Í síðustu viku tilkynnti Björn Jón Bragason, sagnfræðingur, framboð sitt til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna. Ég, undirritaður, lýsi hér með yfir stuðningi mínum við Björn Jón og tilkynni jafnframt að sjálfur verði ég varaformannsefni framboðsins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur löngum búið yfir þeim styrkleika að vera breiðfylking, flokkur sem rúmað getur ólíkar skoðanir fólks, sem þó sameinast undir þeirri meginhugmyndafræði sem sjálfstæðismenn almennt aðhyllast. Það er því miður að segja frá því að undanfarin ár hafi þetta mikilvæga einkenni flokksins ekki skilað sér í starf SUS, sökum innanflokksátaka sem skipt hafa starfinu upp í andstæðar fylkingar.
Hljóti framboð Björns Jóns Bragasonar brautargengi í komandi kosningum á sambandsþingi SUS dagana 26.-28. ágúst, verður það okkar megin markmið að sameina aftur þær fylkingar sem ekki hafa sýnt samstarfsvilja síðustu misseri vegna skoðanaágreinings og að endurvekja, efla og blása lífi í starf SUS sem hefur verið bæði máttlítið og áhrifalaust undanfarin tvö ár.
Við búum við óvinsæla ríkisstjórn sem leggur allan sinn mátt í að hækka skatta og auka álögur í landinu. Fólksflutningar úr landi eru staðreynd sem horfast þarf í augu við og munu vafalítið færast í aukana á komandi árum verði ekkert að gert. Það er óásættanleg að ungt menntafólk sjái hag sínum betur borgið á erlendri grundu og þarf því umsvifalaust að sporna við þeirri þróun.
Það er á tímum sem þessum sem SUS, sem ávallt hefur staðið vörð um frelsi einstaklinga og minni ríkisafskipti, þarf að standa tryggum og traustum fótum í baráttu sinni gegn öflum, sem markvisst vinna að því að rífa niður íslenskt samfélag.
Í þeirri baráttu er mikilvægt að allir ungir sjálfstæðismenn, sýni samstöðu og standi saman!
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011