Þau sorgartíðindi bárust nýverið að heimsendir er í nánd. Harold Camping, milljónamæringur og predikari, gaf sorgartíðindin út á útvarpstöð sinni í Kaliforníu. Heimurinn eins og við þekkjum hann mun líða undir lok kl 06.00 á staðartíma í Kaliforníu þann 21. maí næstkomandi. Það þýðir að við Íslendingar verðum að vera undir það búin að ljúka umræðum um bankahrunið fyrir kl. 13:00 þann tuttugasta og fyrsta maí, nema náttúrulega við viljum halda sælunni áfram í eftirlífinu.
Þrátt fyrir að ýmsir svartsýnisseggir líti þennan heimsendir, með bölmóð og neikvæðni er nauðsynlegt að sjá tækifærin sem heimsendirinn hefur í för með sér rétt eins og þær hindranir sem vissulega fylgja. Það hlýtur að blasa við að einkaneysla og meðfylgjandi hagvöxtur ætti að rísa verulega næstu vikurnar og ná einhverskonar hámarki í kringum dómsdag en þó er ekki víst að vinnuhvatinn haldist sá sami fram undir það síðasta. Dagurinn stóri rétt slefar inn á nýtt kortatímabil sem gefur einstaklingum og fyrirtækjum einstakt tækifæri til að gera sér dagamun.
Einhverjir íbyggnir einstaklingar gætu hugsað sig tvisvar um og átt erfitt með að trúa predikaranum frá Kaliforníu, en þeir hinir sömu þurfa þá að líta á hinar ótvíræðu sannanir sem hann leggur fram við útreikning sinn á tímasetningu dómsdags. Harold Camping þessi, sem er menntaður verkfræðingur sem ætti nú að duga fyrir flesta, margfaldaði þrjár tölur, 5, 10 og 17 sem eru heilagar tölur og margfaldaði þær svo aftur. Sú rökrétta stærfræðiflétta gefur út 772.500 sem er akkúrat sá dagafjöldi sem hefur liðið frá fyrsta föstudeginum langa, en hann var 1. apríl árið 33. Þó svo að þessi sami Harold hafi spáð fyrir um heimsendi 6. september 1994, má ekki líta á nýjasta útreikninginn með neinu kæruleysi. Enda hefur hann unnið við endurútreikningin í 17 ár.
Heimsendir nálgast, og því er nauðsynlegt að endurmeta daglegt líf í samræmi við það. Allir megrunarkúrar ættu að fjúka fyrir rjómalöguðum sósum og feitu kjöti og rauðvínið sem hefur beðið upp í hillu eftir réttu tækifæri er við það að renna út. Hægt er að fullnýta heimildina á kreditkortinu áhyggjulaus og jafnvel hægt að gera framvirka samninga við allskyns efasemdarfólk sem mun án efa vera tilbúið að greiða út í hönd fyrir fasteign þína, sjálfsögðu afhent 22. maí 2011.
Ýmsir aðrir ljósir punktar eru í þessum umskiptum okkar. Kaldhæðnir einstaklingar gætu væntanlega brosað yfir því að daginn eftir brotthvarf okkar, er alþjóðlegur dagur líffræðilegs fjölbreytileika. Eins munu Bretar ekki fá skítugan skilding fyrir Icesave ósómann.
Framundan eru breyttir tímar hjá okkur flestum og geta þeir, með réttu hugarfari , orðið mjög lærdómsríkir og spennandi. Hinn hásívelaseraði grátkór sem virðist syrgja mjög svo þau örlög sem Bin Laden varð fyrir, geta mögulega, ef hugmyndir okkar um eftirlífið eru réttar, séð undrunarsvipinn á hinum heilaga stríðsmanni meðan hann reynir að hafa upp á hreinu meyjunum sjötíu og tveimur. Eins væri mögulega hægt að hafa upp á nokkrum þúsunda viðskiptavina hans.
Dómsdagur kemur einnig á mjög svo hentugum tíma fyrir alla stórunnendur enskrar knattspyrnu. Því síðasta umferð deildarinnar fer fram þann 22. maí, degi eftir stóradóm, sem þýðir að Liverpool hverfur í eilífðina sem sigursælasta lið enskrar deildarkeppni ásamt öðru liði. Hins vegar verður hryggilegt að þurfa að kveðja siðmenninguna án þess að Íslendingar hafi nokkurn tímann unnið Eurovision eða fengið að líta hina stórmerkilegu stjórnarskrá sem tekur fyrir lausagöngu búfjár og herskyldu, hrunvöldunum sjálfum.
Næstu vikur ættu að vera hinar allra fróðlegustu, og þýðir lítið að gráta björn bónda.
- Það rignir góðum fréttum - 9. júlí 2021
- Álhattaveislan verður aldrei haldin - 5. júní 2021
- Sköpum 7.000 störf - 27. mars 2021