Á forsíðu glansritsins Séð og heyrt fyrir vikuna 3.-9. október má sjá mynd af karlmanni þar sem andlitið hefur verið gert óþekkjanlegt. Undir myndinni stendur
„Þjóðþekktur álitsgjafi í sjónvarpi: Ákærður fyrir nauðgun!“
Síðan var einhver smá umfjöllun var um þetta inni í blaðinu. Þessi framsetning og vinnubrögð hjá tímaritinu eru einstaklega varhugaverð.
Framsetningin hjá tímaritinu er til að byrja með óvenju tillitslaus gagnvart öðrum þjóðþekktum álitsgjöfum í sjónvarpi. Þar sem þeir eru varla fleiri en 10 þá kastar þetta grun og vekur upp sögusagnir um ansi fáa einstaklinga sem eiga á hættu að vera stimplaðir sem meintir kynferðisglæpamenn. Það er samt smámál miðað við áhrifin á viðkomandi einstakling sem á að hafa verið kærður fyrir kynferðisbrot. Þar sem álitsgjafarnir eru svo fáir tryggir þetta náttúrulega einnig að fólk mun komast að því hver hann er mjög fljótt. Strax í kjölfar umfjöllunar tímaritsins fóru að ganga sögusagnir um það hver þetta væri.
Viðkomandi þjóðþekkti álitsgjafi hefur ekki verið dæmdur fyrir eitt né neitt heldur einungis verið kærður fyrir kynferðisbrot. Það er langur vegur á milli þess að vera kærður fyrir refsiverða háttsemi og dóms þar að lútandi. Það er meginregla í íslensku réttarfari að menn skuli vera saklausir uns sekt er sönnuð. Þannig að á meðan menn hafa ekki verið dæmdir fyrir háttsemina þá eru þeir saklausir hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Framsetning blaðsins á þessu máli er ekki í nokkru samræmi við þetta viðhorf. Hún er óvenju meiðandi fyrir viðkomandi einstakling sem gæti allt eins verið saklaus.
Skaðinn er skeður. Þessi saga mun væntanlega fylgja viðkomandi einstaklingi það sem eftir er jafnvel þó hann verði dæmdur sýkn saka. Það er því miður mjög sjaldgæft að við gefum slíkum einstaklingum uppreisn æru þrátt fyrir að rannsókn hafi verið felld niður eða menn sýknaðir. Með þessari ótímabæru umfjöllun og glannalegu framsetningu fær viðkomandi ekki að njóta vafans. Hún vekur upp og fóðrar sögusagnir um aðila sem gæti allt eins verið saklaus.
Því miður er ekki að sjá að tímaritið hafi neina hagsmuni af því að birta þetta aðrar en fjárhagslega þ.e. að selja fleiri blöð út á kjaftasöguna. Fréttagildið er ekki til staðar, ekkert frekar en í öllum öðrum kærum sem fjölmiðlar fjalla ekkert um. Þetta er ekki frétt fyrr en dómstólar hafa skorið úr því hvort fótur sé fyrir þessum ásökunum.
Háttsemi tímaritsins er siðferðislega alveg kolröng. Í þriðju grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands segir að blaðamaður skuli vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann skuli einnig forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu. Ekki er að sjá að blaðamenn tímaritsins hafi haft siðareglurnar við höndina þegar umfjöllunin var samin eða ákvörðun tekin um forsíðu.
Það eru alltaf mjög sérstakar týpur sem gera sér mat úr óförum annarra sjálfum sér til framdráttar. Slíkt fólk gæti kannski fengið vinnu hjá tímaritinu Séð og heyrt!
- Smámenni með völd - 26. júní 2021
- Hafa tannhjól samvisku? - 19. september 2020
- Hið eilífa leikrit - 23. júní 2020