Ég hef aldrei tekið undir með þeim sem kvarta undan amerískum menningaráhrifum á Íslandi. Ég ólst upp í Bandaríkjunum og hef bara nokkuð gaman af amerískri menningu. Hins vegar finnst mér að menning uppeldislands míns hafi haft slæm áhrif á Icesave umræðuna sem nú er í gangi. Einkum virðist mér sem þeir sem öskra hæst um að halda uppi heiðri Íslands með því að segja þessum útlendingum að eiga sig hafi horft á aðeins of margar bíómyndir frá vinum okkar í vestri.
Það eru nefnilega engir góðir gæjar og engir vondir gæjar í þessu máli. Það er enginn að reyna að kúga okkur og það er enginn að níðast á okkur. Það eru einfaldlega þrjár þjóðir að reyna að leysa erfitt mál þannig að allir geti verið sæmilega sáttir (eða svipað ósáttir). Eins og siðaðra manna háttur er, hefur það verið gert við samningaborðið.
Kosningarnar snúast heldur ekki um hvort við viljum borga skuldir vondra bankamanna eða ekki. Við erum þegar byrjuð að borga fyrir mistök bankamanna og fyrrverandi ráðamanna og við munum líka borga fyrir þessi mistök þeirra á einn hátt eða annan. Það er helvíti skítt en þannig er það nú samt.
Í amerískum bíómyndum er allt mjög einfalt. Í Die Hard var Bruce Willis góði gaurinn og austur-þýski hryðjuverkamaðurinn var vondi karlinn. Í Top Gun var Tom Cruise kúl og Val Kilmer var hálfviti. Í Independence Day héldum við með mannkyninu því geimverurnar voru að reyna að drepa okkur öll.
Icesave málið er ekki eins svart-hvítt. Í boði eru tveir kostir: Að samþykkja núverandi samning eða ekki. Báðir eru vondir. Við megum því ekki einfalda málið eins og um ameríska bíómynd sé að ræða. Við verðum að leggja þjóðrembu og reiði í garð bankamanna til hliðar og skoða málið vandlega frá báðum hliðum.
Fróðari menn en ég hafa tíundað kosti og galla samningsins og ég ætla ekki að endurtaka þá hér í stuttum pistli enda er ógrynni af upplýsingum aðgengilegar á netinu og annars staðar. Ég hef hins vegar gert upp hug minn.
Ég segi JÁ 9. apríl. Ég er ekki ánægður með það en ég er sannfærður um að það sé skárri kosturinn. Ég segi JÁ við að ljúka þessu leiðindamáli, JÁ við að Ísland standi við skuldbindingar sínar, JÁ við að leysa íslenskt atvinnulíf úr viðjum Icesave, JÁ við að horfa fram á veginn.
- Munum fórnarlömbin.Gleymum skrímslinu. - 4. ágúst 2011
- Ég segi JÁ - 1. apríl 2011
- Má ég fá laun? - 10. mars 2011