Í boði endalausra vangaveltna fjölmiðla um formannsslags Bjarna Benediktssonar og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur veit nánast hver einasta sál á landinu að landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður settur þann 17. nóvember næstkomandi. Því miður er hætt við að landsfundurinn muni algjörlega snúast um þennan slag enda sýnir reynsla fyrri landsfunda að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra hafa lítinn tíma til að sinna öðru.
Þetta er bagalegt, því öllum má vera ljóst að flokkurinn þarf virkilega á því að halda að styrkja málefnastöðu sína. Sjálfstæðisflokkurinn þarf á komandi landsfundi að kynna ferska nálgun og nýjar leiðir út úr því ástandi sem þjóðin býr nú við. En flokkurinn þarf líka að sýna að hann sé traustsins verður; að hann sé öflugasta fjöldahreyfing landsins – hreyfing sem getur sómasamlega, innan sinna raða, komist að niðurstöðu um öll helstu álitamál sem koma upp í samfélaginu. Vissulega hefur flokksfólk mismunandi skoðanir í hinum ýmsu málum, enda óhugsandi að þær tugþúsundir sem skipa þann hóp séu alltaf sammála. Þetta á ekki að vera vandamál; mismunandi skoðanir eiga að vera styrkur flokksins, auka breiddina og tryggja að sem flest sjónarmið heyrist áður en ákvörðun er tekin. Það sem skiptir máli er að við úrlausn ágreiningsefna takist flokksfólk heiðarlega á og komi fram við hvort annað af virðingu og heilindum.
Hitinn í kringum Evrópu
Í því samhengi verður manni oft hugsað til Evrópumálanna sem hafa verið mikið hitamál á síðustu landsfundum og verður þessi varla undantekning. Mér eins og mörgum öðrum sem hafa síðustu ár horft á þennan slag úr fjarlægð hefur ofboðið sú harka sem andstæðingar ESB sýna þeim flokkssystkinum sínum sem eru á öndverðum meiði. Undantekningalítið mæta svívirðingar og brigsl um landráð hverjum þeim sem þorir að mæla Evrópusambandinu bót. Þetta hefur valdið því að fjölmargir Evrópusinnar hafa sagt skilið við flokkinn eða eru að velta úrsögn alvarlega fyrir sér.
Flestir þessara Evrópusinna eru ekki að íhuga úrsögn vegna þess að meirihluti flokksins er þeim ósammála; þeir sætta sig fullkomlega við lýðræðislegar niðurstöður landsfundar. Þeir íhuga úrsögn vegna þeirrar meðferðar sem þeir fá fyrir að vera Evrópusinnar enda þora fæstir að opinbera slíkar skoðanir um þessar mundir.
Því miður er ekki annað að sjá en að mörgum ESB andstæðingum innan flokksins finnist þessar úrsagnir fín lausn. Að þeir, í krafti meirihlutans, geti gert þeim flokkssystkinum sínum sem eru á annarri skoðun óbærilegt að vera í flokknum og losna þannig við þau. Þetta er ótrúleg skammsýni. Með þessu er verið að senda þau skilaboð til almennings að innan Sjálfstæðisflokksins sé í lagi að flæma í burtu þá sem hafa aðrar skoðanir en meirihlutinn. Stimpill skoðanakúgunar er ekki beint það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf nú á að halda!
Eru ekki örugglega allar skoðanir leyfilegar á landsfundi?
Þessar hörðu móttökur vekja mann vissulega til umhugsunar. Innan allra flokka eru kverúlantar sem tala af ákefð fyrir furðulegum skoðunum, sem engin stemmning er fyrir og geta jafnvel skaðað flokkana út á við. Sjálfstæðisflokkurinn er engin undantekning þar á. Eins og flestir hafa orðið vitni að sem hafa setið landsfundi flokksins þá gerist það reglulega í umræðu um fjölskyldumál að nokkrir einstaklingar stíga í pontu og tala illa um samkynhneigð og samkynhneigt fólk. Undir umræðum um réttarfar er það sama uppi á teningnum. Þar koma iðulega fram, hjá örfáum hræðum, slíkir fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna að mörgum þykir nóg um. Því er vissulega svarað úr salnum og eiga þessi viðhorf hreint ekki upp á pallborðið hjá meirihluta landsfundarfulltrúa en oftast eiga þau skoðanaskipti sér stað á málefnalegum nótum eins öfugsnúið og það hljómar. Enginn fer í pontu og kallar þetta fólk illum nöfnum heldur er reynt að hrekja með rökum þær misgáfulegu athugasemdir sem viðkomandi hafa borið á borð landsfundar.
Skoðanir Evrópusinna eru á engan hátt sambærilegar við jaðarskoðanir þessara kverúlanta. Engu að síður fá Evrópusinnar ekki einu sinni að njóta sömu kurteisi og þeim er sýnd mun minni virðing heldur en þeim fáu einstaklingum sem ákveða skammlaust að deila með landsfundi skoðunum sem í versta falli jaðra við mannhatur.
Auðvitað er rétt að svara öllum yfirvegað með málefnalegum hætti, sama hversu miklar tilfinningar skoðanir viðkomandi vekja upp hjá okkur. En hvaða skilaboð er landsfundur að senda út í þjóðfélagið þegar örfáum rasískum og hómófóbískum einstaklingum er sýnd meiri virðing en fólki sem finnst eftirsóknarvert að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Fyrst meira að segja skoðanir sem beinlínis særa hópa í þjóðfélaginu eru umbornar af meirihluta landsfundar þá hlýtur fundurinn að geta sýnt Evrópusinnum þá virðingu að ræða við þá um málefnið yfirvegað og án svívirðinga.
Lélegir sigurvegarar
Það er stundum sagt að raunverulegur persónuleiki fólks komi best í ljós þegar það tapar eða verður fyrir áfalli. Það er margt til í því en á sama hátt má læra margt um persónugerð fólks þegar það sigrar. Það þykir hvorki stórmannlegt né drengilegt að niðurlægja andstæðing sinn þegar hann ber lægri hlut, hvað þá að reyna að tortíma honum.
Það þarf engan stærðfræðisnilling til að reikna út að sjónarmið Evrópusinna munu ekki eiga upp á pallborðið hjá meirihluta landsfundargesta. Niðurstöður síðustu landsfunda sýna það glöggt. Í þessu máli sem og öllum öðrum sem liggja fyrir fundinum verður meirihlutinn að bera tilhlýðlega virðingu fyrir minnihlutanum, leyfa eðlilegum skoðanaskiptum að eiga sér stað og leyfa síðan landsfundinum að kjósa. Allt annað er lítilmannleg hegðun og ekki neinum til framdráttar. Hver vill vera lélegur sigurvegari?
Hverjir eru næstir?
Það er mörgum enn í fersku minni þegar Ólafur F. Magnússon var hleginn út af landsfundi og úr Sjálfstæðisflokknum vegna viðhorfa sinna til náttúruverndar sem samrýmdust engan veginn skoðunum meirihluta landsfundar. Margir tóku þátt í þessu, aðrir horfðu aðgerðalausir á og eflaust töldu flestir þetta vera meinlausa hegðun. Eftir allt saman þá voru afskaplega fáir sem deildu þessum skoðunum með borgarfulltrúanum.
Á sama hátt horfa örugglega einhverjir landsfundarfulltrúa á útreiðina sem Evrópusinnar eru að fá innan flokksins og finnst það í lagi. Öðrum kann að misbjóða aðfarirnar en reynslan sýnir að fáir þora að taka upp hanskann fyrir þau flokksystkin sín sem eru á Evrópulínunni. Það sem hver og einn landsfundarfulltrúi ætti hins vegar að velta alvarlega fyrir sér er hvort það sé í lagi að viðkomandi, með beinum hætti eða aðgerðarleysi, geri öðrum einstaklingum óbærilegt að vera í flokknum vegna skoðanamunar. Því ef þessu verður leyft að halda áfram þá er það bara spurning um það hvaða óæskilega skoðun verður bannfærð næst? Kannski er það skoðun sem viðkomandi landsfundarfulltrúi trúir á. Er hann þá kannski næstur?
Hvað gera frambjóðendurnir?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi stært sig af því að vera flokkur allra stétta, ein stærsta fjöldahreyfing landsins og það afl sem hefur verið leiðandi í þjóðfélaginu frá stofnun lýðveldisins. Trúin á frelsi sameinar flokksmenn en innan hans hafa alltaf rúmast gjörólíkar skoðanir á hinum ýmsum málefnum, íhaldssamar jafnt sem frjálslyndar. Það er erfitt verk að halda þessum stóra hópi saman og formönnum flokksins hefur tekist það misvel.
Það verður fróðlegt að sjá afstöðu Bjarna og Hönnu Birnu, og nánustu stuðningsmanna þeirra, til þeirra hópa sem eru í minnihluta á fundinum. Munu þau falla í popúlistagryfjuna og taka undir með þeim sem hafa hæst og koma fram af mestri hörku í leit að skammvinnum pólitískum ávinning eða eru þau nógu miklir leiðtogar til að reyna að sætta andstæð sjónarmið, finna sameignlegan sáttagrundvöll, tryggja málefnalega umræðu og leyfa fólki að vera sammála um að vera ósammála?
Svarið gæti gefið sterkar vísbendingar um hvernig flokknum muni farnast á næstu misserum.
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020