Þann 22. júlí síðastliðinn var framið eitt viðbjóðslegasta voðaverk í sögu Norðurlanda og þótt víða væri leitað. Síðan hefur heimsbyggðin fylgst með viðbrögðum Norðmanna af aðdáun. Hugrekki þessarar frændþjóðar okkar verður vart lýst með orðum. Ekki hefur orðið vart við ofsafenginn hefndarþorsta sem mannfólkið á til að sýna heldur hafa viðbrögðin fyrst og fremst einkennst af sorg en einnig af staðfestu. Norðmenn ætla ekki að láta einn mann, ef hægt er að kalla hann það, breyta þeirra lífsstíl. Kastljós fjölmiðla hefur því miður allt of oft beinst annað.
Síðustu daga hefur heimsbyggðin fengið ógrynni upplýsinga um þann sem framdi verknaðinn. Við vitum hvað hann heitir, hvernig hann lítur út, hvar hann bjó, hvað hann hefur gert um ævina og hvað mömmu hans finnst um þetta allt saman. Að auki fáum við reglulega fréttir af undarlegum yfirlýsingum og kröfum hans úr fangelsinu. Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt þar sem fjölmiðlar fjalla um það sem þeir telja að fólk vilji heyra og sjá. Fólk er heillað af skrímslum. Margt bendir hins vegar til þess að þetta sé einmitt það sem ódæðismaðurinn sóttist eftir.
Stuttu fyrir árásirnar lét maðurinn myndir af sér í fullum herklæðum á netið sem augljóslega voru ætluð fjölmiðlum. Einnig nokkurs konar „stefnuskrá“ þar sem hann hellti úr skálum brjálsemi sinnar á milli þess sem hann stal skrifum annarra. Síðan honum hefur verið stungið í fangelsi hefur hann síðan reglulega látið hafa alls kyns vitleysu eftir sér til að athyglin haldist örugglega á honum. Fjölmiðlar heimsins hafa birt þetta allt saman af mikilli hlýðni. Einmitt eins og hann hafði séð þetta fyrir sér. Hann slátraði tugum saklausra borgara, þar á meðal börnum sem hann gerði að sérstöku skotmarki, og fjölmiðlar verðlauna hann með heimsfrægð.
Er til of mikils ætlast að sómakærir fjölmiðlar taki þátt í baráttu okkar fyrir frelsi og fyrir að búa í heimi sem stjórnast ekki af hræðslu? Við þurfum ekki að vita hvað maðurinn hét. „Norski ódæðismaðurinn“ er til dæmis ágætt þó hann eigi ef til vill skilið sterkari og neikvæðari orð. Við þurfum ekki að vita hvað hann er að segja við lögmann sinn í fangelsinu og við þurfum ekki að vita hvað mömmu hans finnst um málið. Þegar við minnumst þessa hryllilega atburðar eftir nokkur ár eigum við ekki að minnast þessa manns heldur fórnarlambanna, hetjanna sem lifðu af á Utoya og hugrekki norsku þjóðarinnar.
Flestir fjölmiðlar virðast gera allt sem í þeirra valdi stendur til að það verði á hinn veginn.
- Munum fórnarlömbin.Gleymum skrímslinu. - 4. ágúst 2011
- Ég segi JÁ - 1. apríl 2011
- Má ég fá laun? - 10. mars 2011