Ef einhvern tíman ætti að þakka fjölmiðlafólki fyrir vel unnin störf þá væri það í dag. Kastljós og þá sérstaklega Jóhannes Kr. Kristjánssyni, fyrir framúrskarandi umfjöllun um efni sem fáir hafa kjark í að takast á við. Veit ég af fenginni reynslu að þetta efni er þungt að vinna með en það getur hjálpað fólki að taka af skarið og sýna þeim sem ekki þekkja til inn í þennan heim, því það gæti bjargað mannslífum.
Þessi pistill fer ekki ofan í saumana á öllu því sem kom fram í þættinum en tekið verður á nokkrum hlutum sem þar komu fram. Þættirnir sýndu vægðarlaust umhverfi fíkniefnaheimsins á Íslandi. Þeir sýndu unga fíkla sprauta sig og það vakti mikinn óhug hjá þeim sem á horfði. Fyrir fáeinum árum síðan sat ég á fundum með helsta fagfólki Íslands þegar kemur að forvörnum og vímuefnaneyslu ungs fólk og þar sem talað var um neyslumynstur fólks. Þar kom fram að rannsóknir sýna að fólk hefji neyslu sína ungt á áfengi og sígarettum að hjá ákveðnum hóp er áfengið ekki nóg og þá hefst oft neysla á kannabisefnum. Í kannabisneyslu verður fólk oft orku og framtakslaust og byrjar því að neyta spítts og amfetamíns (örvandi efna) og yfirleitt nokkur ár inn í neysluna fór fólk að sprauta sig. Þetta hefur breyst.
Nú virðist sem að ungir fíklar fari mun fyrr að sprauta sig, með efnum sem aðeins er hægt að fá með uppáskrifað frá lækni. Þetta svokallaða læknadóp er það sem er mest í notkun í undirheimum Reykjavíkur í dag. En hvernig má það vera að það sé svona auðvelt að útvega sér Morfíni?
Kastljós tók dæmi um mann sem á þrem árum hafði fengið uppáskrifaðar um 24.000 töflur af Morfíni, það er 21 tafla á dag. Nú er ég ekki menntaður læknir en 21 pilla af einhverju lyfi á dag hringir um það bil þúsund viðvörunarbjöllum hjá mér. En Kastljós tók viðtal við Landlækni, þar sem hann var spurður út í nefnt dæmi. Það kemur fram í umfjölluninni að ekki sé notast við miðlægan gagnagrunn sem hægt væri að hafa til að fylgjast með hvort um misnotkun væri að ræða. Miðlægur gagnagrunnur gæti gert apótekum kleypt að sjá hvort aðili hafi leyst út lyf í öðru apóteki af svipuðu meiði, landlæknir gæti séð hvort læknar væru að skrifa út óheyrilegt magn af lyfjum til sama aðila og síðast en ekki síst læknar gætu séð hvort tiltekinn sjúklingur væri búinn að fá uppáskrifað hjá öðrum lækni nýlega.
En hvað sagði landlæknir við þessu?
Landlæknir reyndi að skauta fram hjá þeirri ábyrgð sem er á herðum hans með því að beina því að kerfinu eða að mér finnst fjölskyldunum. Hann segir að það sem hafi komið honum mest á óvart, hversu langt leitt fólkið er. Ég veit ekki hvort Landlæknir hafi kynnt sér málefni fíkla eitthvað, en það ætlar sér enginn að verða fíkill. Ferill fíkills hefst ekki í uppeldinu, heldur prófar fólk t.d. að bragða áfengi, sumum finnst það ekki nóg og prófar því eitthvað annað. Þannig er iðulega saga hvers fíkils. Ég hef amk ekki enn heyrt söguna um manneksjuna sem hóf ferill sinn á því að sprauta sig með efnum.
Með því að skauta svona fram hjá spurningunni um hvernig það gerist að einn aðili geti fengið yfir 20.000 töflur af morfíni á þrem árum er hann að reyna að koma ábyrgðinni yfir á einhvern annan. Meðan að staðreynd málsins er að það eru mörg dæmi þess að þeir sem deyja af völdum fíkniefna, deyja vegna of stórs skammt af Morfíni. Það er bara staðreyndin og það er hlutverk Landlæknis að gera eitthvað í málinu.
Lausn í þessu máli er að hafa miðlægan gagnagrunn sem geymir upplýsingar hvers og eins. Eins og sagt er að ofan þá myndi það gera læknum, apótekum og landlækni kleypt að fylgjast með hvort að einn aðili sé að fá hættulega mikið af lyfjum. Þetta kerfi myndi jafnframt eins og sagt er að ofan gera landlækni kleipt að sjá hvort einhver læknir sé að ávísa of miklu magni af lyfjum á einn einstakling. Það myndi gera það að verkum að einhverjar viðvörunarbjöllur myndu hringja.
Ég er ekki að kenna Landlækni um það unga fólk sem eru fíklar, sú ábyrgð er ekki á herðum hans. En það mikla magn læknadóps sem er á götum borgarinnar í dag hlýtur að falla undir hans ábyrgð og ef hann er ekki maður í það verkefni að takast á við það á hann að segja af sér. Með því að draga úr framboði drögum við úr neyslu, þetta er eitt af því fáa sem við getum gert til að stemma stigu við fíkniefnaneyslu. Þetta er svo einfalt en samt virðist ekki vera vilji til að taka upp breytta starfshætti
Stríðið gegn fíkniefnum vinnst ekki ef aðilar sem eiga að vinna að velferð þjóðarinnar gera ekki slíkt, ef læknar geta skrifað út svona fjölda taflna á einn einstakling er kerfið greinilega lamað.
Ég vil enda á að þakka Kastljósi fyrir umfjöllun þeirra og ég vona að þetta hrissti upp í kerfinu STRAX.
Hér má finna Kastljós þáttinn um Landlækni
- Óður til Dollýar - 29. júlí 2021
- Aðförin að heilbrigðisþjónustu landsmanna - 9. júní 2021
- Þegar mennskan hverfur - 26. apríl 2021