Það er tiltölulega öruggt veðmál að tala illa um Framsóknarflokkinn í mínum aldurs- og búsetuhópi. En til eru verri flokkar og sumt af því sem framsóknarstefna hefur gert fyrir heiminn verðskuldar jafnvel virðingu okkar.
Framsóknarmenn eru ákveðið stöðugleikaafl. Ef það er laus stóll við borðið þá er framsóknarmaður til í að setjast í hann. Framsóknarmenn eru ekki með mörg stefnumál sem þeir hvika ekki frá, nema þá í málum sem flestum öðrum er sama um hvort sem er. Þannig veit maður að það eru meiri líkur en minni á því að hægt verði að komast að einhverri niðurstöðu ef framsóknarmaður er á svæðinu. Ef það er Framsóknarflokkur í landinu þínu þá þarftu ekki lengur meirihluta þingsæta til að mynda stjórn heldur bara 50%-(fylgi Framsóknar). Enda munu þeir alltaf mynda stjórn með þér fyrir landbúnaðarráðuneytið sitt.
Framsóknarmenn voru þannig eina teljandi stjórnmálaaflið úr hópi þeirra sem mynduðu útlagastjórn Póllands á tímum seinni heimsstyrjaldar sem sneru aftur til landsins og eftir stríð. Fljótt urðu Framsóknarmenn í Póllandi helsta stjórnarandstöðuaflið, nutu stuðnings stórs hluta almennings og kirkjunnar og hefðu hæglega unnið sigur í fyrstu kosningum eftir stríð ef morð og ofsóknir á hendur framsóknarmönnum og víðtæk kosningasvik hefðu ekki snúið við gangi leiksins. Helsta aðferð við kosningasvikin var að hagræða úrslitum á þeim kjörstöðum þangað sem Framsóknarflokkurinn náði ekki að senda fulltrúa sína. Bara pæling, í ljósi þess að sumum hérlendis finnast fulltrúar flokka á kjörstöðum mesta hneisa.
Kommúnistarnir óttuðust endurtekningu frá Ungverjalandi þar sem Framsóknarflokkurinn hafði unnið stórsigur í fyrstu og einu frjálsu eftirstríðskosningum þar í. Í kjölfar mynduðu ungverskir framsóknarmenn stjórn og nokkur ár tók að hrekja þá á hliðarlínu stjórnmála. Það tókst, því miður, með blöndu ofbeldis og klækjastjórnmála. Ein slík klækjaaðferð kallast „Salami-aðferðin“ og gengur út á það að skipta andstæðingnum í sífellt minni sneiðar, kalla sumar „fasista“ en kalla aðrar til viðræðna. Eftir nokkrar umferðir situr hluti stjórnarandstöðunnar í fangelsi og hinn hlutinn eru leppar sitjandi stjórnvalda. Framsóknarmenn eru því miður veikir fyrir „Salami-aðferðinni“ enda alltaf til í að tala við fólk, sama hve vont fólkið er.
Engu að síður þá tókst Framsóknarmönnum þó áfram að vera til sem flokkur í flestum austantjaldsríkjanna og oftast voru þeir næststærsti flokkur á eftir kommúnistaflokki viðkomandi lands. Og þótt þeir hafi oftast í raun gert lítið annað en að vera talsmenn opinberrar stefnu ríkisins í málefnum bænda, þá höfðu þeir þó stundum þau áhrif að leggja áherslu á málefni „síns fólks“, í anda þeirra grunnhugmyndafræði framsóknar að það sé alltaf betra að sitja við borðið og reyna að hafa áhrif fremur en standa í götuóeirðum. Og sú pragmatíska hugmyndafræði er í sjálfu sér virðingaverð, þótt hún bylti ekki harðstjórnum.
Framsóknarmenn áttu stóran þátt í því að umskiptin í Póllandi voru jafn friðsæl og raun bar vitni. Í fyrstu hálffrjálsu kosningunum til pólska þingsins árið 1989 fengu frambjóðendur Samstöðunnar þann 1/3 þingmanna sem þeir gátu fengið. Hinir 2/3 komu úr hópi frambjóðenda „skipulagðra flokka“ þ.m.t. Framsóknarflokksins. Samstöðan hvatti fólk til að kjósa Framsóknarflokkinn frekar enn kommúnistana og myndaði meirihlutastjórn með þessum gamla leppflokki stjórnvalda ásamt nokkrum öðrum slíkum flokkum. Það er slík næmni framsóknarmanna á pólitískar aðstæður og fyrirsjáanlegur vilji þeirra til að taka þátt í hvaða meirihlutasamstarfi sem er gerir þá að ágætistöðugleikasafli í pólitísku litrófi lands.
Ein skondin afleiðing þessa er að framsóknarmenn eru almenn andvígir ESB-aðild í þeim ríkjum sem standa utan ESB, en styðja hana í þeim ríkjum sem eru hluti Sambandsins. Það endurspeglar þann realisma að þótt margir framsóknarmenn séu ekki alltaf beint stuðningsmenn frjálsari verslunar með landbúnaðarvörur þá trúa þeir því að á endanum hafi maður meiri áhrif með því að reyna að vinna málum sínum innan gildandi stjórnkerfis fremur en að eyða krafti í baráttu við orðinn hlut. Framsóknarmenn eru ekki fólk sem tekur ekki sæti í nefndum af prinsippafstæðum eða hrópar slagorð á torgum. Þeir vita að það kemur þeim skammt. Þeir vilja setjast í lausa stólinn. Og eru alltaf til í kaffi.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021