Ég er nokkuð lífsglöð og hef alltaf verið held ég. Mér finnst lífið ansi skemmtilegt. Ég hef það líka mjög gott. Heppin ég að fæðast í landi þar sem ekki er stríð, alvarlegar náttúruhamfarir, mikil fátækt eða annars konar vonleysislegar aðstæður þar sem íbúar fá ekki miklu ráðið hvernig líf þeirra verður. Hér á landi á orðatiltækið „hver er sinnar gæfu smiður“ við um flesta, því miður á það ekki við um alla en meginþorri landsmanna hefur tækifæri.
Þrátt fyrir að skerið okkar Ísland sé að einhverju leyti að fara fjandans til á framangreint orðatiltæki við um Ísland og Íslendinga. Okkar vandamál eru að mörgu leyti heimatilbúin. Vandamál verða ekki leyst í reiði, vonleysi og „þér að kenna“ leiknum sem er orðinn verulega þreyttur á meðal fullorðinna manna, hvort sem það er á meðal almennings eða þeirra sem eiga að stjórna og taka ákvarðanir fyrir okkar hönd.
Fólk þarf að virða skoðanir annarra og hvernig það ákveður að lifa sínu lífi – svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Fólk þarf að sjá meira það góða í öðrum. Mér er sagt að ég geri of mikið af því en það þarf að vera meira en nú er. Við þurfum að standa saman þegar tilefni gefst til. Það er verið að eyða dýrmætum tíma og orku í reiði, röfl og óþarfa niðurrif. Ég er ekki kalla eftir því að gagnrýni verði bönnuð, að allir séu settir í bómul, knúsist, veri meðvirkir og óþolandi. Fólk á að gagnrýna, en að gagnrýna er að rýna til gagns. Ekki ráðast á fólk og tæta það í sundur að því er virðist að óþörfu.
Yndislegur vinur minn og fyrrverandi sambýlismaður minn lést í slysi fyrir ári síðan, hann var heilbrigður og góðhjartaður strákur. Ég taldi mig ágætlega meðvitaða um að lifa lífinu, kvarta ekki yfir því sem skiptir ekki máli og vera sátt við mig og mitt hverju sinni en síðast liðið ár hefur einfaldlega breytt sýn minni á lífið. Ég er ung og hafði kannski einfalda sýn á lífið en þetta kvöld var ég látin eldast um mörg ár og það reyndi á að taka það góða og læra af þessu – því lífið bara gerist. Og það gerist ekki eins og þú hafðir planað.
Maður lifir bara einu sinni, kemur og fer og dvelur hér í alltof stutta stund svo það er eins gott að gera gott úr þessu, njóta þess að vera til og halda áfram.
- Hver er einfaldur? - 27. október 2014
- Who’s your daddy? - 7. febrúar 2012
- Carpe diem - 19. júní 2011