Fyrr í mánuðinum var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um hin margumræddu Icesave lög í kjölfar þess að forseti Íslands nýtti heimild 26. gr. stjórnarskrárinnar og vísaði þessu umdeilda máli til þjóðarinnar. Lengi vel var talið að heimild þessi væri upp á punt og nær óhugsandi að henni yrði einhvern tímann beitt. Annað hefur þó sýnt sig í embættistíð núverandi forseta, en þetta er í þriðja skiptið sem hann beitir ákvæðinu og tvisvar hefur verið boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þessa.
Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þannig gerir stjórnarskráin ráð fyrir því að ráðherrar fari með æðsta vald og ábyrgð í málefnum ríkisins, en ekki forsetinn. Forsetinn hefur þó heimild til þess að synja lagafrumvarpi staðfestingar og vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í sjálfu sér getur slík heimild haft mikið aðhald að Alþingi. Eins og heimildin lítur út í núverandi stjórnarskrá er forsetanum þó veitt algjört frelsi til þess að ákveða hvenær hann kýs að nýta þessa heimild og undir hvaða kringumstæðum. Með valdi þessu fylgir engin ábyrgð.
Sú staða gæti þannig komið upp að forseti gæti tekið upp á því að hafna hverri einustu löggjöf sem Alþingi samþykkir. Þjóðinni yrði vissulega gefinn kostur á því að kjósa um viðkomandi löggjöf (þótt slíkt væri tæknilega ómögulegt ef forsetinn tæki upp á því að hafna hverri einustu löggjöf), en engu að síður væri stórlega vegið að þingræðinu. Tæki forsetinn upp á að hafna hverri einustu löggjöf sem Alþingi samþykkir hefði það enn fremur engin áhrif á stöðu hans, nema kæmi til þess að 75% þingmanna myndi ákveða að setja fram tillögu um lausn hans úr embætti skv. 3. mgr. 11. gr. stjórnarskrárinnar og slíkt yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á þjóðaratkvæðagreiðslum er einn stór vankantur á 26. gr. stjórnarskrárinnar. Forsetinn hefur heimild til þess að neita að staðfesta lög en engar reglur gilda um það hvenær honum er það heimilt eða hvaða afleiðingar niðurstaða slíkra kosninga hefur á hans stöðu eða jafnvel stöðu þings og ríkisstjórnar.
Um þessar mundir sitja 25 stjórnlagaráðsfulltrúar yfir stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og vinna að samningu nýrrar stjórnarskrár. Núverandi stjórnarskrá á rætur sínar að rekja til dönsku stjórnarskrárinnar frá 1850. Stjórnarskránni hefur reglulega verið breytt síðan, en 26. greinin hefur lítið breyst að öðru leyti en að í staðinn fyrir „konungur” stendur nú „forseti” og forseta íslenska lýðveldisins að þessu leyti gefin sömu völd og dönskum konungi árið 1850 um það leyti sem einveldi var afnumið.
Þegar stjórnarskráin er í endurskoðun er mikilvægt að líta til þessa valds forseta. Vissulega getur ákvæði sem heimilar forseta að vísa lögum til þjóðaratkvæðagreiðslu haft varnaráhrif á einhversskonar valdníð frá Alþingi. Hins vegar getur forsetinn sjálfur stundað valdníð gagnvart sjálfu þingræðinu ef honum eru veittar frjálsar hendur í að ákveða hvenær, hvernig og hvers vegna hann hyggst hafna lögum. Sé ætlunin að halda þessu valdi forseta í nýrri stjórnarskrá er mikilvægt að setja nánari reglur um það hvenær honum er heimilt og rétt að vísa lögum í þjóðaratkvæði. Með valdi fylgir ábyrgð, það á ekki að eiga síður við um forsetann.
- Hvað verður um Evrópusambandið? - 10. desember 2011
- 540 daga stjórnarkreppa á enda – bara efnahagskreppan eftir - 3. desember 2011
- Vald án ábyrgðar - 20. apríl 2011