Það er um hálft ár síðan ég skrifaði þennan pistil hér á Deigluna um það hvernig íslenskir fjölmiðlar ýta undir staðalímyndir kynjanna og hampa frekar körlum en konum. Í því samhengi tók ég dæmi um vikublaðið Monitor en nýtt tölublað kom einmitt út í dag.
Alla jafna þykir mér Monitor skemmtilegt blað og gaman að fletta í gegnum það, og get ég trúað því að svo sé um fleiri á mínum aldri og yngra fólk. Nú er hins vegar svo komið að ég hef ákveðið að sniðganga Monitor þar sem það virðist vera “vikublað fyrir prinsa”, og ég er ekki prins. Og af hverju er Monitor blað fyrir prinsa? Jú, vegna þeirrar staðreyndar sem ég komst að í kjölfar ömurlegrar hausatalningar á forsíðum blaðsins.
Monitor kom fyrst út þann 25. mars 2010. Síðan þá hafa komið út 56 tölublöð. Af 54 tölublöðum prýða karlar forsíðu 37 tölublaða og konur forsíðu 17 tölublaða. Ekki eru taldar með tvær forsíður en önnur þeirra er samsett úr mörgum einstaklingum og hin er teiknuð, og auk þess er hér tvítalin forsíðan frá 15. apríl 2010 en hana prýddi hljómsveitin FM Belfast, með þremur körlum og einni konu. Ef litið er á þessar tölur hlutfallslega kemur í ljós að 68,5% tölublaðanna hafa karlmann á forsíðunni og 31,5% konu. Þetta er vægast sagt lélegt kynjahlutfall og sýnir greinilega hvernig Monitor hampar frekar konum en körlum. Því að myndin á forsíðunni segir ekki allt: þeir einstaklingar sem prýða forsíðuna eru einnig í stóru viðtali í blaðinu.
En hausatalningunni (lesist: typpatalningunni) lýkur ekki hér því einnig má benda á þá “skemmtilegu” staðreynd að akkúrat 17 konur hafa birst á ofantöldum 17 forsíðum en hversu margir karlar hafa birst á hinum 37? Svar: fimm fleiri en forsíðutalan segir til um, eða samtals 42. Hvers vegna? Jú, vegna þess að einu sinni birtust þrír karlar á sömu forsíðunni og tvisvar hafa tveir tappar verið saman á forsíðu.
42 mínus 17 gera 25 og því skora ég á Monitor að hafa konur á forsíðum næstu 25 tölublaða til að jafna megi leika. Ég birti hér sama lista og í fyrri pistli mínum en nú, því miður, með 6 fleiri nöfnum en síðast. Þessum 25 framúrskarandi konum er full ástæða til að hampa:
Margrét Lára Viðarsdóttir, Þórdís Nadia Semichat, Kitty Von Sometime, Silja Hauksdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Harpa Einarsdóttir, Aðalbjörg Ósk Gunnarsdóttir, Margrét Erla Maack, Elín Hansdóttir, Sesselja Vilhjálmsdóttir og Valgerður Halldórsdóttir, Björk Guðmundsdóttir, Kristín og Þóra Tómasdætur, Yrsa Sigurðardóttir, Heiða Kristín Helgadóttir, Magga Stína. Katrín Ýr Bjarnadóttir, Laufey Haraldsdóttir, Rakel Garðarsdóttir, Hildur Knútsdóttir, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir og María Sigrún Hilmarsdóttir.
Þangað til, bless bless Monitor.
- Án takmarkana - 15. júlí 2021
- Besta fjárfestingin og forréttindin - 21. júní 2021
- Ein þeirra heppnu - 17. maí 2021