Þann 9. júní síðastliðinn féll dómur í Hæstarétti í máli Landsbankans gegn þrotabúi fyrirtækisins Motormax þar sem fyrri dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var staðfestur. Niðurstaðan kom í sjálfu sér ekki á óvart en það sem er sérstakt við málið er ákvörðun Hæstaréttar að fjölga dómurum eftir að málið hafði verið dómtekið sem er líklega fordæmalaust.
Meirihluti Hæstaréttar taldi, líkt og Héraðsdómur Reykjavíkur, lán Landsbankans til Motormax vera í íslenskum krónum en gengistryggt og þannig ólöglegt samkvæmt fyrri dómum Hæstaréttar. Niðurstaðan er kannski ekki óvænt þó rökstuðningur meirihluta Hæstaréttar væri nokkuð frábrugðinn fyrri málum um gengistryggð lán. Það sem kemur sérstaklega á óvart er að niðurstaða Hæstaréttar hafi ekki verið einróma líkt og í sambærilegum dómum.
Það er mjög sérstakt að ákvörðun skuli hafa verið tekin um að fjölga dómurum úr fimm í sjö, og það eftir að það hafði verið flutt fyrir fimm dómurum og dómtekið. Skýringar Hæstaréttar voru á þá leið að málið hefði mikið fordæmisgildi og að deilt væri um mikla hagsmuni. Þessi rökstuðningur er athyglisverður í ljósi þess að upphaflega hafði ákvörðunin um að flytja málið fyrir fimm dómurum, en ekki þremur eins og tíðkast yfirleitt, verið tekin vegna þessara miklu hagsmuna og þess mikla fordæmisgildis sem málið var talið hafa. Landsbankinn hafði einmitt í febrúar sent frá sér opinbera tilkynningu þar sem kom fram hversu gríðarlega miklir hagsmunir væru í húfi fyrir bankann.
Því er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ákvörðun Hæstaréttar að fjölga dómurum hafi byggst á einhverjum öðrum ástæðum, sem hafa jafnvel ekki enn komið fram. Sérstaklega í ljósi þess að þrír dómarar skiluðu sératkvæði og töldu að um væri að ræða lán í erlendri mynt. Þessir þrír dómarar sátu einnig í fimm manna dómara hópnum sem málið var upphaflega flutt fyrir. Því má telja líklegt að ef fimm dómarar hefðu lokið við málið hefði niðurstaðan verið sú að lánið væri álitið í erlendri mynt og Hæstiréttur þannig hnekkt niðurstöðu Héraðsdóms. En við það að fjölga dómurum í sjö urðu dómararnir þrír í minnihluta og fjórir dómarar, þar af tveir nýir, töldu rétt að staðfesta niðurstöðu Héraðsdóms.
Þessi dómur Hæstaréttar og fjölgun dómaranna hefur ekki vakið mikla athygli í fjölmiðlum en það er ekki hjá því vikist að velta fyrir sér hvernig fjölmiðlaumfjöllunin hefði verið önnur ef dómurum hefði verið fjölgað eftir að málið var dómtekið og niðurstaðan hefði svo orðið að lán Landsbankans teldist löglegt erlent lán. Líklegt er að margir hefðu gert athugasemd við að niðurstaðan hefði ráðist af tveimur dómurum sem hefði verið bætt við. Þar sem málið fór á hinn veginn virðast fáir veita því athygli.
Með þessum dómi hefur Hæstiréttur sett fordæmi í málum af þessu tagi. Hæstaréttur hefur einnig sett ákveðið fordæmi með þeirri ákvörðun sinni að fjölga dómurum eftir að málið var dómtekið og hafa þannig (mögulega) haft áhrif á niðurstöðu réttarins.
Því er góð spurning hvort Hæstiréttur sé með þessu að setja gott fordæmi?
- #FreeBritney - 22. júlí 2021
- Næstu skref í fæðingarorlofsmálum - 6. júlí 2021
- Hvað tökum við með okkur úr faraldrinum? - 23. júní 2021