Hvern dreymir ekki um að skrifa bók? Skrifa skáldsögu, barnabók, ljóðabók eða myndasögubók. Gefa út á prenti það sem maður hefur sjálfur skapað og aðrir geta haft ánægju af því að lesa og skoða, eitthvað sem situr eftir manns eigin lífdaga. Þó öllum dreymi kannski ekki um að skrifa eða gefa út bók þá kannast flestir við að vera með markmiðalista yfir hluti sem fólk vill áorka á lífleiðinni utan hinna daglegu verkefna. Að gefa út bók er eitt af þessum hlutum á lista greinahöfundar, þessum svokallaða „hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey“ lista ásamt því að vera mun duglegri að lesa bækur.
Nú er hinni árlega bókamessu í Frankfurt am Main nýlokið og í ár var Ísland heiðursgestur hátíðarinnar. Þessi bókamessa er ein sú stærsta og vel þekktasta bókahátíð í heiminum og ár hvert eru hingað samankomnir rithöfundar, útgefendur aðrir áhugasamir um bókmenntir til að skoða það helsta sem er að gerast í ritlist í dag. Bókamessan var sett með opnunarhátíð síðastliðinn þriðjudag og á sunnudaginn var svo keflið afhent yfir til Nýja Sjálands sem verður heiðursgesturinn að ári.
Greinahöfundur hefur búið í Frankfurt í tvö ár og hefur vel fundið fyrir áhugasemi Þjóðverja um Ísland á þeim tíma. Frá því um mitt sumar þessa árs hefur hróður Íslands aukist enn frekar bæði í tali sem og í fjölmiðlum í undanfara bókamessunnar. Listasýningar og fjöldi atburða tengdum messunni hafa einnig verið mjög áberandi. Fyrir bókamessuna voru yfir 200 íslenskar bækur þýddar yfir á þýsku og hingað komu um 40 íslenskir höfundar auka annarra listamanna í tengslum við messuna að kynna sig og verk sín. Sem Íslendingur í Frankfurt er búið að vera mjög skemmtilegt að fylgjast með þessu öllu saman, útundan sér heyrir maður nánast annan hvern mann tala um Ísland og eitt það súrrealískasta sem greinahöfundur upplifði yfir hátíðarhelgina var þegar þrjár þýskar konur settust við hlið hennar í lestinni; allar með bónuspoka, bónusljóðin hans Andra Snæs á þýsku og íslenskt nammi í þokkabót. Það er því ekki erfitt að fyllast smá þjóðrembu kringum atburð sem þennan.
Að skipuleggja svona hátíð er ekki gert á einni nóttu og hefur Sagenhaftes Island séð um undirbúning og stjórn á messunni sjálfri og eiga þau stórt hrós skilið. Bókamessan sjálf var mjög vel heppnuð og fóru margir fögrum öðrum um hönnun íslenska skálans. Heiðursland hvers árs hefur til umráða skála til að kynna landið og bókmenntir þess. Íslenska skálanum var skipt upp með þverveggjum sem allir sýndu myndbönd af Íslendingum að lesa bækur og í einum enda skálans var búið að koma fyrir hillum með bókum og gamaldags húsgögnum þar sem fólk gat sest niður og gluggað í bækur eða kjaftað með þægilegri setustofu lýsingu. Það má því með sanni segja að skálinn var fullkomlega til þess hannaður að fólk gæti komið og slakað í íslenskri setustofu eftir að þræða milli vel upplýstra og pakkaðra sala sem innihéldu bækur frá öllum geirum og heimshornum.
Ísland er mikil bókmenntaþjóð og verður það ekki tekið af okkur, hver meðal Íslendingur kaupir um átta bækur á ári sem er meira en hjá flestum þjóðum í kringum okkur. Á messunni tilkynnti Jón Gnarr einnig að Reykjavíkurborg hefði nú verið útnefnd ein af bókmenntaborgum UNESCO. Þó flest allt hafi verið á jákvæðum nótum á hátíðinni voru einnig nokkur áhyggjuefni tekin upp í ræðum á opnunarhátíðinni. Í þýska bókmenntaheiminum er mikil hræðsla við sjóræningjaflokkinn sem er búinn að vera að sækja í sig veðrið undanfarið og er með eitt af helstu stefnuatriðum sínum að endurskoða höfundalög. Einnig var minnst á það að hluti ungs fólks kunni ekki lengur að lesa bækur sér til gamans. Tækni hefur mikið þróast á undanförnum árum og eru vefbækur farnar að njóta mikilla vinsælda. Að mati höfundar er þó engin ástæða að óttast tæknina, bókin verður enn til og mun áfram njóta sín, þrátt fyrir aukna tækni og fleiri möguleika.
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu hér í Frankfurt, þó borgin sé strax orðin tómlegri eftir brottför Íslendinga-innrásarinnar. Það er vonandi að orðið og umræðan lifi með Þjóðverjum eftir þessa veislu og verði til þess að hróður íslenskrar menningar og lista verði enn meiri og víðbreiddari á komandi árum. Enn meira gleðiefni væri ef fleiri en greinahöfundur sjá atburð sem þennan hvatningu til að líta yfir markmiðalistann, lesa og skrifa meira.
- Orðum fylgir ábyrgð - 22. apríl 2015
- The Pain of Paying - 9. febrúar 2015
- 105 er nýi 101 - 20. október 2014