Afstaða formanns og forystu Sjálfstæðisflokksins um að semja skyldi við Breta og Hollendinga um lausn á milliríkjadeilu hefur vakið upp vonir meðal þeirra Sjálfstæðismanna, sem trúa á að sjálfstæði felist í meiri einangrun, íhaldssemi krefjist afturhalds og að betra sé að fylgja harðskeyttum mönnum heldur en skynsömum. Þessi hópur var hluti af þeim stóra meirihluta Sjálfstæðismanna sem kaus gegn samkomulaginu. Þessi staða virðist hafa veitt þessum hópi nýtt sjálfstraust og hamast nú á forystu flokksins með sama offorsi og komið var í tísku fyrir kosningarnar á laugardaginn.
Það er í raun ótrúlegt að fylgjast með umræðunni. Innan flokksins eru nokkrir fýsibelgir farnir að blása svo fast að minnstu smáfuglarnir í kringum þá hafa gjörsamlega misst stjórn á flugi sínu. Orðfæri eins og „svikarar“ er kinnroðalaust notað í umræðum um forystumenn flokksins og fulltrúar nýrrar kynslóðar upprennandi stjórnmálamanna, hátt á sjötugsaldri, boða að þeir muni rífa upp malbik með berum höndum og ganga hús úr húsi með undirskriftarlista til þess að ná fram pólitískum áhugamálum sínum innan flokks sem utan.
Það er löngum svo að öfgamenn hafa hátt, en hófsemdarmenn fara varlegar. Í kjölfar Icesave kosninganna er hins vegar komið í ljós að hópur æsingamanna er ekki aðeins ósammála forystu Sjálfstæðisflokksins á málefnalegum grundvelli, heldur vill nýta málið til þess að ryðja henni úr vegi,eða berja hana til þeirrar undirgefni sem ofríkir ættfeður heimta.
En þetta er hins vegar byggt á þeim misskilningi að hinn venjulegi Sjálfstæðismaður sjái hlutina sömu augum. Venjulegt fólk hefur nefnilega skilning á því að stundum geta menn verið ósammála um tiltekin mál en átt samleið um hugmyndafræði og framtíðarsýn engu að síður. Þannig var með Icesave málið. Framtíðarhagvöxtur, frjáls viðskipti við umheiminn, lágir skattar og mannvænlegt umhverfi eru stærra hagsmunamál heldur en hvers konar lausn verður í Icesave deilunni. Kostnaðurinn af því að hafa samfélagið áfram í gjaldeyrishöftum – en ekki síður höftum hárra skatta og tortryggni um allt athafnalíf – er miklu meiri en kostnaður af lausn Icesave málsins.
Stefna Sjálfstæðisflokksins hefur aldei átt meira erindi. Þá er ég að tala um þá víðsýnu stefnu um frelsi einstaklingsins, viðskiptafrelsi og lága skatta á fólk og fyriritæki og um leið ábyrga og framsýna stefnu í samskiptum okkar við útlönd, sem eru undirstða allra þeirrar miklu velmegunar og lífsgæða sem samfélagið okkar býður upp á. Fyrir þessum gildum er Bjarni Benediktsson öflugur talsmaður.
Það má vel vera að Bjarni Benediktsson þurfi að ávinna sér traust einhverra flokksmanna sem voru ósammála honum um hvort semja ætti við helstu viðskiptaþjóðir Íslands um friðsamlega lausn á erfiðu deilumáli. Það er hins vegar reginfirra að hann eigi möguleika á að vinna traust þeirra sem nýtt hafa sér málið til að ala á tortryggni í garð útlendinga, grafið undan mikilvægi alþjóðlegra viðskipta og samsktipta, hamast á óvinum sínum með áður óþekktu offorsi og sýnt af sér einhverjar ruddalegustu hliðar sem sést hafa í íslenskri pólitík undanfarna áratugi.
Sjálfstæðismenn og kjósendur flokksins eru skynsamt fólk. Formaður flokksins hefur vaxið í áliti hjá þeim flestum með því að taka erfiða afstöðu og sýna allar sínar bestu hliðar við að færa rök fyrir henni. Fái hann sæmilegan frið til þess innan flokksins mun hann halda áfram að efla stöðu sína sem öflugasti málsvari fyrir frjálst og opið samfélag á Alþingi. Sá hávaðasami minnihluti Sjálfstæðismanna sem hefur önnur pólitísk markmið en pólitískt og efnahagslegt frelsi mun hvort sem er aldrei styðja frjálslyndan og öfgalausan mann í formannsembættinu þegar á reynir.
Tilfinningaöldurnar um Icesave mun lægja. Ofstopafólk mun reyna að halda þeim á lífi meðan hægt er. Það er verkefni og skylda skynsams fólks að átta sig á því – að jafnvel þótt við séum sammála ofstopafólki í einu máli þá felur það ekki í sér þá skyldu að breytast sjálfur í ofstopamann.
Ríkisstjórnin mun falla og Sjálfstæðisflokkurinn mun komast í ríkisstjórn. Spurningin er bara hvort flokkurinn hafi áfram í forystu yfirvegaða menn sem munu hafa frelsi og opið samfélag að leiðarljósi þegar þeir komast til valda. Ef það tekst er komið í veg fyrir að íslensk pólitík verði á næstu árum og áratugum blóðugur vígvöllur þar sem framtíð þjóðarinnar verður metin léttvæg í samanburði við stundarhagsmuni stjórnmálamanna og flokka.
- Tilviljanasúpan í Wuhan - 27. júní 2021
- Verður heimsfaraldurinn fyrsti kaflinn ímun stærri sögu? - 20. júní 2021
- Þinglokaþokumeinlokan - 13. júní 2021