Icesave í smærri mynd

Hugsum okkur mann. Hann er ungur, kappsamur, pínu gráðugur, metnaðarfullur, kemur jafnan vel fyrir og gæti selt eskimóa klaka úr Reykjarvíkurtjörn. Köllum þennan einstakling Bigga fjárfesti. Hann Biggi er búinn að vera í mikilli uppsveiflu síðustu ár og fólk er farið að treysta honum fyrir peningunum sínum.

Hugsum okkur mann. Hann er ungur, kappsamur, pínu gráðugur, metnaðarfullur, kemur jafnan vel fyrir og gæti selt eskimóa klaka úr Reykjarvíkurtjörn. Köllum þennan einstakling Bigga fjárfesti. Hann Biggi er búinn að vera í mikilli uppsveiflu síðustu ár og fólk er farið að treysta honum fyrir peningunum sínum. Síðan fer að halla undan fæti. Það skellur á mikill samdráttur um víða veröld. Biggi stefnir í þrot. Hann skuldar fólki hér heima og erlendis mikinn pening. Á síðustu stundu tekst Bigga að redda sér fyrir horn og gera upp flestar skuldir sínar gagnvart Íslendingum með hjálp ættmenna sinna. Það sama er ekki hægt að segja um útlendinga. Biggi stendur eftir gjaldþrota með urmul af erlendum kröfuhöfum á bakinu og risavaxna skuld.

Til skjalana kemur Garðar Brown, hálfur Íslendingur, hálfur Breti með umsvifamikil viðskiptatengsl í báðum löndum. Hann Garðar gerir sér lítið fyrir og gerir upp þessar erlendu skuldir Bigga – án þess þó að láta hann beint vita. Garðar snýr sér beint að Bigga sem lofar að selja allt sitt og gefa Garðari upp í skuldina – það gæti hins vegar tekið tíma, allt upp í 2 –3 ár og að líklegast verði heimtur úr eignum Bigga ekki nema 90% af því sem Garðar upphaflega lagði út. Þá flækjast málin.

Garðar Brown sættir sig ekki við þessi málalok og hefur samband við bróður Bigga, hann Gunnar, en Gunnar var einn þeirra sem hjálpaði Gunnari að gera upp kröfurnar gagnvart Íslendingunum. Þrátt fyrir það er Gunni er ósköp eðlilegur Íslendingur í millistétt, giftur og á tvö börn. Ekki ríkur og ekki fátækur. Þar sem þeir eru skyldir blóðböndum krefst Garðar þess að hann borgi restina af skuldum Bigga, hann fer svo langt að hóta honum því að hann og fjölskylda hans verði hvergi óhult ef hann gerir ekki upp þessa skuld bróður síns. Núna skulum við árétta að Gunnari ber engin lagaleg skylda til að ábyrgjast skuldir bróður síns þótt Garðar vilji meina það. Gunnar kom ekki nálægt viðskiptum bróður síns og lifði allt öðruvísi líferni. Þrátt fyrir þetta krefst Garðar þess að hann borgi og hann skal undirrita samning þess efnis.

Til að bæta svo gráu ofan á svart fyrir Gunnar þá krefst Garðar þess að hann eigi að greiða vexti af þessu „láni“ og að skuldin skuli gerð upp í evrum en ekki krónum. Þannig að þessi krafa gæti auðveldlega hækkað upp úr öllu valdi við minnstu efnahagsbreytingar. Þannig að öll áhættan í samningnum er á Gunnari.

Gunnar stendur frammi fyrir vali:
a) Að bjóða fólki eins og Garðari Brown birginn og neita að samþykkja samningana. Garðar gæti þá í versta falli sótt rétt sinn fyrir dómstólum eins og tíðkast með önnur ágreiningsmál í lýðræðisríkjum.
b) Að samþykkja samningana og greiða um leið skuldir sem hann stofnaði ekki til og koma honum í raun ekkert við.

Þú velur þann 9. apríl.

Leikendur:
Gunnar – íslenskir skattgreiðendur
Biggi fjárfestir – Landsbankinn
Garðar Brown – Bretar og Hollendingar