Við Íslendingar erum afar stolt þjóð og stærum okkur af mörgu, enda margt til að vera stolt af. Það er samt órúlegt að enn þann dag í dag séu börn á Íslandi að alast upp á heimilum, þar sem ekkert barn ætti með réttu að vera. Á Íslandi er fjöldinn allur af börnum sem svelta, eru aldrei þrifin, verða fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi og fá aldrei þá ást og umhyggju sem er svo nauðsynleg öllum mönnum. Fyrir mörgum þessum börnum eru páskar, jól og önnur skólafrí oft verstu tímarnir, því þá eru engar skólamáltíðir og engir vinir til að sníkja smá mat af.
Ekki verða öll börn á erfiðum heimilum fyrir líkamlegu ofbeldi en þau lifa við erfiðar aðstæður, ástæður þess að þau eru vanrækt eru hrikalega mismunandi en aldrei réttlætanlegar. Sumir forledrar eru háðir áfengi eða öðrum fíkniefnum, sumir foreldrar eiga við geðræn vandamál að stríða og svo eru því miður sumir foreldrar hreinlega vondir við börnin sín.
Litla saklausa Ísland er ekki laust við þetta vandamál frekar en aðrar þjóðir en kerfið er algjörlega að bregðast þessum börnum. Um leið og viðvörunarbjöllur fara að hringja og byrjað er að grennslast fyrir um heimilsaðstæður, þarf ekki meira til en að fjölskyldan rífi sig upp og flytji í annað sveitarfélag til að geta byrjað upp á nýtt með hreinan skjöld. Með tímanum ferðast svo orðrómurinn á milli manna, starfsfólk í skólum fer að gruna að ekki sé allt með felldu og farið er að skoða málin. En þá er bara komið að næstu flutningum og nýtt sveitafélag verður fyrir valinu. Skólum er óheimilt að áframsenda upplýsingarnar af fyrra bragði.
Gangi málið svo langt að börn séu send í fóstur, er það alltof oft tímabundið, foreldrið þarf lítið annað en að fara í meðferð eða eitthvað álíka til að fá barnið aftur. Mörg börn hafa verið hjá mörgum mismunandi fósturfjölskyldum í lengri eða skemmri tíma en eru alltaf send aftur heim þegar foreldrarnir hafa staðið sig í stykkinu tímabundið. Í mörgum tilfellum eiga börnin litla möguleika á því að verða virkir þátttakendur í samfélaginu, foreldrarnir eiga erfitt uppdráttar í lífinu og börnin kynnast aldrei öðru en óreglu,
Réttur foreldranna er gífurlega ríkur og þar að auki er ást barna til foreldra sinna mjög sterk og það er ótrúlega hvað mörg börn vilja alltaf vera hjá foreldrum þrátt fyrir að hrikalegir hlutir hafa gengið á inn á heimilum. Augljóslega er mjög vandmeðfarið að setja lög og reglur eða hafa eftirlit með öllu sem viðkemur vanrækslu á börnum og alltaf verður erfitt að sundra fjölskyldum ef til þess þarf að koma, en eitthvað verður að gera.
Hver sem lausnin er, þá verður að leita hennar. Óbreytt ástand er ólíðandi og ef við erum ekki tilbúin að berjast fyrir breyttu ástandi og hjálpa þessum börnum, hver gerir það þá ?
- Hið pólitíska hlutleysi íþrótta - 11. júlí 2021
- Umræðan innan stafbila - 14. júní 2021
- Uppgjörið sem bíður enn… - 13. maí 2021