Nú þegar innan við fimm ár eru í að Ísland gangi í Evrópusambandið þarf að huga að aðlögun af fullri alvöru. Allir sem búið hafa í Evrópu kannast við gestinn sem vaknar í sófanum, kíkir í eldhússkápinn, rekur upp kvein og tekur svo rakleiðis leigubíl í bandarísku búðina á Vesterbro til að finna Cheerios. Klárlega þarf þannig fólk meiri fræðslu um helstu núansa evrópskrar menningar.
Byrjum á fjölda árstíða. Árstíðirnar eru fjórar: vor, sumar, haust og vetur. Þær eru ekki tvær. Verkið eftir Vivaldi heitir Árstíðirnar fjórar. Það er í fjórum, svipað löngum, köflum. Ef Vivaldi hefði samið verk sem væri í tveimur köflum, þar sem annar væri lengri og leiðinlegri en hinn, þá væri það til marks um að árstíðirnar væru tvær. Það gerði hann ekki, enda eru þær fjórar.
Sem Evrópubúar þurfum við því að samþykkja hinn rétta fjölda árstíða. Síðar þurfum við mynda okkur gott svar við spurningunni um uppáhaldsárstíðina. Að mörgu þarf að huga ef menn ætla ekki að gera sig að fíflum í evrópskum samkvæmum.
Útilokunaraðferðin
Hæpið er að mörgum finnist vetur sannarlega vera skemmtileg árstíð. En finnist einhverjum gaman að láta sér verða kalt þá ætti hann að þegja yfir því. Að nefna vetur sem uppáhaldsárstíð segir að manni finnist gaman að búa til snjókall. Það er ólíklegt að slík yfirlýsing fái nokkurn til að taka mann alvarlega.
Sumarið er snúnara. Auðvitað er skemmtilegt að sötra bjór í stuttbuxum. Ég vara hins vegar við því að menn hlaupi til og viðurkenni það. Það er álika flott og viðurkenna að Bylgjan sé manns uppáhaldsútvarpsstöð og Baywatch uppáhaldsþátturinn. Sé það engu að síður gert þarf hins vegar að rökstyðja mál sitt mjög vel, ítreka að það sé vegna þess að það er “svo margt skemmtilegt að gerast” mikið af tónleikum, menningu o.s.frv. en ekki gera mikið úr veðrinu. Mjög mikilvægt er að taka vel undir þegar annar Evrópubúi segir að það sé ekki gott ef það “verður of heitt.”
Þá má ekki gleyma því að spurningin um uppáhaldsárstíma er háheimspekileg og varðar afstöðuna til samfélagsins í heild. Sumar og vetur eru kyrrstöðuárstíðir. Vor og haust eru hins vegar breytingaárstíðir. Jákvæð afstaða til sumars er þannig jafngild andstöðu við breytingar. Sá sem segist elska sumar gæti alveg eins klæðst bol með áletrun á borð við “ég er rasisti”.
Af þeim tveimur breytingarárstíðum sem eftir standa er haustið klárlega öruggara val. Börnum og ellilífeyrisþegum má þó finnast vorið best. Eldri borgari sem heldur upp á vorið gefur það út að hann kunni að meta æskuna, sé víðsýnn og óttist ekki siði nýrra kynslóða. Börn mega halda upp á vorið því það er árstíðin þegar farið er að styttast í sumarfrí. Margir í Evrópu hafa skilning, og jafnvel væntingar til, á að börnum eigi að finnast leiðinlegt í skóla. Að sama skapi er það auðvitað varasamt fyrir vinnandi fólk að gefa það út því líði betur eftir því sem styttra sé í fríið.
Þá situr eftir haustið sem er í mörgum tilfellum eina boðlega svarið þegar rætt er um uppáhaldsárstíð. Yfirlýsing um að haustið þyki manni best, gefur til kynna að maður óttist ekki breytingar, jafnvel þær sem virðast til skamms tíma slæmar. Sá sem þykist elska haust er klárlega menntaður og skilur að þótt trén missi lauf sín þá muni þau grænka aftur. Þannig manneskja er einnig dugleg, hún getur ekki beðið eftir að koma sér aftur í vinnu eftir sumarfrí.
Það að haustin marki oft upphaf skóla og annarrar starfsemi gefur enn eina ástæðu til að taka haust upp sem uppáhaldsárstíð. Á haustin kynnumst við flestu nýju fólk og setningar eins og “Ég elska haustin, sjáðu alla litadýrðina!” eru klárlega betri ísbrjótur en “Mér finnst leiðinlegt að geta ekki lengur verið í stuttbuxum”.
Að lokum ber þó að nefna að við daður og makaleit má gjarnan nefna þá árstíð sem stendur yfir sem uppáhaldsárstíð. Fyrir því eru praktískar ástæður.
Gleðilegt haust.
- Taívan má ráða sér sjálft - 15. ágúst 2022
- Velheppnaður miðbær Selfoss - 26. júlí 2021
- Óþarfa bjölluat á göngustígum - 19. júlí 2021