Sjálfstæðisflokkurinn sýndi um liðna helgi að hann er ekki eins máls flokkur og mun ekki klofna vegna ólíkra sjónarmiða um ESB. Umræður um utanríkismál voru vissulega fyrirferðarmikilar á landsfundinum og var mikið rætt um aðildarviðræðurnar við ESB. Að lokum var samþykkt afdráttarlaus og skýr ályktun:
„Sjálfstæðisflokkurinn telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópu¬sam¬bandið og styður því ekki aðildarviðræður ríkisstjórnarinnar. Samstarfinu við ESB er best viðhaldið og það eflt á grundvelli EES-samningsins.“
Það ætti öllum að vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið og að hann er á móti aðildarviðræðunum sem nú standa yfir. Enda segir svo í ályktuninni:
„Sjálfstæðisflokkurinn varaði við því að hafnar yrðu aðildarviðræður við ESB án þess að ákvörðun um að óska eftir aðild væri tekin á grundvelli breiðrar samstöðu í samfélaginu og án þess að skýr samningsmarkmið lægju fyrir. Ekkert tillit var tekið til þeirra aðvarana og eru aðildarviðræðurnar nú í ógöngum á ábyrgð klofinnar ríkisstjórnar til málsins.“
Í ljósi þess að ríkisstjórnin er algjörlega búin að klúðra málinu er að lokum lögð fram tillaga um hvernig hægt er að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er:
„Landsfundur ályktar að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðisgreiðslu.“
Ályktun þessi var að lokum samþykkt með öllum megin þorra atkvæða fundarmanna. Um niðurstöðuna er ekki ágreiningur þótt við afgreiðslu á einstökum málsgreinum hennar hafi komið fram skiptar skoðunar um mismunandi áherslur og útfærslur.
Það sem andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa ekki getað skilið er að innan Sjálfstæðisflokksins rúmast ólík sjónarmið og jafnvel andstæð viðhorf til allskyns þjóðfélagsmála. Það á jafnframt við um afstöðu sjálfstæðismanna til Evrópusambandsins. Sjálfstæðismenn sameinast hins vegar um sjálfstæðisstefnuna og að virða beri lýðræðislega niðurstöðu í kosningum um einstök mál. Meirihlutinn ræður en hann verður jafnframt að taka tillit til og virða skoðanir minnihlutans.
Stjórnmálafræðiprófessorinn hélt því fram í Fréttablaðinu að sjálfstæðismenn hefðu ekki leyst úr ágreiningi sínum um ESB. Þetta er alrangt því það var einmitt leyst úr þeim ágreiningi á landsfundinum.
Það kann að vera að skoðun prófessorsins byggist á því að persónulega sé hann hlynntur því að Ísland gangi í ESB og af þeim sökum hafi Sjálfstæðisflokkurinn „ranga stefnu“ í Evrópumálum. Erfitt er að fullyrða neitt um það. Rangfærslan um stefnu Sjálfstæðisflokksins í evrópumálum er samt slík að sú niðurstaða er sennileg.
- Stjórnarhættir sjávarútvegsfyrirtækja - 26. maí 2021
- Dokkan og Ríkið - 18. febrúar 2021
- Villuljós og vinnuleit - 15. desember 2020