Þegar þessi pistill er skrifaður þá eru tár að renna niður vanga minn, ekkert sorglegt að gerast svo sem, Oprah Winfrey var að kveðja skjáinn eftir 25 ár. Það kemur þeim sem þekkja mig ekkert á óvart, en þetta var sérstakt, það var ekkert sorglegt heldur eitthvað fallegt, huglægt og eitthvað sem ekki er hægt að nefna, Oprah myndi líklega kalla það Aha moment.
Oprah hefur verið fyrirmynd fólks um allan heim í langan tíma og nú hefur hún kvatt sjónvarpsskjáinn eftir að hafa glatt, auðgað og menntað hjörtu heimsbyggðarinnar. Hún segir það hafa verið köllun sína að mæta í 25 ár í stúdíóið og koma áfram boðskap og gleði til þeirra sem á hana horfðu.
Oprah er stórmerkileg kona, hún er dáð fyrir það frábæra starf sem hún hefur gert, eins og að stofna skóla í Afríku, skólastyrki í USA fyrir börn í fátækrahverfum sem hefur skilað sér margfalt til baka og fyrir þær umræður sem hafa brotið niður múra og hjálpuðu mikið við að stoppa fordóma. Hún hefur jafnframt tekið viðtöl við hreint út sagt alls konar fólk; þau bestu, þau frægustu, þau skemmtilegustu, þau hugrökkustu, þau óheppnustu, þau klárustu og þau verstu. Öll þessi viðtöl vann hún að með heilindum og með það fyrir augum að koma sögu þessa fólks til skila.
Í lokaþætti Opruh talar hún mikið um að allir hafi köllun í lífinu og hversu mikilvægt það sé fyrir okkur að finna hana. Oprah segir að köllun sé ástríða, eitthvað sem lætur þér líða sem þú sért á hárréttum stað, að gera nákvæmlega það sem þú átt að vera að gera og ekkert fær þig til að efast um það. Þegar þú ert að uppfylla köllun þína þá færðu orku, alveg sama hversu mikið þú vinnur, ef þú ert að vinna við köllun þína þá ertu að endurnærast.
Köllun þín þarf ekki að vera atvinna þín, heldur þarf hún vera eitthvað sem þú gerir, og það gefur þér hamingju. Ég held að ég hafi ekki fundið mína í köllun í lífinu en eins og Oprah nefndi einhvern tíman þá förum við öll okkar leið að henni. Oprah hóf frama sinn sem fréttamaður en hún vissi allan tíman að það var ekki það sem hún átti að vera að gera, en það að vera fréttamaður ruddi veg hennar að því sem hún átti að gera, því sem myndi gera líf hennar svo merkilegt.
Ég hef stundum bein tengt köllun við einhver trúabrögð, maður hefur svo oft heyrt það að fólk finni köllun sína í því að bera út boðskap biblíunnar. Ég er ekki lengur á því, köllun hvers og eins er eins fjölbreytt og við erum mörg, hún tengist trúarbrögðum ekkert, nema kannski þeim trúarbrögðum að trúa á mann sjálfan.
Oprah hefur nokkuð oft sett manni lífsreglurnar, en hvort maður fari eftir þeim er annað, oftast finnst manni þær nú góðar en það krefst staðföstu að halda því gangandi. En ef það er eitthvað sem ég lærði á þessum síðasta þætti Opruh Winfrey þá er það:
– Ekki eyða of miklum tíma í að tala um að þú verðir að fara að gera eitthvað skemmtilegt, GO FOR IT
– Ef þú finnur það sem gefur þér orku, þá skalt þú gera eins mikið af því og þú getur því það mun skila þér og samfélaginu þínu svo miklu, miklu meira en það sem þú gerir út af skyldum.
– Ef þú talar illa um einhvern eða gerir einhverjum eitthvað illt þá geturu verið viss um að fá það til baka.
– Þó að þú þurfir að eiga í þig og á, þá þarf vinnan þín ekki að vera leiðinleg.
Ég ætla að reyna að tileinka mér þessa hugsun hennar Opruh, ég ætla að finna köllun mína, hún kemur ekki með því að setjast niður og bíða, heldur með því að þreifa fyrir sér, taka sénsa og takast á við þetta allt saman. Þetta verður mitt verkefni næstu árin.
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021