19. júní er og verður merkisdagur í sögu íslensku þjóðarinnar og var honum víða fagnað sl. sunnudag. Hann var þó haldinn í skugga ýmissa alvarlegra kynferðisbrota karla gegn konum en mörg þessara mála tengjast trúfélögum. Þessi pistill mun þó ekki fjalla um Karl Sigurbjörnsson og Þjóðkirkjuna heldur það hvernig það er að vera ung kona í íslensku samfélagi í dag, samfélagi sem enn virðist halda fast í þá skoðun að karlar standi konum fremri á flestum sviðum.
Íslenskar konur geta tekið að sér mörg hlutverk í samfélaginu og skipt máli, eða svo er okkur sagt. Við getum menntað okkur, orðið forstjórar í fyrirtækjum, gift okkur hvort sem við viljum karli eða konu, eignast einbýlishús eða notað peningana í ferðalög og síðast en ekki síst getum við orðið mömmur, en móðurhlutverkið er án efa elsta og hefðbundnasta hlutverk kvenna um allan heim.
Um daginn heyrði ég unga mömmu lýsa því hvernig það er að vera móðir í dag eitthvað á þessa leið: „Áður fyrr var það „nóg“ fyrir konur að unga út börnum, kunna að elda, baka, þrífa og þvo þvott til að uppfylla kröfur samfélagsins á þær. Í dag er þetta hins vegar ekki nóg. Á meðan við ungum út börnum, eldum, bökum, þrífum og þvoum þvott eigum við að mennta okkur, eiga framúrskarandi starfsferil að námi loknu og auðvitað meðfram þessu öllu vera frábærar kærustur og eiginkonur.“
Og ég man að ég spurði sjálfa mig: „Er þetta eðlileg upplifun og er þetta það sem kvenréttindabaráttan snerist um? Að í byrjun 21. aldarinnar yrðu gerðar svo óraunhæfar kröfur til ungra kvenna að jafnvel þær duglegustu væru að bugast?“
Nú munu án efa einhverjir segja að þetta sé bara val: ef þú vilt ekki eignast barn og ljúka meistaraprófi frá háskóla þarftu ekkert að gera það. Þessir einhverjir eru örugglega ekki ungar konur á Íslandi í dag.
Kvenréttindi snúast nefnilega ekki um það að samfélagið setji fram óraunhæfar kröfur á konur nútímans, dulbúnar í orðum eins og „jafnrétti“ og „val“. Kvenréttindi snúast um að hver kona hafi frelsi til að haga lífi sínu eins og hún kýs, óháð því hvaða kröfur samfélagið gerir til hennar um ákveðin hlutverk og skyldur. Hvernig svo sem hver kona velur að haga sínu lífi ber að virða þá ákvörðun, hvort sem hún vill vera heima með börnum sínum eða vill ekki eignast börn.
Þó að margt hafi áunnist í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á síðustu áratugum má færa ýmis rök fyrir því að enn sé nokkuð langt í land. Óraunhæfar kröfur samfélagsins á nútímakonur eru dæmi um hvernig gamlir fjötrar hafa umbreyst í aðra og nútímalegri fjötra, sem fela það í sér að það er ennþá full vinna að vera kona; forsendurnar eru aðeins breyttar og áherslur samfélagsins aðrar á hvað eru hefðbundin hlutverk kvenna. Þessu þarf að breyta.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021