Því er stundum haldið fram að veraldarsöguna megi skoða sem sífellda togstreitu milli athafnamanna og kaupmanna annars vegar og stjórnmálamanna hins vegar. Athafnasamt fólk horfir á umhverfi sitt og reynir að finna leiðir til þess að skapa sjálfum sér og öðrum atvinnu með því að leysa úr þörfum sem annars er ekki mætt. Stjórnmálamenn og konungar hafa hins vegar gjarnan verið í því hlutverki að setja skorður á slíkt framtak og hafa ekki áhuga á þess háttar ævintýramennsku og braski nema að því leyti sem það gagnast til þess að fylla ríkiskassann af peningum.
En kapítalistar eiga líka sinn þátt í því að standa í vegi fyrir frjálsri samkeppni. Fyrirtæki sem ná umtalsverðri stærð kunna sjaldnast vel við það þegar smærri og harðsnúnari fyrirtæki velgja þeim undir uggum með nýjungum og harðri samkeppni. Fyrir vikið hafa hagsmunir stórra fyrirtækja og ríkisvaldsins tvinnast saman víða um heim. Repúblikaninn Dwight Eisenhower kom auga á þetta þegar hann var forseti og nýtti tækifærið í síðustu ræðu sinni í embætti til þess að vara bandarísku þjóðina við samkrulli hergagnaiðnaðarins og ríkisvaldsins. Þetta voru orð að sönnu.
Síðustu áratugir hafa líka sýnt að mesta gróskan og lífsgæðasóknin hefur verið á sviðum þar sem aðkoma ríkisvaldsins hefur verið einna minnst. Fáum dettur í hug að vöxtur tölvuiðnaðarins og internetsins hefði verið jafnhraður og stórkostlegur ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hvert bílskúrsfyrirtækið á fætur öðru hefur velgt ráðandi fyrirtækjum undir uggum og smám saman orðið risastórt. Apple var stofnað í bílskúr, Google var stofnað á heimavist, Facebook var skrifað á heimavistarherbergi og fyrirtæki eins og Dropbox og 37 signals hafa orðið til og vaxið hratt á grundvelli þess að geta hindranalaust markaðsett vörurnar sínar og leyft almenningi að kjósa með notkun sinni um hvað virki best.
Furðufuglar, sem ekki rekast vel í opinberri skriffinnsku, eru driffjaðrirnar á bak við flestar uppfinningar. Miskunnarlaus samkeppni um hylli notenda hefur gert það að verkum að ekkert fyrirtæki í tölvugeiranum getur gengið að framtíðinni vísri.
Fáum dettur líklega í hug að þróunin í tækniheiminum hefði orðið jafnhröð eða skilað jafnmiklu ef ríkisstofnanir hefðu tekið að sér að kortleggja framtíðina eða reist risastórar skriffinnskuhindranir á milli fyrirtækjanna og neytenda. Það hefði þó alveg eins mátt hugsa sér – embættismenn og stjórnmálamenn um heim allan virðast oft nánast helteknir af þeirri hugmynd að það þurfi að vernda almenning frá því að kaupa gallaða eða ónauðsynlega vöru. Það má vel hugsa sér að innan skamms telji ríkið sig þurfa að skipta sér af því hvort fyrirtæki megi bjóðast til þess að geyma gögn eða sinna annarri þjónustu. Reyndar er nú þegar til staðar verkefni hjá Evrópusambandinu um uppbyggingu nýrrar leitarvélar (Google hlýtur að skjálfa á beinunum).
Fráfall stofnanda Apple fyrir nokkrum vikum var ágæt áminning. Andlitið á Steve Jobs var alls staðar sýnilegt og fjölmargir syrgðu hann. Um hann gilti það sama og menn eins og Beethoven áður, að það virtist vera hægt að elska hann þrátt fyrir persónan sjálf hefði nánast enga kosti. Frjáls samkeppni gerði manni, sem lynti illa við flesta, kom illa fram við alla og fór sjaldan í bað – kleift að byggja öflugasta tæknifyrirtæki heims. Steve Jobs hefði ekki komist langt ef hann hefði valið að gerast embættismaður hjá Evrópusambandinu, enda hafði hann í raun ekkert til að bera nema sjálfstraust, smekkvísi, sannfæringarkraft og fullkomna ósamvinnuþýðni. Svoleiðis karakter hefði skítfallið á faglegu hæfnismati.
En athafnasemi í samfélagi byggist á því að furðufuglarnir fái að vera í friði til þess að prófa sig áfram. Ef þeim förlast þá bera þeir sjálfir mestan kostnaðinn. Ef þeim gengur vel þá njótum við öll góðs af því.
Nú er haldin alþjóðleg athafnavika á Íslandi í þriðja sinn. Viðburðurinn er hluti af alþjóðlegu átaki til að vekja athygli á nauðsyn hvers kyns athafnasemi og frumkvöðlastarfsemi fyrir samfélög. Alþjóðleg athafnavika á að minna okkur á að þora að taka sjálf örlögin í eigin hendur, og vera þakklát og skilningsrík gagnvart öllum furðufuglunum, uppfinningamönnunum, ævintýrafólkinu og bröskurunum sem þora að taka áhættu til að búa til eitthvað nýtt, þar sem ekkert var áður.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021