Núna í maímánuði opnaði nýja tónlistarhúsið, Harpa. Húsið er gríðarstórt og á að standast öllum öðrum tónlistarhúsum snúning er varða hljómgæði og glæsileika. Um áraraðir hafði bygging á nýju tónlistarhúsi verið mikið baráttumál fyrir ákveðinn hóp í þjóðfélaginu, en af þeim sökum þótti það mikill sigur þegar í miðju góðæri var tilkynnt um byggingu hússins. Engu var til sparað og var dönsk arkitektarstofa fengin til að hanna húsið ásamt listamanninum Ólafi Elíassyni.
Tónlistarhúsið er þó einkar umdeilt, sérstaklega þegar litið er á kostnaðarlegu hliðina. Upphaflega átti Harpa að kosta um og yfir 12 milljarða, sem margir myndu nú segja að væri ansi há upphæð – jafnvel þó horfur hjá íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg hafi verið mjög góðar á þessum tíma.
Eitt stykki íslenskt efnahagshrun í október 2008 setti stórt strik í reikninginn. Skyndilega voru öll kostnaðarsöm verkefni sett á ís og átti það einnig við um Hörpuna. Þegar örlítið meiri stöðugleiki myndaðist þurftu menn að taka ákvörðun varðandi byggingu á nýju tónlistarhúsi. Ljóst var að áætlunin um tólf milljarða myndi aldrei standast þar sem gengi krónunnar hafði hrunið og mikil verðbólga myndast. Að lokum ákváðu íslenska ríkið og Reykjarvíkurborg að halda byggingunni áfram þrátt fyrir að upphæðin væri búin að rúmlega tvöfaldast og var komin upp í 27,5 milljarða! 10 milljarðar af þessum 27,5 voru afskifaðir en þeir 17,5 sem eftir stóðu munu þá lenda á skattgreiðendum eins og tónlistarstjóri Hörpu staðfesti í Kastljósi í byrjun aprílmánaðar. Þar kom fram að samningur sem ríki og borg gerðu um fjármögnun hússins gerir ráð fyrir að árlegur sameiginlegur kostnaður ríkis og borgar myndi nema 808 milljónum króna á ári í 35 ár. Samtals gerir það um 28,3 milljarða króna – af opinberu fé.
Með þessum pistli er ekki ætlunin að varpa neinni rýrð á húsið sem núna er verið að vígja heldur er einfaldlega verið að benda á ákveðnar staðreyndar sem vert er að setja spurningarmerki við. Það er verið að skera niður í menntamálum, heilbrigðismálum og félagsmálum en samt eru stórar fjárhæðir settar í tónlistarhús. T.d. réðst Reykjarvíkurborg í mjög harkalegan niðurskurð á menntasviði borgarinnar sem á að spara 300 milljónir á næsta ári, 404 milljónir fara hins vegar í Hörpuna, þetta sama ár. Einhvers staðar myndi fólk telja þetta ranga forgangsröðun.
Allir vona að Harpa muni standa fyrir sínu og að reksturinn muni vera sjálfbær og ganga vel. Slíkt er hins vegar ekki hægt að fullyrða og nú þegar er þetta hús búið að kosta skildinginn. Í kjölfar efnahagshrunsins töldu margir að íslenska þjóðin ætti að draga sér þann lærdóm að minnka áhættusemi sína. Sá lærdómur er að einhverju leyti vandfundinn í málefnum Hörpu. Vert er að minnast orða Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem lagði það til að tónlistarhúsið ætti að standa eftir óklárað sem minnisvarði um íslenska bankahrunið og hversu hratt hlutirnir geta farið úrskeiðis.
- Landsdómur í laumi - 18. mars 2012
- Tíu hlutir sem þú vissir ekki um Kim Jong-il - 5. janúar 2012
- Hvers vegna á ekki að lögleiða notkun fíkniefna? - 13. desember 2011