Á laugardaginn síðasta gekk raunveruleikastjarna Kim Kardashian í hjónaband, hugsanlega er Will Smith að skilja við konuna sína og Katie Holmes borðar hráfæði á fullu þessa dagana til að grennast. Af hverju vitum við af þessu og af hverjum viljum við vita þetta? Hvaðan kemur þessi áhugi okkar á lífi fræga fólksins?
Margir hafa gaman af því að lesa öðru hverju um líf fræga fólksins. Hjá flestum er þetta meinlaust og hefur engin sérstök áhrif á þeirra eigið líf. Hjá öðrum getur áhuginn hins vegar tekið á sig sjúklega mynd og orðið mikið vandamál. Þá verður hrifningin af frægu fólki svo mikil að hún tekur hreinlega yfir líf fólks og áhuginn verður flótti frá raunveruleikanum.
Dýrkun á frægu fólki hefur verið talsvert rannsökuð innan sálfræði og er til hugtak yfir þetta sem á ensku kallast hreinilega “celebrity worship“. Dýrkuninni er oft skipt upp í þrjú stig sem skilgreina hversu alvarleg dýrkunin er (McCutcheon, Lange og Houran, 2002).
1. stig – Lítil dýrkun
Hér flokkast hegðun sem flestir kannast við, eins og að lesa um frægt fólk eða sjá það í sjónvarpi. Að finnast gaman að spjalla um frægt fólk við vini sína eða í stórum hópi.
2. stig – Mikil dýrkun
Hér er dýrkunin farin að verða ansi mikil og fólk fer oft að upplifa sem það hafi sérstök tengsl við frægt fólk og fylgist óhóflega með fréttum af einni tiltekinni stjörnu.
3. stig – Sjúkleg dýrkun
Hér er dýrkunin orðin verulegt vandamál í lífi einstaklings. Á þessu stigi á einstaklingurinn ekki í erfiðleikum með að setja sig í spor frægs fólks eða tiltekinnar stjörnu og finnst hann upplifa það sem stjarnan upplifir. Þráhyggja varðandi stjörnuna grípur um sig og einstaklingurinn sýnir áráttukennda hegðun eins og að vera heltekinn af smáatriðum er varða líf stjörnunnar og leita sífellt að upplýsingum um hana.
Það er margt sem spilar inn í svona stjörnudýrkun og ekki síst samfélagið sjálft. Í fjölmiðlum, auglýsingum, bíómyndum og víðar er frægu fólki haldið að okkur og það sýnt í þannig ljósi að það mætti halda að um fullkomnar verur væri að ræða. Því er líka haldið að okkur hvernig við eigum að vera til að vera meira líkari þeim. Hvernig krem við eigum að nota til að fá ekki hrukkur, hvað við eigum að gera til að losna við appelsínuhúð, hvernig við eigum að grennast og hvernig við eigum svo að grennast aðeins meira. Rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á tengsl milli slæmrar líkamsmyndar og stjörndýrkunar, sérstaklega hjá ungum stúlkum (Maltby, Giles, Barber, Lynn og McCutcheon, 2005). Dýrkunin er þá í mörgum tilfellum útlitsdýrkun þar sem ungum stúlkum finnst stjörnur hafa fullkominn líkamsvöxt og eru í staðinn mjög óánægðar með eigið útlit.
Í upphafi minntist ég á raunveruleikastjörnuna Kim Kardashian. Hún er nefnilega gott dæmi um þá nýju mynd sem stjörnudýrkun er að taka á sig. Áður fyrr var fólk yfirleitt frægt fyrir eitthvað sérstakt, fólk fylgdist með uppáhalds tónlistarmönnum eða leikurum, íþróttafólki og jafnvel pólitíkusum. Allt fólk sem hafði gert eitthvað eða hafði hæfileika sem okkur hinum þóttu eftirsóknarverðir. Í dag virðumst við vera farin að dýrka fólk sem hefur alls ekkert gert og hefur enga sérstaka hæfileika, en er frægt aðeins fyrir það að vera frægt. Þetta er mikið til komið af raunveruleikaþáttunum sem hafa tröllriðið öllu síðustu árin. Allt í einu eru Paris Hilton og Kim Kardashian orðnar heitustu stjörnunar og eru/voru með eigin sjónvarpsþætti þar sem þær opna líf sitt fyrir áhorfendum.
Það er í raun ekki síður áhugavert að rannsaka hvernig fólk er það sem hefur sjúklegan áhuga á því að láta aðra vita af öllu sem það gerir og opna heimili sitt fyrir alheiminum eða taka brúðkaupið sitt upp til að sýna allri heimsbyggðinni í sjónvarpsþætti eins og Kim Karhashian hyggst gera. Það væri hins vegar efni í annan pistil.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá höfum við áhuga á því sem aðrir gera. Hvort sem fylgjumst með leikkonum sem mæta í nýjum kjól á frumsýningu eða fótboltamanni sem er seldur milli liða þá verða alltaf einhverjir sem við höfum áhuga á að lesa fréttir um.
Svo lengi sem áhuginn er einungis skemmtileg tilbreyting frá raunveruleikanum en ekki sjúklegur áhugi sem yfirtekur líf okkar, erum við í góðum málum. En þegar við vöknum á laugardagsmorgni og hugsum ekki um annað en í hvernig kjól Kim Kardashian muni gifta sig í, þá er voðinn vís.
Heimildir:
Maltby, J., Giles, D.C., Barber, L., McCutcheon, L.E. (2005). Intense-personal celebrity worship and body image: Evidence of a link among female adolescents. British Journal of Health Psychology, 10, 17-32.
McCutcheon, L.E., Lange, R., Houran, J. (2002). Conceptualization and measurement of celebrity worship. British Journal of Psychology, 93, 67-87.
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021