Tíu fyrstu fréttirnar mínar á blatt.is
Því hefur verið haldið fram á DV í tvö skipti að undirritaður sé sterklega orðaður við að ritstýra hægrisinnaða fréttavefnum blatt.is, sem hefur göngu sína innan skamms. Þótt ekki sé minnsti flugufótur fyrir þessum vangaveltum þá hlýtur svona upphefð að koma ákveðnu róti á hugann.
Ljóst er að til þess að ritstýra blatt.is og ná árangri í samkeppninni – og hljóta vinsældir, frægð, frama og ríkidæmi, þarf að beita öllum þeim brögðum sem hægt er til þess lokka lesendur inn á síðuna. Annars vegar þarf vefurinn að höfða til hins harða kjarna hægrimanna sem hefur óbeit á ríkisstjórninni, Baugi og John Lennon – og hins vegar að stækka þann markhóp með því að bjóða upp á efni sem getur fallið öllum almenningi vel í geð. Reynslan af Deiglunni sýnir, svo ekki er um villst, að besta leiðin til að fá lestur er að bjóða upp á efni sem kveikir á rafeindunum í innsta kjarna heilans – þeim sem snýr að frumhvötunum (sjá t.d. þá gömlu hefð Deiglunnar að birta alltaf myndir af Tyru Banks á föstudögum, og þá staðreynd að fyrirsagnir með orðinu “brjóst” hafa löngum verið ávísun á mikinn lestur).
Þó þarf að gæta sérstaklega að því að vera aldrei með fyrirsagnir sem eru beinlínis rangar eða fjalla um hluti á þann veg að hægt sé að hrekja það með sannfærandi hætti.
Í þessu ljósi býð ég upp á listann yfir fyrstu tíu fréttirnar sem ég myndi birta sem ritstjóri hægrisinnaða vefmiðilsins blatt.is. Með því að byggja á þeirri fjölmiðlastefnu sem ríkir á systurvefjunum bleikt.is, menn.is og pressan.is – myndi mér takast að skjótast fram úr Samfylkingarsinnaða vefmiðlinum eyjan.is á örskotsstundu. Þetta myndi eflaust gleðja framsóknarmanninn í brúnni og gera blatt.is að harðsnúnasta hægri vef landsins.
1. Bjarni Ben – ber að ofan
Fréttin fjallar um það að Bjarni Ben hafi sést í sundi með fjölskyldu sinni. Engar myndir náðust en gert er ráð fyrir að hann hafi verið ber að ofan.
2. Hanna Birna – slappar af í baði! MYNDIR!
Fréttin fjallar um að Hanna Birna hafi mætt á borgarstjórnarfund og virst úthvíld og fersk. Ályktað er að hún hafi slappað af í baði fyrir fundinn. Myndir af henni á borgarstjórnarfundinum.
3. Vill Vinstristjórnin leyfa mannát?
Frétt um að enginn í núverandi ríkisstjórn hafi lýst sig andvígan mannáti svo vitað sé. Ályktað út frá því. Því næst er gengið á þingmenn stjórnarinnar og þeir tældir til að lýsa yfir að þeir séu gegn mannáti. Svo eru þeir spurðir hvort þeir myndu fangelsa mann sem neyðist til að leggja sér til munns látinn mann til þess að halda lífi eftir flugslys(sjá kvikmyndina Alive (1993)). Í framhaldinu er birt frétt: „Vinstristjórnin vill að eftirlifendur flugslysa deyi úr hungri“ – eða „Vinstristjórnin óviss í afstöðu sinni til mannáts.“
4. Jesús Kristur – fyrsti sjálfstæðismaðurinn? Styður kvótakerfið!
Vangaveltur um hvort það hvort Jesús Kristur hafi ekki munstrað sig í Sjálfstæðisflokkinn þegar hann mettaði fimm þúsund manns á fimm brauðhleifum og tveimur fiskum. Ályktað er að dæmisagan fjalli um mikilvægi skynsamlegrar stjórnunar fiskveiða.
5. Ber Steingrímur Jóhönnu? Allt vitlaust á stjórnarheimilinu!
Vangaveltur um hvort Steingrímur J. sé í raun sterki aðilinn í forystu ríkisstjórnarinnar og beri meiri byrðar heldur en Jóhanna sjálf. Því er varpað fram til umhugsunar hvort það sé í raun fjármálaráðherrann sem beri uppi ríkisstjórnina og þar með Jóhönnu.
6. Þorvaldur Gylfason styrkir Baug
Óstaðfest frétt um að Þorvaldur Gylfason hafi sést versla í Bónus. Vangaveltur um hvort Þorvaldur viti ekki að Baugur sé ekki lengur eigandi Bónus. Ályktað að svo hljóti að vera. Í framhaldinu ályktað að með þessu sé Þorvaldur að styrkja Baug fyrir að veita sér vörur, eins og Baugur hefur styrkt hann til þess að skrifa í blaðið sitt.
7. Flokksforystan reið Ögmundi
Fréttin fjallar um að forysta VG sé ósátt við eitthvað sem Ögmundur hefur gert. Líklega mun þessi frétt þurfa að byggja á getgátum því ómögulegt er að sleppa því að nota þessa fyrirsögn bara vegna þess að það er ekki hægt að staðfesta hana.
8. Sigmundur Davíð með geeeðveikt six-pack. MYNDIR!
Fréttin fjallar um undraverðan árangur af íslenska kúr Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar og ályktanir um hvort hann sé kominn með sýnilegan six-pack. Ennfremur er fjallað um hvort Sigmundur Davíð yrði ánægður með að enskusletta sé notuð til að lýsa hinum alíslenska maga hans. Birtar verða myndir af andliti Sigmundar Davíðs á líkama Matthew McConaughey.
9. Hvor er heitari – Palin eða Bachmann? SJÁIÐ MYNDIRNAR!
Tvær myndaseríur af hinum huggulegu forystukonum í Repúblikanaflokknum og netkosning um hvor þeirra sé “heitari”.
10. Hægrimenn halda hárinu – vinstri menn fá skalla!
Birtar eru myndir af Bjarna Benediktssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Nokkrir sérfræðingar eru fengnir til þess að meta hvort þeirra er með betra hár. Birtar eru myndir af Davíð Oddssyni líka. Sú augljósa ályktun er dregin að hægrimenn séu betur hærðir en vinstri menn. Í smáa letrinu neðst á síðunni er tekið fram að ályktunin styðjist ekki við traustan grunn “vísindalegra” staðreynda.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021