Í síðustu viku var háð úrslitaviðureign Gettu Betur fyrir fullu húsi í Háskólabíó. Að sjálfsögðu var lið Menntaskólans í Reykjavík í úrslitum, og ætti það ekki að koma neinum á óvart, en keppinautar þeirra voru úr Kvennaskólanum í Reykjavík.
Kvennskælingar hafa hingað til ekki gert miklar rósir í Gettu Betur og var þetta fyrsta úrslitaviðureign skólans. Hins vegar hafa MR-ingar nánast átt fast sæti í úrslitum síðustu árin, en þetta var 17. úrslitaeinvígi skólans og því miður það fyrsta sem ekki skilar Hljóðnemanum heim. Ég veit nú ekki hvers konar færibandsframleiðsla á spurningasnillingum fer fram í Lærða skólanum en að ná slíkum árangri ár eftir ár er magnað afrek (það var mjög erfitt fyrir útskrifaðan Verzling að skrifa síðustu málsgrein). Hins vegar virðist nýtt stórveldi vera að myndast í þessum geira, og ég tel það vera fagnaðarefni fyrir keppnina að fleiri skólar geri nú harðari atlögu að titlinum og veiti MR samkeppni.
Ég hef fylgst með Gettu Betur, eins og flestir landsmenn, síðan að ég var krakki. Fyrst úr fjarska með fjölskyldunni heima í stofu, og svo úr meira návígi í menntaskóla. Það sem að heillar mig einna mest við þessa keppni er að hún er bara beinskeitt spurningakeppni, eða svo ég sletti á enskunni, „straight out, no bullshit“. Þarna fá báðir skólar sömu tækifæri og betra liðið vinnur. Svo einfalt er það.
Það er þessi eiginleiki sem að ég held að Gettu Betur hafi fram yfir t.a.m. Útsvar. Mér finnst t.d. algjört grín að láta keppendur spretta að bjöllunni, nánast undantekningarlaust rífast um hana, og ef þeir ná taki á sama tíma eru fingur þeirra á bjöllunni taldir til úrskurðar um svarréttinn. Svona fyrirkomulag er blessunarlega ekki í Gettu Betur. Þó skal ég glaður viðurkenna það að Útsvar er mun sjónvarpsvænni keppni, og staðfesta áhorfstölur það. Mér hefur fundist vera léttur útvarpsbragur, ef svo má segja, á Gettu Betur undanfarin ár. Klassískt dæmi um það er þegar sjónvarpsáhorfandur er upplýstir um stigatöluna, oft í hverjum einasta þætti,: „Jæja Marteinn, hvernig standa stigin? – Jú stigin standa þannig að Kvennó er með 15 stig á meðan MR er með 13 stig.“
Hérna finnst mér Gettu Betur geta betur og ég vil sjá einhverja smá andlitslyftingu á þessu fyrirkomulagi að ári.
Í ár var bæði spyrli og stigaverði síðasta keppnisárs skipt út og í staðinn komu tvö ný andlit. Persónulega hefði ég viljað sjá Ásgeir Erlendsson sem spyril í ár, enda mjög vel að því kominn, en Edda Hermannsdóttir stóð sig með mikilli prýði. Það sama má segja um Martein stigavörð. Með komu þeirra fannst mér andrúmsloftið í ár vera mun léttara en í fyrra og ég held að það sé nauðsyn í eins grafalvarlegri keppni eins og Gettu Betur er.
Annað sem að ég tel vert að minnast á við þetta keppnisár er hversu mikill metnaður var lagður í tónlistaratriðin. Framlög skólana í ár voru hvert öðru betra, þangað til í úrslitaþættinum reyndar, og fékk MH að lokum verðlaun fyrir besta atriðið. Það var flutningur á laginu Fröken Reykjavík eftir Jón Múla Árnason og var vel að verðlaunum kominn. Mín eftirlætisatriði voru þó líklega flutningur á Flugi hunangsflugunnar eftir Rimsky-Korskaov, einnig af MH, og flutningur MR á Vikivaka eftir Jón Múla.
Yfir heildina litið var þetta mjög gott keppnisár í Gettu Betur. Með fullri virðingu fyrir MR-ingum held ég að það sé hollt fyrir keppnina að þeir vinni ekki ár hvert, þó svo að það hafi nánast verið raunin. Þeir eiga þó bjart framundan því mér skilst að Jón Áskell Þorbjarnarson, að mínu mati besti maður keppnarinnar, muni aftur keppa að ári.
Einnig var virkilega skemmtilegt að Laufey Haraldsdóttir, liðsmaður Kvennskælinga, varð fyrsti kvenkyns sigurvegari keppnarinnar frá upphafi. Ég efast ekki um að það verði hvatning fyrir kvenkyns keppendur komandi ára og vona ég að fleiri stelpur taki nú þátt í keppninni – og sanni þar með að Gettu Betur er ekki bara strákasport!
- Barátta sem skiptir máli - 14. júlí 2021
- Grænar tölur alls staðar - 3. júní 2021
- Áreiðanlegir heimildarmenn - 11. febrúar 2021