Hvernig rekur ríki hausinn í skuldaþak?

Deilan um skuldaþakið í Bandaríkjunum var leyst í bili síðasta mánudag. En hvernig komust Bandaríkin á þennan stað?

Eftir langar og strangar viðræður milli leiðtoga demókrata og repúblíkana var á mánudaginn síðastliðinn gert samkomulag milli þingdeildanna tveggja í Bandaríkjunum og forsetans. Mjög áríðandi var orðið að ná niðurstöðu í málinu þar sem bandaríska ríkið hafði tekið eins mikil lán og það mátti lögum samkvæmt, þ.e. skuldaþakinu svokallaða var náð. Þar sem ríkið er rekið með gríðarlegum halla þessi misserin þýddi það að snemma í ágúst (oft talað um 2. ágúst) yrði ríkið uppiskroppa með fé og yrði að hætta að borga fyrir grunnþætti í starfsemi sinni. Í samkomulaginu fólst að skuldaþakið var hækkað og talsverður niðurskurður yfir næstu 10 árin samþykktur. Nokkrum klukkustundum eftir að nýju lögin voru samþykkt gaf ríkið út skuldabréf að upphæð tæplega 240 milljarða bandaríkjadala. Með þeirri útgáfu fóru heildarskuldir ríkisins í fyrsta skipti frá seinni heimsstyrjöldinni yfir 100% af vergri þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Hvernig kom þetta ríka land sér eiginlega í þessi vandræði?

Viðvarandi halli á ríkisfjárlögum

Frá því kreppan mikla skall á af fullum krafti á árunum 1929-1933 hefur bandaríska alríkið verið rekið svo til með viðvarandi halla. Ef horft er framhjá lífeyristryggingakerfishluta (social security) fjárlaganna hefur ríkið á þessu 70 ára tímabili skilað tekjuafgangi aðeins 8 ár, 1947, 1948, 1951, 1956, 1957, 1960, 1999 og 2000. Frá 1960 hefur ríkið aðeins tvö ár verið rekið án halla! Í sjálfu sér er það ekki nauðsynlega slæmt að reka ríkið með viðvarandi halla og tilheyrandi skuldasöfnun. Með hagvexti stækkar tekjustofn ríkisins og á meðan tekjustofninn (þjóðarframleiðslan) vex hraðar en skuldirnar er skuldastaðan í raun að batna.

Stríðsskuldirnar koma og fara

Eftir kreppuna miklu versnaði skuldastaða Bandaríkjanna nokkuð en sveiflaðist á nokkuð viðráðanlegu bili, 40-45% af þjóðarframleiðslu, í nokkur ár. En þegar Bandaríkin drógust inn í seinni heimsstyrjöldina seint á árinu 1941 tóku skuldirnar á flug. Dýr stríðsrekstur krafðist mikillar lántöku ríkisins og stríðsskuldabréf voru markaðsett og seld í gríð og erg. Þegar stríðinu lauk höfðu skuldirnar þrefaldast, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, og árið 1946 stóð þetta hlutfall í rúmum 120%. Í rúman áratug eftir stríð var svo ríkið rekið að meðaltali á sléttu, skuldir jukust lítið sem ekkert. Enn fremur var mjög mikill hagvöxtur á þessum árum, þjóðarframleiðslan jókst hratt og skuldahlutfallið lækkaði því hratt. Þessi þróun hélt áfram, reyndar var ríkið rekið með halla meira og minna þaðan í frá en framan af var skuldasöfnunin mun hægari en hagvöxturinn svo að skuldahlutfallið lækkaði stöðugt. Á seinni hluta áttunda áratugarins fór svo mikil verðbólga á skrið sem hjálpaði við að lækka skuldahlutfallið sem fór lægst undir þriðjung árið 1981.

Atvinnuleysi og skattalækkanir án útgjaldaaðhalds

Til þess að ná tökum á verðbólgunni hækkaði Seðlabankinn undir stjórn Pauls Volckers vexti mikið og héldust þeir háir á árunum 1979-1982. Með háum vöxtum tókst að ná verðbólgunni niður úr tveggja stafa tölum niður í um 4% en atvinnuleysi jókst mikið við þessar aðgerðir og í upphafi níunda áratugarins fór það upp fyrir 10%. Það dró úr tekjum ríkisins og jók útgjöld þess vegna atvinnuleysisbóta. Jafnframt var ráðist í miklar skattalækkanir á sama tíma, en þá var Ronald Reagan nýtekinn við embætti forseta. Fyrir hans tíð höfðu hæstu tekjur verið skattlagðar með 70% skatti (og raunar allt að 91% strax eftir seinni heimsstyrjöldina) en með skattalagabreytingum 1982 voru skattar lækkaðir yfir allan tekjuskalann og sérstaklega voru þeir lækkaðir á hæstu tekjur og var hæsta skattprósentan lækkuð í 50%. Árið 1986 voru skattar lækkaðir enn frekar og í forsetatíð George H.W. Bush (Bush eldri) hélt þessi þróun áfram og þegar forsetatíð hans lauk árið 1993 voru hæstu skattar komnir niður í 31%. Á þessum tíma dróst tekjuhlið ríkisins því verulega saman sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en útgjöldin lækkuðu ekki, heldur hækkuðu raunar nokkuð. Þannig var ríkið þennan tíma rekið með mesta samfellda halla frá seinna stríði. Skuldahlutfallið hækkaði að sama skapi og nam 67% þegar Bill Clinton tók við forsetaembætti.

Að ná tökum á vandanum en missa þau aftur

Strax í upphafi embættistíma síns kom Bill Clinton skattahækkunum í gegn sem lögðust þyngst á tekjuháa en hæsta jaðarskattprósentan fór hátt í 40%. Þessi hækkun ásamt sterku hagvaxtarskeiði styrkti tekjuhliðina mjög en jafnframt lækkuðu útgjöld jafnt og þétt úr því sem verið hafði. Síðustu tvö árin af embættistíma Clintons náðist sá gríðarlegi mikilvægi áfangi að fjárlög voru rekin með tekjuafgangi og skuldahlutfallið hafði lækkað niður í 57%.
Fljótlega eftir embættistöku George W. Bush (Bush yngri) voru skattar aftur lækkaðir og mest á hæstu tekjuhópana. Þessar skattalækkanir rýrðu tekjur ríkisins verulega og þótt tekjurnar glæddust nokkuð á árunum 2006 og 2007 voru þær alltaf talsvert undir því sem þær höfðu verið undir stjórn Clintons. Útgjöldin höfðu hins vegar ekkert lækkað. Halli var viðvarandi allan embættistíma Bush yngri og þegar hann lét af embætti var skuldahlutfallið komið í um 70%.
Víkur þá að núverandi forseta, Barack Obama. Það sem af er hans embættistíma hafa tekjur ríkisins ekki verið lægri síðan fyrir seinni heimsstyrjöld. Tilraunir hans til að hækka skatta (láta skattalækkanir Bush yngri renna út) hafa ekki tekist. Jafnframt hefur atvinnuleysi verið viðvarandi mjög hátt með tilheyrandi ríkisútgjöldum auk þess sem risavöxnum fjárhæðum hefur verið varið til að örva hagkerfið (economic stimulus) og saman hefur þetta orsakað hæstu ríkisútgjöld frá seinna stríði. Niðurstaðan ætti ekki að koma neinum á óvart: Langmesti halli frá seinni heimsstyrjöld og skuldahlutfallið rýkur upp.

Skuldaþakið, slagurinn um það og næstu ár

Skuldaþakið var sett á í fyrri heimsstyrjöldinni og nam árið 1919 43 milljörðum dala. Það hefur síðan verið hækkað stöðugt svo til árlega og stendur nú í 14,7 þúsund milljörðum. Það var hækkað 17 sinnum í tíð Reagan, fjórum sinnum hjá Bush eldri og Bill Clinton hvorum fyrir sig og 7 sinnum hjá Bush yngri. Hækkunin sem samþykkt var í byrjun líðandi viku var svo hin fjórða í tíð Barack Obama. Hækkunin nú var hins vegar sú fyrsta eftir að demókratar misstu meirihluta í fulltrúadeild þingsins og varð það til þess að vígreifir teboðsrepúblíkanar nýttu tækifærið til að fá í gegn útgjaldalækkanir.
Það er alveg ljóst að núverandi staða Bandaríkjanna er ekki sjálfbær. Hallinn á ríkisrekstrinum er svo mikill að ekki þarf mjög mörg svona ár í viðbót áður en skuldastaðan er orðin því sem næst óviðráðanleg. Það er ljóst að skera þarf mjög niður útgjaldamegin en það er jafnljóst að hækka þarf skatta og afla frekari tekna. Ábyrgðin þarf að vera báðum megin í ríkisfjármálunum, bæði í tekjum og útgjöldum.

Fyrir þá sem entust svona langt og eru ekki orðnir nógu þunglyndir þá skal þess getið að ofan á þetta leggst svo vandinn við lífeyriskerfi Bandaríkjanna (social security). Árið 2038 er áætlað að það sem lagt hefur verið fyrir vegna lífeyrisskuldbindinga klárist og ríkið þurfi að greiða lífeyrinn úr sínum vasa. Sú skuldbinding núvirt er áætluð um 7500 milljarðar dala eða sem nemur um 50% af þjóðarframleiðslu. Komandi áratugur í bandarískum stjórnmálum mun líklega fyrst og fremst snúast um að ná fjármálunum á réttan kjöl. Því fyrr sem stjórnmálamenn fara að taka því af ábyrgð, því betra.

Fyrir fjárlaga- og ríkisskuldaáhugamenn er bent á þessa hlekki:
Fjárlög Bandaríkjanna
Tekjuskattprósentur í gegnum söguna
Skuldir Bandaríkjanna
Skuldaþakið