Nýverið hafði ég ákveðið að splæsa á mig einni flatböku á veitingastað sem er staðsettur við hlið áfengisverslun ríkisins. Ég var þarna rétt fyrir lokun ÁTVR á föstudegi, eða eins og ein góð vinkona mín kallar hann flöskudagur. Það skal tekið fram áður en lengra er haldið að ég hef aldrei staðið í röð í ÁTVR til að kaupa veigar fyrir helgina, því ég hef aldrei drukkið. Það sem sló mig þegar ég sat þarna með rjúkandi flatbökuna mína, var hversu fáránlegt það var að sjá allt þetta fólk flykkjast inn í eina búð öll með sama tilganginn að ná að kaupa sér vín fyrir helgina.
Ég hef aldrei haft neitt á móti því að fólk fái sér í glas, ég tel það eðlilegt þó ég kjósi að gera það ekki sjálf, en sú menning sem er á Íslandi gagnvart víni finnst mér svolítið bjöguð. Eftir veru mína í Bretlandi síðustu ár, hef ég vanist því að sjá vín í hillum matvöruverslananna, fólk gat keypt sér vín með kvöldmatnum á sunnudegi eða á mánudegi. Fólk fann ekki hjá sér þörf að versla fyrir helgina á föstudegi því það gæti hugsanlega ekki náð í ríkið á laugardeginum og þá væri það komið í bobba því það átti ekkert vín.
Það sem mér þykir einkennilegast við það að sala áfengis sé á höndum ríkisins er að forvarnarhlutverkið er einnig á höndum ríkisins, meira að segja sömu verslunar og sér um að selja vínið. Þannig á sama tíma sem vínbúðin auglýsir vín mánaðirns þá auglýsir hún að það sé ekki hollt að drekka. Þetta eru misvísandi skilaboð sem ríkið er að senda. Og það vekur upp spurninguna hvort það sé rétt að ríkið hagnist á einhverju sem þeir telja vera vont fyrir almenning? Tökum dæmi um svokallaðan sykurskatt, sykurskattur á nammi t.d. Væri rétt ef ríkið kæmi sér upp sjoppum víðsvegar um landið til að selja nammi ofan í landsmenn? Ég veit að margir hrissta nú höfuðið, vegna fáránlegs dæmi en þetta er ekki mikið ólíkt Vínbúðunum því staðreyndin er sú að of mikill sykurneysla er hættuleg fyrir fólk, og væri því ekki með sömu rökum hægt að segja að ríkið ætti að sjá um sölu á öllu því sem hefur viðbættan sykur í eins og að það þurfi að selja áfengi?
Ég verð seint talin talsmaður áfengis, en ég get heldur ekki sætt mig við að fólk þurfi að standa í röðum fyrir utan einhverja sérstaka vínbúð sem hefur sérstakt leyfi til að selja áfengi lengur en hinar vínbúðirnar. Þetta er ekkert akút mál svo sem, en ég skil bara ekki að ríkið selji ekki áfengisverslanirnar, komi þessu í frjálsa sölu og losi sig við það að þurfa að standa undir þessari starfssemi. Með því að gera það væri hægt að eyða meiri tíma í að fræða fólk um áfengi, ýta undir ábyrga vínmenningu og svo framvegis.
Fyrir mér væri eðlilegt ef við myndum ala börnin okkar upp þannig að þeim finnist eðlilegra að sjá vín í matvöruversluninni í stað þess að þetta sé eitthvað framandi sem bara má kaupa í einni búð. Því þá munum við hugsanlega breyta okkar viðmóti til víns, og kannski munum við ekki sjá hópraðir fyrir verslanir eins og þetta sé síðasti séns til að kaupa sér vín um hverja helgi.
Því fyrir hinum ómótuðu hugum lítur það út fyrir að vera eitthvað svaka spennandi.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021