslum, en að láta útgjaldahliðina liggja á milli hluta á sama tíma. Margt bendir til þess að svokölluð bótasvik séu umfangsmikil hér á landi. Menn skálda upp aðstæður í þeim tilgangi að fá bætur frá ríkinu, þ.e. að tekjur sínar frá skattgreiðendum.
Ef löggjafanum er alvara með því að framlagning álagningarskráa og þar með upplýsinga um tekjur nafngreindra einstaklinga skili árangri í baráttunni við undanskot frá skatti, hvers vegna í ósköpunum er þá ekki lögð fram skrá yfir þá sem þiggja bætur frá ríkinu í þeim tilgangi að vinna gegn bótasvikum? Eru upplýsingar um stöðu manna á vinnumarkaði (þ.e. hvort þeir hafa vinnu eða ekki) viðkvæmari persónupplýsingar en þær er varða laun manna og fjárhagsmálefni? Á að hvíla meiri leynd yfir skuldastöðu einstaklinga en launakjörum þeirra?
Auðvitað varðar engan um neitt af þessu. Ríkið getur aflað allra þessara upplýsinga í krafti sinna valdheimilda án þess að þurfa að bera þessar upplýsingar á torg og fara þannig fram á að borgararnir séu að hnýsast hver um annan. Það er þess vegna eitthvað annað sem býr að baki hjá löggjafanum þegar hann þráast við að afnema úr lögum löngu úrelt ákvæði um eftirlit borgaranna með skattgreiðslum hvers annars.
Tvískinningurinn verður hins vegar kristaltær þegar borin er saman mismunandi afstaða löggjafans til eftirlits með skatttekjum annars vegar og bótagreiðslum hins vegar.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021