Þann 22. júlí síðastliðinn voru framin hræðileg fjöldamorð í Noregi. Orð eins og illska koma auðveldalega upp í hugann þegar maður hugsar um hvernig einhver getur framið slíkt ódæðisverk. Sá sem er fær um að framkvæma það sem átti sér stað í Útey í Noregi, hlýtur að vera vondur maður eða illur (evil)? Sálfræðingar hafa lengi reynt að skilja hvað það er sem gerir menn „vonda“. Simon Baron-Cohen, prófessor við háskólann í Cambridge er einn þeirra.
Í bók sinni The science of Evil, fjallar Baron-Cohen um samkennd (empathy) sem hann telur að geti skýrt það sem í daglegu tali er talað um sem „vont fólk“. Hann færir rök fyrir því að fólk sem t.d. fremur skelfilega glæpi skorti samkennd. Þ.e. það geti ekki sett sig í spor annarra og fundið til með öðrum.
Baron-Cohen skilgreinir samkennd (empathy) sem hæfileika til að bera kennsl á tilfinningar og hugsanir annarra og geta brugðist við þeim með viðeigandi tilfinningum. Skortur á samkennd verður því til þess að viðkomandi byrjar að líta á fólk sem hluti en ekki manneskjur og getur með engu móti sett sig í spor annarra. Samkennd er því ekki alveg það sama og samúð (sympathy).
Kenningar hans gera ráð fyrir því að líta megi svo á samkennd liggi á rófi (spectrum) þar sem við öll lendum einhvers staðar á. Það þýðir að samkennd dreifist á nokkurs konar normalkúrfu þar sem á öðrum endanum er fólk sem hefur enga samkennd, fyrir miðju eru flestir, hafa einhverja samkennd, og á hinum endanum eru þeir sem hafi óvenjulega mikla samkennd.
Engin samkennd (Zero degrees of empathy)
Baron-Cohen skiptir þeim sem hafa enga samkennd í neikvæða og jákvæða (zero-negative and zero-positive). Þeir sem hann skilgreinir sem neikvæða eru þeir sem oftast myndu teljast hættulegir. Hann skiptir þeim upp í þrjá flokka, eftir vel þekktum persónuleikaröskunum.
Flokkur B – jaðarpersónuleiki (Borderline)
Það sem einkennir helst einstaklinga í þessum flokki er til dæmis að þeir eru hvatvísir, hafa öfgakenndar skapsveiflur, eiga erfitt með að stjórna reiði sinni, þeir eiga í ótraustum en öfgafullum samböndum við aðra einstaklinga, þeir skaða sjálfa sig og hóta sjálfsmorði, þeir upplifa sterka tómleikatilfinningu í lífi sínu og er óhemju hræddir við að annað fólk fari frá þeim.
Flokkur P – siðblindur persónuleiki (Psychopath)
þar sem einkennir helst einstaklinga í þessum flokki er til dæmis að þeir hafa oft mikla persónutöfra, eða einskonar yfirborðskenndan þokka, þá skortir sektarkennd, þeir eru óáreiðanlegir, óheiðarlegir og eigingjarnir, þeir eiga erfitt með langtímasambönd við annað fólk, þeir eiga erfitt nmeð að fylgja reglum og venjum samfélagsins, þeir eru hirðulausir gagnvart eigin öryggi og annarra, þeir hafa lítinn skilning á tilfinningum og eiga erfitt með að skilja afleiðingar gjörða sinna
Flokkur N – sjálfsdýrkandi persónuleiki (narcissist)
Það sem einkennir helst einstaklinga í þessum flokki eru til dæmis tilkomumiklar hugmyndir um eigið ágæti, þeir eru mjög uppteknir af hugmyndum um eigin velgengni, völd og fegurð, þeir líta á sjálfa sig sem einstaka og vilja aðeins umgangast fólk sem þeir telja sér samboðið, þeir hafa mikla þörf fyrir aðdáun annarra, þeir notfæra sér annað fólk og eru hrokafullir, þeir finnst þeir einnig eiga rétt á hinu og þessu og eiga það skilið.
Þessir þrír flokkar eru vel þekktir meðal klíniskra sálfræðinga og geðlækna og er að finna í DSM IV (handbók um greiningu geðsjúkdóma). Baron-Cohen bendir á að það sem sameinar einstaklinga með þessar raskanir er að þá skortir alla samkennd.
Hvað veldur skorti á samkennd?
Baron-Cohen nefnir annars vegar líffræðilega þætti sem geta skýrt skort á samkennd, en hann bendir á rannsóknir sem hafa sýnt ólíka starfsemi ákveðinna heilasvæða sem eru tengd samkennd, milli fólks með mikla samkennd og þeirra sem skortir hana. Einnig veltir hann upp þeim möguleika að munur gæti að einhverju leyti legið í genasamsetningu.
Hins vegar nefnir hann umhverfisþætti sem geta skýrt skort á samkennd, en skortur á umhyggju í uppeldi, afskiptaleysi, ofbeldi (bæði andlegt og líkamlegt) eru allt þættir úr umhverfinu sem geta stuðlað að því að einstaklingur þrói með sér skort á samkennd.
Hvorug skýringin getur eins og sér skýrt skort á samkennd. Líklegast er því að bæði erfðir og umhverfi stjórni því hvort einstaklingar hafi ekki, eða missi, samkennd með öðru fólki.
Það sem er athyglisvert er að ekki allir þeir sem hafa enga samkennd eru ofbeldishneigðir eða hættulegir. Einstaklingar með asperger heilkenni eða klassíska einhverfu hafa litla sem enga samkennd. Þeir geta því ekki sett sig í spor annarra, eiga erfitt með að skilja tilfinningar annarra, myndmál, kaldhæðni eða raddtón. Þessir einstaklingar geta því sært fólk eða móðgað með orðum án þess að skilja að það sem þeir segja eða gera getur sært aðra. Þeir eru hins vegar sjaldnast ofbeldisfullir eða hættulegir öðrum.
Það er áhugavert efni fyrir rannsakendur að skilja betur muninn á neikvæðum og jákvæðum einstaklingum sem skortir samkennd.
Vel er hugsanlegt að ódæðismanninn í Noregi skorti samkennd með öðru fólki, þó erfitt sé að alhæfa um slíkt í pistli sem þessum. Baron-Cohen bendir þó til dæmis á að strákarnir sem stóðu að skotárásinni í Columbine skólanum í BNA árið 1999 hafi skort samkennd og að annar þeirra hafi verið greindur í flokk P (psychopath) af sálfræðingum.
Áhugi sálfræðinga liggur í því að skilja hegðun fólks, bæði góða hegðun og slæma. Með útskýringum á því hvað er líklegt að valdi ákveðinni hegðun er þó aldrei tilgangurinn að réttlæta þá hegðun, heldur aðeins að skilja hana. Því með því að skilja hvað veldur ákveðinni hegðun má hugsanlega koma í veg fyrir hana á öðrum tíma og öðrum stað.
Heimild:
Baron-Cohen, S. (2011). The Science of Evil. Basic Books: New York
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021